11.04.1988
Sameinað þing: 67. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6179 í B-deild Alþingistíðinda. (4241)

362. mál, tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna

Flm. (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna. Flm. till. eru ásamt mér hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Ingibjörg Daníelsdóttir. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela félmrh. í samráði við Jafnréttisráð að móta og leggja fyrir Alþingi tillögur um sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna þannig að koma megi sem fyrst á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, sbr. 3. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.“

Þriðja grein laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hefur að geyma eitt umdeildasta ákvæði í lögunum, en þar segir: „Þó teljast sérstakar tímabundnar aðgerðir, sem ætlaðar eru til að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna, ekki ganga gegn lögum þessum.“

Með breytingu á lögunum árið 1985 er viðurkennt að ekki er nóg að ganga út frá ríkjandi ástandi heldur þurfi beinlínis að bæta stöðu þeirra sem verr eru settir. Ástæðan fyrir því að þetta ákvæði var svo umdeilt hefur eflaust verið sú að í krafti þess er hægt að beita óhefðbundnum aðgerðum til að rétta hlut kvenna. Sannleikurinn er nefnilega sá að þeir sem búa við forréttindi eru ófúsir að rýma til fyrir öðrum. 3. gr. laganna var svo samþykkt að lokum hér á Alþingi og er löngu orðið tímabært að nota þetta ákvæði laganna. Enn sem komið er hefur ekki verið gripið til neinna „sérstakra tímabundinna aðgerða“ til að bæta stöðu kvenna. Því er fyllilega tímabært að mótaðar verði tillögur um slíkar aðgerðir, ekki síst í ljósi þess hve seint og illa miðar að koma á jafnstöðu kynjanna eftir þeim leiðum sem hingað til hafa verið farnar.

Í hverju geta svo slíkar aðgerðir verið fólgnar? Það fyrsta sem kemur í hugann er sá mikli munur sem er á launum kvenna og karla. Það er ekki einungis þannig að laun fyrir hefðbundin kvennastörf eru miklu lægri en laun fyrir hefðbundin karlastörf heldur eru laun kvenna sem vinna við hlið karla við sömu störf einnig lægri. Þannig virðist það ekki vera mat á störfunum sem þarna ræður heldur af hvaða kyni þeir eru sem vinna störfin.

Það vekur einnig athygli að því meiri menntunar sem krafist er til starfanna því meiri launamunur er á milli kynjanna. Komið hafa fram hugmyndir um að hækka laun kvennastétta sérstaklega. Hækkun lægstu launa þannig að þau dugi til framfærslu, t.d. með lögbindingu, mundi hækka laun stærstu kvennastéttanna verulega. Athugun á því hvað aðrar þjóðir hafa gert f þessum efnum geta gefið hugmyndir um leiðir.

Tímabundinn forgangur kvenna við stöðuveitingar á vegum hins opinbera og aukinn hlutur kvenna í nefndum og ráðum hjá opinberum aðilum er eitt af því sem reynt hefur verið víða erlendis til að bæta stöðu kvenna. Hér á landi hefur lítið verið gert með beinum hætti varðandi slíkan tímabundinn forgang. Þann 22. júlí 1987 sendi hæstv. félmrh. Jóhanna Sigurðardóttir ráðuneytum, stofnunum og fyrirtækjum ríkisins bréf þar sem því er beint til þeirra að gera átak í því að ná settum markmiðum í jafnréttismálum. Jafnréttisráð hefur einnig beitt sér fyrir því að ráðuneyti og stofnanir móti sér stefnu eða áætlun um það hvernig auka megi hlut kvenna í stjórnunarstöðum hjá ríkinu og hvernig vinna megi að jafnrétti kynjanna á þessum stöðum. Þetta eru allt óbeinar aðgerðir og beinast aðallega að ráðuneytum og opinberum stofnunum. Ekki þarf síður að vinna að bættri stöðu kvenna á öðrum vinnustöðum.

Aðgerðir í þágu kvenna sem byggja á svipuðum lagagreinum og 3. gr. jafnréttislaganna eru af ýmsu tagi í öðrum löndum. Á Norðurlöndum hafa mest verið notaðir kvótar, t.d. í Svíþjóð og Noregi, og eru oftast þannig að ákveðið hlutfall þurfi að vera af hvoru kyni á viðkomandi stöðum. Opinberir aðilar í Svíþjóð hafa í sumum tilvikum bundið stuðning við fyrirtæki við að sérstakar aðgerðir verði gerðar til að bæta stöðu kvenna í fyrirtækjunum. Í Bandaríkjunum hafa allt frá sjöunda áratugnum verið í gildi ýmis lög sem opna leiðir til jákvæðra aðgerða. Mörg fyrirtæki eru skyldug til að gera framkvæmdaáætlanir, t.d. öll sem hafa fengið verktakasamning af vissri stærðargráðu við ríkið. Í Bandaríkjunum er hægt að höfða mál gegn atvinnurekendum vegna brota á jafnstöðulögunum. Einna frægust málaferli af þessu tagi voru þegar stórblaðið New York Times var dæmt árið 1978 fyrir kynjamisrétti. Blaðið var dæmt til að leggja fram framkvæmdaáætlun sem var viðurkennd af dómstólum og hrinda áætluninni í framkvæmd líka. Áætlunin miðaði að því að 30% allra blaðamanna- og ritstjórnarstaða yrðu skipaðar konum og 25% yfirmannastaða. Ekki hefur heyrst að dregið hafi úr gæðum blaðsins við þessar aðgerðir.

Ráðgjöf, námskeið og fjárstuðningur við konur vegna endurmenntunar og atvinnúþátttöku er einnig leið sem t.d. Norðurlandaþjóðirnar hafa farið.

Vel getur komið til greina að stofna opinberan sjóð til að standa undir kostnaði og styrkjum við séraðgerðir til að jafna stöðu kvenna jafnframt því sem veitt yrði til þess fé á fjárlögum hverju sinni. Eðlilegt verður að telja að haft sé samráð við aðila vinnumarkaðarins þegar þessar tillögur eru mótaðar þar sem þær koma sérstaklega við þá samninga milli þeirra.

Ýmsar alþjóðastofnanir og samtök hafa einnig gripið til aðgerða til að bæta stöðu kvenna innan sinna vébanda. Má þar nefna Alþjóðavinnumálasambandið og Sameinuðu þjóðirnar. Liður í undirbúningi að mótun tillagna um séraðgerðir til að bæta stöðu kvenna hérlendis er að afla vitneskju um aðgerðir annars staðar og reynsluna af þeim.

Rétt er að minna á aðild Íslands að alþjóðasamningi um afnám allrar mismununar gagnvart konum sem samþykktur var af Alþingi 13. júní 1985 og staðfestur af ríkisstjórninni 18. júní 1985. Í 4. gr. hans er m.a. kveðið á um "... sérstakar bráðabirgðaráðstafanir sem miða að því að flýta fyrir að raunverulegt jafnrétti karla og kvenna náist ...“ Ísland hefur tekið á sig margháttaðar skuldbindingar með aðild sinni að þessum samningi.

Ég vil einnig minna á að á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1986 var Ísland meðflytjandi að tillögu þar sem ríki eru hvött til að fullgilda alþjóðasamninginn. Í tillögunni er einnig lögð áhersla á mikilvægi þess að aðildarríkin standi stranglega við skuldbindingar sínar samkvæmt samningnum. Við getum ekki verið þekkt fyrir annað en að taka á þessum málum. Með flutningi þessarar þáltill. er ýtt á eftir að svo verði.

Ég er samt ekki svo bjartsýn að halda að eitthvað eitt dugi til að koma á kvenfrelsi. Ef vilji er fyrir hendi getur sú leið, sem ákvæði 3. gr. felur í sér, gefið vissa möguleika á að bæta stöðu kvenna með raunhæfum aðgerðum.

Að lokinni umræðu legg ég til að till. verði vísað til síðari umr. og hv. félmn.