12.04.1988
Neðri deild: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6249 í B-deild Alþingistíðinda. (4303)

423. mál, hlutafé Íslands í Alþjóðabankanum

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Athugasemd mín skal vera stutt. Ég gerði tillögu um það munnlega að þessari umræðu yrði ekki lokið til þess að ákveðnar upplýsingar, sem eru mjög áríðandi, kæmu hér fyrir hv. þm. þannig að þeir væru þá betur undir það búnir að taka ákvörðun í þessu máli því að málið út af fyrir sig er stærra en það sýnist á pappírunum. Það er meira en bara að Ísland sé að auka hlutafjáreign sína og búið. Það er annað sem liggur bak við að sjálfsögðu.

En ég get dregið þessa tillögu mína til baka. Rökin fyrir því eru svo sterk sem komu fram hjá hæstv. ráðherra. Hér er um að ræða mjög sterka kvennapólitíska stefnu ríkisstjórnarinnar. Á þeim forsendum finnst mér sjálfsagt að tefja ekki málið með því að fresta þessum umræðum og fá þá allar þær upplýsingar sem ég bað um í nefndinni. En þá er komin fram ein ný stefna, algerlega ný leið í kvennapólitík ríkisstjórnarinnar.