13.04.1988
Efri deild: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6343 í B-deild Alþingistíðinda. (4353)

431. mál, virðisaukaskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég verð að segja að þegar hvort sem er er um það að ræða að kvöldfundur er í deildinni sé eðlilegt að matartími sé tekinn á eðlilegum tíma í Ed. til þess að þingmönnum finnist sem þeir geti talað fullum munni um það efni sem er á dagskrá hverju sinni, (SvG: Fullum rómi.) fullum rómi, og menn séu ekki að reyna að flýta sér.

Það var eitt sem vakti athygli mína í máli hv. síðasta ræðumanns og það voru þau ummæli að rétt væri að leggja virðisaukaskatt á íþróttamót. Mér þótti eins og ég skildi hv. þm. þannig, var það ekki rétt skilið, að mér fannst hv. þm. tala í þeim tón sem rétt væri að leggja virðisaukaskatt á íþróttamót. Var það rétt skilið, keppnisíþróttir? (GA: Nei, ég sagði: Hvers vegna eru þær undanþegnar þegar menningin í heild sinni er ekki undanþegin, önnur en samning tónverka og ritverka? Þetta er samanburðarfræði.) Ég vil leyfa mér að halda því fram að þessi samanburðarfræði sé nokkuð undarleg, satt að segja. Ég held að það sé ekki stórlega mikill skattstofn sem lagður yrði á í sambandi við íþróttirnar. Ég held að nauðsynlegt sé einmitt að bæði með opinberu fé og frjálsum framlögum sé reynt að standa undir íþróttunum með margvíslegum hætti og ég held að það sé þess vegna mikill misskilningur að telja að hægt sé að skattleggja þá starfsemi þannig að hún geti orðið að tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég get ekki fallist á þá skoðun.

Á hinn bóginn held ég að það sé líka mikill misskilningur að í þessu frv. komi fram einhver menningarlegur fjandskapur. Ég held að þetta sé eins og þegar skrattinn les faðirvorið og sé ekki í samræmi við þá skatthefð sem hér hefur verið og tel að í verulegum atriðum sé komið til móts við hv. þm.

Ef hún telur hins vegar að einhverjir þættir séu þar ekki nægilega teknir til greina er auðvitað hægt að athuga það í nefnd, en ég mótmæli því fullkomlega að með þessu frv. sé fjandskapast við menningu eða vísindi. Það fæ ég ekki séð.