13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6363 í B-deild Alþingistíðinda. (4372)

469. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Á þskj. 819 er flutt frv. til l. um breytingu á lögum um Siglingamálastofnun ríkisins sem eru nr. 20 frá 30. apríl 1986. Með lögunum frá 1986 var stofnað siglingamálaráð. Verkefni þessa ráðs eru m.a. að vera ráðgefandi aðili fyrir ráðherra og siglingamálastjóra í málefnum varðandi starfsemi Siglingamálastofnunar og að fjalla almennt um öryggismál skipa og báta. Í ráðinu eiga sæti fulltrúar frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sambandi ísl. kaupskipaútgerða, Sjómannasambandi Íslands, Félagi dráttarbrauta og skipasmiðja og Slysavarnafélagi Íslands.

Um það leyti sem frv. að þessum lögum var flutt hér á Alþingi var stofnað Landssamband smábátaeigenda. Í þessu sambandi eru félagsmenn um það bil 2000 sem eiga um 1720 báta. Þegar umræða fór fram hér á hinu háa Alþingi kom ekki fram hugmynd um að þetta samband, Landssamband smábátaeigenda, væri aðili að siglingamálaráði og er því nú samkvæmt beiðni sambandsins þetta frv. flutt og talið eðlilegt að Landssamband smábátaeigenda sé aðili að siglingamálaráði eins og þau önnur samtök sem ég vék að áðan.

Ég trúi að hér sé um að ræða ágreiningslaust mál. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. samgn.