14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

9. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Svavar Gestsson):

Virðulegi forseti. Ég tek það fram að ég mun að venju stilla orðum mínum mjög í hóf til að móðga ekki þessar hátignir Alþfl. sem tóku þátt í síðustu umræðu. Þeim sárlíður illa undir eðlilegum athugasemdum um stjórnarathafnir núverandi ríkisstjórnar og það hvernig Alþfl. gengur á svig við kosningaloforð sín. Það er ánægjulegt að hv. þm. Eiður Guðnason skuli fagna því sérstaklega að ég skuli vera að hætta sem formaður Alþb. Það bendir til þess að honum hafi kannski þótt nokkuð til mín koma í því starfi. Það er ánægjulegt að hann skuli fagna því alveg sérstaklega, en ég verð jafnframt að hryggja hann með því að ég mun sitja í Ed. þetta kjörtímabil. Ég veit að honum sárnar það og leiðist vafalaust að hafa mig hér þetta kjörtímabil, en ég lýsi því yfir fyrir allt kjörtímabilið að ég mun leyfa mér að anda á hátignirnar báðar tvær eftir þörfum og ástæðum og málefnum á hverjum tíma. Ég veit að þetta getur reynt á taugarnar hjá þeim, getur valdið uppþotum og erfiðleikum, en það er nú einu sinni hlutverk stjórnarandstöðunnar að ræða við stjórnarflokkana. Þeir sem hér eru inni frá Alþfl. hafa ekki verið aðilar að stjórnarmeirihluta lengi, eru óvanir því að láta gagnrýna sig og þola það illa, en þrátt fyrir það verður því haldið áfram eftir því sem þörf krefur. Ég skal þó leggja mig fram um það, ef ég tek eftir því að mönnum líður átakanlega illa og eru orðnir mjög titrandi í stólum sínum vegna orða minna, að reyna að stilla orðum mínum í hóf eins og frekast er kostur þannig að ég stuðli ekki að því að heilsa manna versni tiltakanlega um leið og ég geri athugasemdir mínar hér.

Það frv. sem hér liggur fyrir, virðulegi forseti, snertir breytingu á lögunum um tekju- og eignarskatt og er á þskj. 9. Þar er um að ræða sex mjög þýðingarmiklar breytingar á skattalögum. Það er í fyrsta lagi að dregið verði úr frádráttarheimildum fyrirtækja. Í öðru lagi að veittur verði sérstakur frádráttur frá hagnaði vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Í þriðja lagi að gerðar verði ráðstafanir til að koma í veg fyrir eins og kostur er að persónuleg eyðsla forráðamanna fyrirtækja verði færð á reikning þeirra og þar eru einnig gerðar tillögur um meðferð risnufjár. Í fjórða lagi er í þessu frv. gert ráð fyrir verulegri einföldun á framtölum einstaklinga. Í fimmta lagi að fram fari samkvæmt úrtaki árleg rannsókn á fjárhag 100 fyrirtækja a.m.k. Og í sjötta lagi að fjármagnstekjur verði allar skattskyldar.

Hér er sem sagt um að ræða róttækar tillögur um kerfisbreytingar á íslenska skattakerfinu. Í tilefni af því að mjög hefur verið rætt um nauðsyn breytinga á skattakerfinu og hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því yfir að hún muni flytja frv. í þeim efnum á yfirstandandi þingi töldum við rétt að sýna þær tillögur sem við höfum fram að færa í þessu efni þannig að það liggi fyrir hvaða tillögur við gerum varðandi breytingar á skattakerfinu.

Ég kem þá fyrst að tillögunum um breytingar a sköttum fyrirtækjanna. Þar er gert ráð fyrir því að greinin sem fjallar um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri, sem er 31. gr. gildandi skattalaga, breytist verulega. Inngangur greinarinnar er svona:

„Frá tekjum lögaðila og þeim tekjum manna sem stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi eða eru tengdar slíkum rekstri má draga. . .“ Síðan eru taldir hér upp hvorki meira né minna en ellefu liðir sem fyrirtæki mega draga frá áður en þau eru skattlögð.

Það fyrsta sem við leggjum til að verði fellt niður er heimild fyrirtækja til að draga frá útistandandi viðskiptaskuldir í árslok til viðbótar við þær útistandandi viðskiptaskuldir sem eru tapaðar og sannanlega tapaðar. Í gildandi lögum segir að fyrirtæki má draga frá tap á útistandandi viðskiptaskuldum á því tekjuári sem skuld er sannanlega töpuð. Þetta leggjum við til að haldi sér í frv. Síðan segir í gildandi lögum: „Útistandandi viðskiptaskuldir í árslok er heimilt að færa niður um allt að 5% og telja þá fjárhæð til frádráttar skattskyldum tekjum.“

Við leggjum til að þessi heimild verði í áföngum felld niður á þremur árum eða svo. Hér er um að ræða verulega einföldun á skattlagningu fyrirtækja og er þetta þó aðeins fyrsti þátturinn af þeim róttæku brtt. á skattakerfinu sem við erum hér með.

Í fjórða lagi gerum við þá tillögu að það breytist greinin sem fjallar um matsverð vörubirgða í lok reikningsárs sem heimilt er að færa niður um allt að 10% og færa þá fjárhæð til frádráttar skattskyldum tekjum. Ég geri ráð fyrir því í þessum texta að þessi heimild verði felld niður í áföngum á nokkurra ára bili.

Nú vil ég taka það fram og hafa þann almenna fyrirvara um þessa grein og fleiri reyndar að það kann að vera að þessi þáttur þurfi sérstakrar athugunar við sem við erum auðvitað til viðtals um að skoða í þingnefnd þegar málið fær þar þinglega meðferð, en hér er auðvitað um að ræða reglu sem er hæpin sem allsherjarregla og ætti að vera eitthvað mismunandi eftir því um hvaða fyrirtæki er verið að ræða.

Í þriðja lagi gerum við þá brtt. við 31. gr. laganna að 11. liðurinn, um framlög í fjárfestingarsjóði sem voru ákveðin af síðustu ríkisstjórn, falli niður. Rökin eru þau að það sé ekki ástæða til að hvetja með skattfríðindum til aukinnar fjárfestingar í þjóðarbúskapnum eins og sakir standa. Þess vegna er lagt til í 1. gr. frv. að þessi liður falli niður.

Í síðustu mgr. er nýmæli þar sem gert er ráð fyrir því að framleiðslufyrirtæki verði heimilt annað hvert ár að draga frá hagnaði allt að 5% vegna rannsóknar- og þróunarstarfsemi á vegum fyrirtækisins. Skal ríkisskattstjóri gefa út reglur um framkvæmd þessa ákvæðis að höfðu samráði við Rannsóknaráð ríkisins.

Hér er brotið upp á því nýmæli að fyrirtæki sem efna til átaks í rannsóknar- og þróunarstarfsemi geti dregið frá hagnaði sínum allt að 5% vegna átaks í rannsóknar- og þróunarstarfsemi. Um þetta mál gildir einnig fyrirvari af minni hálfu sem er sá: Þetta er erfitt að afmarka. Það er flókið að slá því föstu hvar mörkin eiga að vera í þessum efnum. Þegar ég tala í þessari grein um framleiðslufyrirtæki er ég ekki einasta að ræða um fyrirtæki sem stunda hefðbundna framleiðslustarfsemi heldur á ég við fyrirtæki sem eru í margvíslegum iðnaðar- og þróunarverkefnum, en tilgangurinn með þessu er að undirstrika að það sé eðlilegra að veita fyrirtækjum skattfríðindi vegna rannsóknar- og þróunarverkefna og jafnvel markaðsátaks, það sé eðlilegra en að veita fyrirtækjum frádrætti vegna fjárfestingar eins og ákvæðin um það í gildandi lögum eru nú.

Í 2. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir að breyta fyrningarhlutföllum við skattlagningu samkvæmt 38. gr. laga um tekju- og eignarskatt og er þar farið inn á svipaða braut og um var að ræða áður en ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við vorið 1984. Þannig er hundraðshlutum af fyrningargrunni breytt úr 10% í 8%, úr 15% í 12% og úr 20% í 15%.

Í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir að taka sérstaklega á því vandamáli að á því hefur borið og er einn mikill þáttur í þeirri skattsvikaskýrslu sem við vorum að ræða áðan að forráðamenn fyrirtækja hafa fært persónulega eyðslu á fyrirtækin. Í 52. gr. laga um tekju- og eignarskatt segir svo: „Til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. eða til frádráttar skattskyldum tekjum á einn eða annan hátt er ekki heimilt að telja . . .“, síðan eru talin upp þrjú atriði sem aldrei má telja til rekstrarkostnaðar samkvæmt 31. gr. né til frádráttar skattskyldum tekjum. Hér er um að ræða atriði eins og t.d. fjársektir eða önnur viðurlög, hverju nafni sem nefnast, vegna refsiverðs verknaðar skattaðila sjálfs, þar með talið verðmæti upptækra eigna eða greiðslur þess í stað o.s.frv.

Hér gerum við tillögu um að bæta því við þessa grein að aldrei megi telja til rekstrarkostnaðar né heldur til frádráttar frá skattskyldum tekjum á einn eða annan hátt eins og nú segir:

1. Persónulega eyðslu forráðamanna fyrirtækis eða starfsmanna þess er óheimilt að telja til rekstrarkostnaðar. Skal ríkisskattstjóri gefa út reglur árlega um takmörk samkvæmt þessum tölulið.

2. Risnu má ekki telja til rekstrarkostnaðar nema hún sé sannanlega í þágu fyrirtækisins. Ríkisskattstjóri setur reglur um risnukostnað fyrirtækja eftir stærð þeirra og veltu og með hliðsjón af markaðsstöðu fyrirtækjanna. Við ákvörðun sína skal ríkisskattstjóri gæta þess sérstaklega að persónuleg eyðsla fyrirtækis eða starfsmanna þess færist aldrei á kostnað fyrirtækisins.

Þegar ég flutti svipaða tillögu á þinginu í fyrra um þetta efni var því haldið fram að fyrri mgr. væri í raun og veru óþörf vegna þess að það væri hvort eð er ekki heimilt að færa persónulega eyðslu á reikning fyrirtækja. Ég taldi hins vegar að nauðsynlegt væri að ítreka þetta með afgerandi hætti. Varðandi risnuna er það þannig hér á landi að um það efni gilda losaralegar reglur, en í skattalögum t.d. í Finnlandi og Noregi eru um þetta nokkuð skýr ákvæði sem ég var svo heppinn að heyra gerða grein fyrir á fundi um skattamál á Norðurlöndum sem haldinn var a vegum Norðurlandaráðs í september 1986. Það er sem sagt hægt að setja reglur í þessu efni og ég held að það sé óhjákvæmilegt að á því máli verði tekið.

5. gr. þessa frv. er aðeins afleiðing af 1. gr.

Þá er ég búinn að fara yfir það sem lýtur að fjárhag fyrirtækja, þ.e. að fella niður í áföngum heimildir fyrirtækja til að draga frá skatti 5% af matsverði vörubirgða, að fella niður í áföngum heimild fyrirtækja til að afskrifa 10% útistandandi viðskiptaskulda í árslok, en haldið er inni heimild til þess að draga frá sannanlega tapaðar viðskiptaskuldir, að fella niður heimild til að draga frá skatti framlög í fjárfestingarsjóð og draga úr fyrningarheimildum fyrirtækja. Þetta eru aðalbreytingarnar sem lúta að fyrirtækjum.

Áður en ég kem að hinum þáttunum vildi ég bæta því við að í frv. eins og það hér liggur fyrir er ekki tillaga um að breyta skattaprósentu fyrirtækja. Fyrir fáeinum árum var þessi skattaprósenta 65%, ef ég man rétt. Núna er hún lægri eða um 50%. Ég vil taka það fram sem mína skoðun að ég tel vel koma til greina að breyta þeirri prósentu um leið og dregið er verulega úr frádráttarheimildum fyrirtækjanna.

Ég kem þá að öðrum meginþætti brtt. sem við flytjum á þskj. 9, en þar er opnað fyrir þann möguleika að fólk geti losnað við framtöl sín um hver áramót með sérstökum heimildum sem hver og einn verður að undirrita til skattstofanna. Hugmyndin er sú að einfalda þetta kerfi að því er varðar almenning. Ég bendi á í þessu sambandi að í grg. kemur fram að hliðstætt kerfi hefur þegar verið tekið upp í Danmörku með nýjum skattalögum sem þar tóku gildi að mig minnir frá og með áramótum 1987 frekar en 1986. Alla vega er það mjög nýlegt. Afleiðingin hefur orðið sú að stór hluti skattgreiðenda, ellilífeyrisþegar og fleiri slíkir aðilar með mjög einfaldan fjárhag, þurfa ekki að standa í allri þeirri pappírsvinnu sem fylgir framtölum og veldur fólki auðvitað oft áhyggjum vegna þess að fólk á misjafnlega auðvelt með að plægja í gegnum þetta. Hér er ekki gert ráð fyrir að um skyldu verði að ræða vegna þess að fjölda margir, einnig þeir sem eru með einfaldan fjárhag, vilja annast þetta sjálfir. En greinin eins og hún er hér er þannig orðuð, með leyfi hæstv. forseta:

„Framtalsskyldur einstaklingur samkvæmt þessari grein getur heimilað skattyfirvöldum að ganga að öllu leyti frá framtali sínu og skattlagningu samkvæmt upplýsingum sem skattyfirvöld afla sér frá opinberum aðilum, bönkum, sparisjóðum, lífeyrissjóðum eða öðrum aðilum sem skattstofurnar meta gilda. Skal þá framteljandinn útfylla eyðublað sem skattstjórinn útbýr og sendir með framtalseyðublaði“ o.s.frv.

Ég hirði ekki um að rekja þetta frá orði til orðs. Hér er um að ræða nýmæli. Hér er um að ræða tillögu sem ég held að hreyfi við mjög mikilvægu atriði. Ég held að svipurinn á skattakerfinu gagnvart almenningi skipti mjög miklu máli. Ég held satt að segja að það sé talsvert um að fólk sé hrætt við alla þessa pappíra, leitar þess vegna t.d. til lögfræðinga í stórum stíl, jafnvel með mjög einföld framtöl, og þeir hjálpa fólkinu með framtölin og ganga frá þeim eins og venja er til. En ég hygg að með þeirri byltingu sem hefur orðið vegna nútímatölvutækni og þróun hennar sé í raun og veru mjög einfalt að koma þessum upplýsingum öllum til skattstofanna frá þessum aðilum, lífeyrissjóðum, launagreiðendum, bönkum o.s.frv., og þess vegna væri hægt að fella þetta niður hjá talsverðum fjölda fólks. A.m.k. hefur það gefist sæmilega hjá frændum okkar um leið og þeir eru með staðgreiðslukerfi.

Næsti þáttur þessa frv., sem ég tel að efnislega skipti einna mestu mali, er tillaga um að fjármagnstekjur verði allar framtalsskyldar eins og aðrar tekjur. Það er orðað svo í greininni, með leyfi forseta, og það er tekið mið af greininni sem fjallar um framtalsskyldu launa. Það er í raun og veru alveg sama orðalag á þessari grein og á greininni um framtalsskyldu launa. Þar segir:

„Allir sem taka fé á leigu gegn gjaldi eða stunda viðskipti með fjármuni og skuldabréf, hvort sem um er að ræða banka, sparisjóði, verðbréfamiðlara, fasteignasala eða aðra skylda aðila samkvæmt nánari skilgreiningu ríkisskattstjóra, skulu ótilkvaddir senda skattstjóra eða umboðsmanni hans skýrslu um greiðslur fyrir fjármuni í hvaða mynd sem er. Hér er átt við vaxtatekjur og vaxtagjöld, verðbætur á skuldir og innstæður, dráttarvexti, innheimtukostnað, afföll eða annars konar greiðslur fyrir fjármuni sem þessir aðilar lána eða taka á móti eða þjónustugjöld þessara stofnana.

Hver stofnun skal tilgreina nafn, heimilisfang og nafnnúmer einstaklings eða fyrirtækis og heildarviðskipti við stofnunina og allt það annað sem ríkisskattstjóri kann að ákveða að nauðsynlegt sé til þess að fá tæmandi upplýsingar um viðskipti einstaklinga og fyrirtækja samkvæmt þessari málsgrein.“

Í þessu frv. er sem sagt einvörðungu gert ráð fyrir að þessar tekjur séu framtalsskyldar eins og aðrar tekjur. Hér er ekki gerð tillaga um hvernig skattmeðferð þessara tekna á að vera í einstökum atriðum. Ef fallist yrði á það sjónarmið, sem er sett fram í 7. gr. frv., yrði auðvitað að taka sérstaka ákvörðun um skattmeðferð þessara tekna vegna þess að það væri með öllu óeðlilegt að skattleggja vexti sem eru innan við verðbólgustig sem tekjur. Það yrði auðvitað að taka tillit til raunvaxtastigs og skattleggja samkvæmt því. En tillögur um það hver skattameðferðin yrði samkvæmt þessu eru ekki inni í þessu frv. Frv. leggur aðeins áherslu á að undirstrika: Þetta á að skattleggja eins og aðrar tekjur. Af hverju skyldu þeir sem vinna borga skatta en þeir sem fá vexti ekki borga neina skatta af sínum tekjum? Það er óeðlilegt fyrirkomulag. Auðvitað getur hinn pólitíski vilji löggjafarvaldsins verið sá að menn eigi að fá skattfríðindi af vaxtatekjum, raunvaxtatekjum jafnvel, til þess að hvetja til sparnaðar, en þá á það að vera sjálfstæð pólitísk ákvörðun og taka hana vitandi vits með hliðsjón af þeim reglum sem gilda um skattlagningu atvinnutekna.

Í sjötta lagi leggjum við til að skattrannsóknastjóri láti á hverju ári fara fram rannsókn á bókhaldi og skattskilum a.m.k. 100 fyrirtækja sem ákveðin verða samkvæmt útdrætti á nöfnum þeirra. Stuðla skal að því að fyrirtæki og einstaklingar með rekstur geti gengið að því vísu að skattskil þeirra verði rannsökuð reglulega.

Hér hef ég farið yfir þessar breytingar, virðulegi forseti, og gert grein fyrir þeim. Nú er það svo að það kann að virðast nokkuð sérkennilegt eða a.m.k. óvenjulegt að tillögur sem fluttar hafa verið á síðasta þingi séu endurfluttar að nokkru leyti, a.m.k. í frv., strax í upphafi næsta þings. En á því er skýring. Og hún er sú að ég var svo heppinn að njóta stuðnings og atfylgis formanns Alþfl. þegar ég flutti þessar tillögur sem brtt. við skattafrv. á síðasta þingi. Ég er ekkert að mælast til þess að hæstv. ráðh. lýsi því yfir að hann samþykki þessar tillögur hér og nú. Ég er fyrst og fremst að leggja þessar tillögur hér fram til að sýna hvaða tillögur við erum með í þessum efnum um leið og tekið verður á skattamálunum í heild á næstu vikum og mánuðum sem ég vona sannarlega að gert verði og ég mun hjálpa til við að greiða fyrir þeim málum í gegnum þingið eins og kostur er, en ég á sæti í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar.

Til þess að lokum, virðulegi forseti, að undirstrika á hvaða forsendum þessi skattafrv. eru flutt vil ég lesa, með leyfi forseta, samþykkt Alþb. um skattamál þar sem farið er yfir nokkur meginatriði í skattamálum. Þau eru þessi:

1. Skattkerfinu verði breytt til þess að tryggja að allir leggi af mörkum til sameiginlegra þarfa landsmanna.

2. Skattleysi eignamanna, hátekjufólks og gróðaaðila í gegnum háþróað net frádráttarliða og sérreglna verði afnumið.

3. Tekjuskattskerfið verði einfaldað, bæði að því er varðar framtöl og skattlagningu.

4. Frádráttarheimildum fyrirtækja og einstaklinga í rekstri verði fækkað.

5. Skattfrelsismörk einstaklinga verði hækkuð verulega.

6. Með þessu verði skattbyrði almenns launafólks minnkuð, en skattar fyrirtækja auknir.

7. Komið verði á stighækkandi stóreignaskatti.

8. Tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta.

9. Skattaeftirlit verði hert.

10. Viðurlög við skattsvikum verði látin bíta í

raun.

11. Settur verði upp skattadómstóll og fyrirtæki og einstaklingar í einkarekstri sem verða uppvís að skattsvikum missi rekstrarleyfi.

Hér er tæpt á nokkrum atriðum og auðvitað ræðst það m.a. af fjárhag ríkissjóðs á hverjum tíma og fleira hvernig er hægt að ganga til verka við framkvæmdir stefnuatriða eins og þeirra sem hér hafa verið talin. Ég tel hins vegar að það hefði verið í betra samræmi við málflutning Alþfl. á síðasta kjörtímabili að byrja á fyrirtækjunum en að byrja á matarskattinum. Það held ég að sé ómögulegt annað en að taka undir þegar ég segi: Málflutningur Alþfl. fyrir kosningarnar leit þannig út að ef hann fengi einhverju ráðið yrði byrjað á þeim sem hafa hirt fé í góðæri undanfarinna ára en ekki hinum. - Ég a.m.k. skildi það svo.

Ég læt mig einu gilda þó að hæstv. fjmrh. áminni mig um sannsögli. Hann hefur ekkert vald til þess. Ég segi: Takk sömuleiðis, hæstv. ráðherra. Áminningar hans í þeim efnum snerta mig ekki vitundarögn. En ég vil segja þetta af minni hálfu vegna þess að ég geri ráð fyrir því að við eigum eftir að eiga nokkrar orðræður saman hér síðar í vetur.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.