23.03.1988
Neðri deild: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6083 í B-deild Alþingistíðinda. (4146)

293. mál, áfengislög

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tel að hér sé ekki stórt mál á ferðinni og síst af öllu í hlutfalli við þá athygli sem fjölmiðlar hafa haft á þessu efni. Ég hef ekki trú á boðum og bönnum í sambandi við vímugjafa og ég tel að þar verði hver einstaklingur að bera ábyrgð á eigin gerðum. Ég tel að öflugt forvarnastarf í áfengismálum sé mikils virði og þar þurfi að taka á með öðrum hætti en gert hefur verið til þessa. Ég tel einnig að breyta þurfi áfengislöggjöfinni í landinu þannig að landsmenn eigi sem jafnastan aðgang að þeim vörum sem hún hefur að bjóða, en núverandi aðstæður eru óhæfar í þeim efnum. Þrátt fyrir þessa annmarka og með vísun til þess sem ég hef sagt segi ég já.