24.03.1988
Sameinað þing: 66. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6160 í B-deild Alþingistíðinda. (4214)

373. mál, launajöfnun og ný launastefna

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér nú hljóðs hér í tilefni af orðum hv. þm. Þórhildar Þorleifsdóttur en af því að ég kem hér næstur í ræðustól á eftir hv. 5. þm. Vesturl. get ég ekki látið hjá líða að gera svona örfáar athugasemdir við hans ræðu og þá fyrst það að hann heldur því fram að við samþykkt svona tillögu þá myndist stórfelldur hagnaður í fyrirtækjum og hann spyr: Hvað á að gera við þann hagnað? Nú hygg ég að ef lægstu launin yrðu hækkuð eins og hér er gert ráð fyrir mundi nú ekki verða mikill hagnaður út af fyrir sig af því einu að lækka um leið hæstu launin. En þar sem það yrði gert ætla ég að svara hv. þm. því hvernig á að leysa þann gífurlega vanda. Það er með skattlagningu á þessi fyrirtæki, til samneyslunnar og hinnar félagslegu þjónustu, til heilbrigðismála, menntamála og vegamála, jafnvel á Vesturlandi og víðar. Þannig yrði það nú leyst. Ég hef því alveg hverfandi áhyggjur af þessu máli, hv. þm. Hvernig á svo að ná þessu markmiði? „Sósíalisminn er það einfalda sem er flókið í framkvæmd“, sagði Bertolt Brecht. Og þetta tekur auðvitað allt tíma. Hér erum við að setja fram markmið sem við gerum okkur alveg grein fyrir að menn ná ekki á einni nóttu en þetta eru þau markmið sem við viljum setja okkur. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að laun eigi í grófum dráttum að vera jöfn, það er mín skoðun. Ég sé engin rök fyrir því að við sem erum fædd öll eins í upphafi eigum að vera með mismunandi laun fyrir að vera til þó við vinnum eitthvað aðeins mismunandi vinnu. Þannig að ég vil ganga mjög langt í launajöfnun, mjög langt, og þetta eru þau markmið sem við setjum okkur þarna í þessu plaggi.

Varðandi það sem hv. þm. Guðmundur Ágústsson sagði svo um það að lög ætti ekki að setja til þess að hafa afskipti af launamarkaðinum, gott og vel. Það getur út af fyrir sig verið sjónarmið, sérstaklega vegna þess að það hefur yfirleitt verið hér hægri meiri hluti á Alþingi sem hefur notað þessi lög til að keyra niður kaup og kjör í landinu. Hins vegar hefur það aftur og aftur gerst að pólitískur meiri hluti á Alþingi hefur verið notaður til hins gagnstæða, þ.e. að lyfta hinum lægstu launum í landinu. Dæmi: Lög um tekjutryggingu elli- og örorkulífeyrisþega þar sem tekjur þessa fólks voru tvöfaldaðar með lögum 1971. Lög um vísitölubindingu launa sem hér hafa aftur og aftur verið í gildi eru vissulega lög um lágmarkslaun. Lög um kjaramál frá 1. sept. 1978 þar sem voru teknar ákvarðanir um að lyfta kaupinu og kaupmætti launa m.a. með því að fella niður söluskatt af matvörum sem nú hefur verið lagður á aftur. Aftur og aftur getum við fundið dæmi um það að lagasetning hefur verið notuð til þess að lyfta fólki í launum, þ.e. þeim tekjum fólks sem það hefur til að lifa af. Þess vegna er ekkert nýtt í þessu efni út af fyrir sig. Þó að hér hafi á seinni árum komið tillögur í þessa veru má segja að þær séu aðeins staðfesting á þeim veruleika sem menn hafa horft á í kringum sig.

En ég vil sérstaklega, virðulegi forseti, taka hér undir þau orð sem hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir sagði í lok sinnar ræðu áðan. Það sem skiptir máli er það að hér hafa komið fram í þinginu fjöldamargar tillögur varðandi launa- og kjaramál. Það kann að vera að okkur greini á um einstök minni háttar útfærsluatriði. Hitt er ljóst, í mínum huga, að í þessum tillöguflutningi er skýr pólitískur samnefnari. Á grundvelli þess eigum við síðan að þróa umræðuna áfram þannig að okkur takist að sameina hreyfingu til heildarátaka og þeir starfi saman sem saman eiga.