24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6135 í B-deild Alþingistíðinda. (4195)

371. mál, jöfnun á orkuverði

Jón Sæmundur Sigurjónsson:

Herra forseti. Það er alveg greinilegt á öllum málatilbúnaði sem hafður hefur verið í þessu máli, þ.e. jöfnun raforkuverðs í landinu og þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til, að sú till. sem hér liggur frammi er helber sýndartillaga. Það er ekki nokkrum blöðum um að fletta hvað það snertir. Sú skýring hefur verið gefin að flm. hafi ekki verið ljóst hvaða starf á sér stað innan ríkisstjórnarinnar. Mér þykir það heldur furðulegt að framsóknarmönnum skuli ekki finnast þetta mál það mikilvægt að þeir hreyfi því innan síns þingflokks hvað sé verið að gera í þessum málum innan ríkisstjórnarinnar. Þannig að mér kemur þetta heldur furðulega fyrir sjónir.

En ekkert er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Ég fagna að því leyti flutningi þessarar till. að hún gefur enn og einu sinni tækifæri til að þrýsta á um þetta mál. Þar er slíkt réttlætismál á ferðinni að það er ekki nema gott að ráðherrar okkar finni þann þunga sem liggur að baki þessa máls, finni þann þunga sérstaklega sem landsbyggðarþingmenn verða fyrir og finna fyrir hjá kjósendum sínum, að þeir verði varir við hvað hér er á ferðinni. Og það liggur á að á þessum málum finnist lausn.

Ég hef fengið frá fulltrúum af landsbyggðinni, frá Hofsósi, reikninga frá RARIK sem sendir hafa verið til viðkomandi í janúar sl., upphæðir upp á tæplega 29 000 kr. fyrir 73 daga. Þ.e. menn hafa þurft að greiða í orkukostnað upphæðir sem svara um 12 000 kr. á mánuði. Þetta eru auðvitað verulegar upphæðir fyrir fólk sem hefur ekki annan starfa en þann að vinna að fiski í frystihúsinu á staðnum og bera heim til sín eitthvað um 50 000 kr. á mánuði. Þetta fólk þarf að greiða um 1/5 sinna tekna í orkukostnað. Það er þetta vandamál sem við búum við og sem við verðum að leysa.

Nú má segja að forsendur geti verið mismunandi. Íbúðir geti verið mismunandi og þess vegna sé orkukostnaður auðvitað mismunandi. Það hefur verið sett upp skrá frá RARIK, og send til býsna margra hér á þinginu, yfir hitunarkostnað við staðalbúðir. Þar kemur fram að það kosti eitthvað um 58 000 kr. á ári að hita staðalíbúð á upphitunarsvæði RARIK og það er miðað við olíukostnað upp á 46 000 kr. á ári. Nú er hitaveita á Sauðárkróki rétt við Hofsós ákaflega ódýr. Þar er hitunarkostnaður á staðalbúð talinn eitthvað í kringum 22 000 kr. á ári, þ.e. sá mismunur, sem iðnrh. taldi upp hér áðan að væri eitthvað í kringum þrefaldur, hann staðfestist í þessum skýrslum. Auðvitað er þessi mismunur svo mikill að við sjáum hvað mikið réttlætismál er hér á ferðinni og ekki eftir neinu að bíða, eins og mér virðist á till. framsóknarmanna að þeir vilji gera, bíða fram á næsta ár.

Það hefur verið talað um að vandinn hafi aukist vegna þess að olíuverðið hafi lækkað og mismunurinn hafi þess vegna orðið svo mikill. Þá sjáum við hversu óheppilegt það er að við höfum einn einokunaraðila hér í landinu sem selur orku og skiptir sér ekki að nokkru leyti af þeim markaðslögmálum sem manni virðist gilda á öllum öðrum sviðum í landinu, þ.e. þegar markaðurinn segir til um að orkuverð fari lækkandi skiptir þessi einokunaraðili sér ekki nokkurn skapaðan hlut af því hvað markaðurinn er að gera í kringum hann. Ég held að sú nefnd sem núna er tekin til starfa innan ríkisstjórnarinnar verði að huga að því að því sé fylgt eftir, þegar markaðurinn bendir til að orkuverð fari lækkandi, að einokunaraðilinn taki tillit til þess.

Á sama tíma og olíuverð hefur farið lækkandi hefur orkuverð frá RARIK á ársgrundvelli hækkað fyrir Hofsósbúa um rúmlega 50% og það meðan framfærsluvísitalan hefur ekki hækkað á sama tímabili nema um 22% og olía til húshitunar um 24,6%. Þetta er einnig vandinn í hnotskurn.

Að öðru leyti fagna ég framtaki ríkisstjórnarinnar undir forustu iðnrn. og vona að sú nefnd sem er þar að störfum nái árangri, nái árangri á þessu ári þannig að þeir íbúar landsins sem búa við allt of hátt orkuverð fái úrbót sinna mála.