13.04.1988
Neðri deild: 75. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6364 í B-deild Alþingistíðinda. (4374)

377. mál, uppboðsmarkaður á erlendum gjaldeyri

Flm. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja frv. til l. um uppboðsmarkað á erlendum gjaldeyri. Mér er ljóst að öll umræða um þessi mál er á þann veg að menn telja helst að það þurfi að vera hagfræðingar með stórum titlum og helst búnir að vera á framfæri ríkisins svo lengi sem elstu menn muna ef þeir eiga að ræða þessi mál. Það þykir ekki fínt að venjulegir þingmenn taki sig til og gagnrýni þá þróun sem átt hefur sér stað í því musteri sem byggt hefur verið við Arnarhól og kallað hefur verið Seðlabanki Íslands. Ég segi ekki að það sé álíka illa liðið og ef menn ráðast á kristindóm, en það nálgast það mjög. Slíka tiltrú hefur þetta musteri fengið og kannski ekki skrýtið ef skoðuð eru lög sem sett hafa verið um Seðlabanka Íslands. Með leyfi forseta vil ég örlítið víkja að því atriði.

Árið 1961, 29. mars, eru sett lög um Seðlabanka Íslands þar sem hlutverki Seðlabankans er lýst m.a. á þennan veg: „Að annast seðlaútgáfu og vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt.“

Nú vil ég spyrja þá sem hér eru inni: Hefur þetta gengið eftir? Hefur verðlag á Íslandi verið stöðugt frá 1961? Hefur það verið stöðugt? Ef það hefur verið stöðugt þurfum við náttúrlega ekki að breyta hér einu né neinu. Þá hafa lögin tryggt að hér yrði álíka þróun og í mörgum öðrum iðnaðarlöndum heims. Alvaran er aftur á móti sú að þetta hefur ekki verið stöðugt og öðru nær.

Víkjum þá að öðru atriðinu, með leyfi forseta: „Að efla og varðveita gjaldeyrisvarasjóð er nægi til þess að tryggja frjáls viðskipti við útlönd og fjárhagslegt öryggi þjóðarinnar út á við.“

Enn spyr ég þingmenn: Hefur þessa verið gætt? Er fjárhagslegt öryggi íslenskrar þjóðar út á við tryggt með 7 milljarða viðskiptahalla eins og var á seinasta ári og með stefnu í um 12 milljarða viðskiptahalla á þessu ári? Er sjálfstæði Íslands tryggt með þessu? Er þetta eins og það á að vera? Ég hygg að flestir hér inni segi nei. Þetta hefur ekki gengið eftir.

Og hið fjórða: „Að annast bankaviðskipti ríkissjóðs og vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyris- og peningamál.“

Ég hygg að að mestu leyti hafi þetta gengið eftir, að þeir hafi verið aðalráðgjafar ríkisstjórna í gjaldeyris- og peningamálum allt til þessa. En hver hefur árangurinn orðið? Er árangurinn í samræmi við þau markmið sem ég lýsti hér að framan í lagatextanum að hefði átt að ná? Það er nú öðru nær. Ég er hræddur um að það hefði verið heil kippa af fræðslustjórum farin ef þeir hefðu ekki staðið sig betur í starfi.

Svo kemur fimmta atriðið: „Að vera banki annarra banka og peningastofnana, hafa eftirlit með bankastarfsemi og stuðla að heilbrigðum verðbréfa- og peningaskiptum.“

Hin heilbrigðu peningaskipti, sem menn hafa stuðlað að, eru að neyða útflutningsatvinnugreinarnar í gegnum tíðina til að selja erlendan gjaldeyri fyrir íslenska seðla þannig að kaupandinn gat mjög vel við unað, en seljandinn vissi lengst af að hann var að tapa fé.

Svo kemur sjötta atriðið og ég vil lesa það líka, með leyfi forseta: „Að gera sem fullkomnastar skýrslur og áætlanir um allt sem varðar hlutverk hans.“

Þetta held ég að bankinn hafi annast nokkurn veginn 100%. Það er ekki nokkur einasta gagnrýni af minni hendi á það að skýrslugerð af hálfu Seðlabankans hafi ekki verið í fullkomnu standi allan þennan tíma. (AG: Að magni til.) Að magni til, heyrist hér utan úr salnum, og ég get tekið undir það að magnið hefur verið mjög viðunandi.

Í sjöunda lagi: „Að annast önnur verkefni sem samrýmanleg eru tilgangi hans sem seðlabanka.“ - Og það hefur komið m.a. í ljós að hann hefur komið sér upp mjög þokkalegu bókasafni.

Ef við víkjum svo að því atriði í seðlabankalögunum sem fjallar um gengismál kemur ýmislegt fróðlegt í ljós. Það er V. kafli, með leyfi forseta, og þetta er innan hornklofa:

"[Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar stofngengi íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldeyri og gulli. Þá ákveður Seðlabankinn að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar mörk leyfilegs munar stofngengis og kaup- og sölugengis.]" Það er nú það.

Svo kemur hér áfram, með leyfi forseta: „Seðlabankinn skal leitast við að efla gjaldeyrisvarasjóð landsins og varðveita hann eftir því sem unnt er í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum eða innistæðum í gjaldeyri sem nota má til greiðslu hvar sem er. Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og ná settu markmiði um viðskiptajöfnuð en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna og samkeppnisgreina.“

Hefur Seðlabankinn tryggt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuveganna? Hefur hann tryggt rekstrargrundvöll samkeppnisgreinanna þegar viðskiptahallinn við útlönd á seinasta ári var 7 milljarðar og stefnir í 12 á þessu? Svari nú hver fyrir sig. Nei, auðvitað veit ég það fyrir fram að menn líta svo á að þessi lög og þær breytingar sem á þeim hafa verið gerðar, sem að mínu viti eru ekki verulegar, séu þess eðlis að við þessu eigi ekkert að hrófla.

Ég vil, með leyfi forseta, halda áfram að vekja athygli á nokkrum atriðum sem okkur þingmönnum hafa borist í pósti:

Þjóðhagsstofnun sendir frá sér spá og endurskoðun á þjóðhagsstærðum fyrir árið 1987, en spá fyrir 1988. Þar kemur fram, með leyfi forseta, og til að spara nú upplesturinn, þá stendur á 1. bls. og ég ætla ekki að lesa meira:

„Gert er ráð fyrir því að halli á viðskiptum við útlönd á þessu ári verði rúmlega 11 milljarðar kr. eða sem svarar til 41/2% af landsframleiðslu. Til samanburðar var viðskiptahallinn rúmlega 7 milljarðar kr. á síðasta ári eða 31/2% af landsframleiðslu.“

Það fer ekkert milli mála á hvorn veginn stefnan er. Stefnan er einfaldlega sú að það skuli auka viðskiptahallann. Það er það sem íslensk þjóð hefur komið sér saman um, að auka viðskiptahallann, að auka skuldir Íslands erlendis.

Ég ætla að biðja þá sem eru í salnum að hverfa með mér nokkrar aldir aftur í tímann, til þjóðveldistímans þegar Íslendingar voru að feta sig áfram með lög í þessu landi, lög sem þeir töldu að yrðu landinu til farsældar. Þá var m.a. ákveðið að goðorðsmenn skyldu ákveða það verð sem væri á vöru þeirri sem kaupmenn erlendir kæmu með í skipum sínum til landsins og þeir skyldu einnig fá að kaupa fyrstir úr farmi þeirra. Ég hygg að það séu ekki mjög mörg dæmi um að goðorðsmenn hafi ekki gætt sín á formsatriðum, en þó mun Þorgrímur goðorðsmaður í Haukadal á sínum tíma hafa jafnframt talið sanngjarnt að greiða ekki fyrr en honum sjálfum sýndist og þegar Austmennirnir kvörtuðu taldi hann vitlegast að drepa þá, enda fráleitt að hans mati að seljendur ættu svo stóran rétt í þessu landi að þeir segðu fyrir um það hvenær honum bæri að greiða. En afleiðingin af þessu kerfi sem var við lýði var ákaflega einföld. Erlendir kaupmenn hættu siglingum til landsins. Þeir hættu bara siglingum til landsins einn eftir annan þangað til svo var komið að siglingar voru að leggjast af og í Gamla sáttmála urðum við að taka það ákvæði upp að konungur sæi um ákveðinn fjölda af skipum sem sigldu til landsins. Það gafst sem sagt illa á þjóðveldisöld að láta kaupandann einan ráða verðinu.

Í dag hygg ég að það mundi líka gefast nokkuð illa í verslun almennt á Íslandi ef kaupandinn, þ.e. sá sem ætlar að kaupa vöruna, fengi einn að ráða. Segjum t.d. að við löbbuðum inn í verslanir hér í Reykjavík og tækjum ákvörðun um að við sem kaupendur ættum að ráða því á hvaða verði seljendurnir seldu viðkomandi vöru. Ég hygg að það yrði mikið fjör í verslun fyrst um sinn, en svo mundu trúlega mjög margir hætta við að endurnýja sínar vörubirgðir með þeirri viðskiptareglu. Það þarf ekki mikinn speking til að átta sig á að slíkt kerfi gengi ekki upp.

En hvaða reglu teljum við rétta þegar kemur að erlendum gjaldeyri? Jú, þá fer ekkert á milli mála að við viljum hafa þá reglu að kaupandinn skal ákveða vöruverðið, ekkert múður. Hvað eru seljendur að röfla í þessum efnum? Þetta glymur í öllum blöðum. Eru þeir að kvarta undan því verði sem þeir fá fyrir gjaldeyrinn? Auðvitað á kaupandinn að ráða. Það er búið að seðja þjóðina hvað þetta varðar. Hún stendur alveg föst á þeirri kenningu með hagfræðiliðið mestmegnis á bak við sig að það sé ekki til umræðu að seljendur hafi nein áhrif á það á hvaða verði þeir fái að selja.

Mér er ljóst að umræða um þessi mál hrífur ekki mjög þingmenn. Þeim finnst nánast óþarfi að við ræðum efnahagsmál í sölum Alþingis. Menn eru sáttir við það ástand, að því er virðist, stórir hópar í samfélaginu, að koma sér saman um að viðhalda því kerfi að kaupandinn skuli ráða verðinu en seljandinn eigi ekki að vera að skipta sér af þessum málum.

Nú er það svo að sjálfstæði þessarar þjóðar er stundlegt eins og flest annað á þessum hnetti. Það tók okkur langan tíma að öðlast sjálfstæði eftir að við töpuðum því og það tekur lygilega fá ár að glata því með sömu stefnu. 7 milljarðar í fyrra, 12 í ár. Hvað eigum við að segja að stígandin verði mikil á næsta ári? Eigum við að hækka þá um 5 og segja að það færi í 17 og þar næsta bæta við þá öðrum 5 og vera komnir í 22? Hvað værum við þá komnir hátt? Hefur þjóðin efni á slíkum snillingum í viðskiptaháttum?

Ég ætla örlítið að víkja að því sem sagt er um gengisstefnu í blöðum og vil byrja á því sem forseti Landssambands ísl. iðnaðarmanna segir í Morgunblaðinu 27. okt. 1987. (Forseti: Ég vek athygli ræðumanns á því að nú er þessi venjulegi fundartími okkar liðinn. Hann mun eiga eftir mikið af ræðu sinni, er ekki svo?) Það er rétt metið hjá forseta að ég er rétt að hefja þessa ræðu. (Forseti: Þá mun ég biðja ræðumann að gera nú hlé á máli sínu og hér mun þá fundi verða frestað um sinn, en honum mun verða fram haldið. Það munu verða fundir í báðum deildum þá og fram haldið kl. 5.30. ) - [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég ætlaði að vitna hér í nokkrar blaðagreinar þar sem þessi mál hafa verið rædd, þ.e. hvort viðunandi hefur verið að Seðlabanki Íslands og ríkisstjórn sæju um gengisskráningu. Ég er með fyrir framan mig grein eftir forseta Landssambands iðnaðarmanna. Greinin er birt í Morgunblaðinu 27. okt. 1987: „Góðæri hefur ríkt en þenslan veldur erfiðleikum.“ Þar segir svo um gengisstefnuna, með leyfi forseta:

„Ekki verður horft fram hjá þeirri staðreynd að samkeppnisstaða sumra greina atvinnulífsins, ekki síst ýmissa greina iðnaðarins, er orðin afar erfið. Þannig er hið svonefnda raungengi, sem er almennur og viðurkenndur mælikvarði á samkeppnisstöðu innlendra atvinnugreina gagnvart erlendri framleiðslu, nú þegar orðið óhagstæðara en það hefur verið í áraraðir og jafnvel óhagstæðara en það var á árunum 1981–1982. Innflutningur hefur vaxið ört og viðskiptahalli eykst. Markaðshlutdeild ýmissa greina iðnaðarins fer minnkandi.“

Ég ætla ekki að lesa meira úr þessari grein, en það fer ekkert á milli mála að ekki ríkir mikil ánægja hjá þessum aðila með þá gengisstefnu sem framkvæmd er.

Ég ætla að víkja næst, með leyfi forseta, að blaðagrein sem birtist í Morgunblaðinu 4. nóv. 1987. Þessi blaðagrein er eftir Vilhjálm Egilsson og heitir „Ríkisstjórnin í aðalhlutverkinu.“ Þar hljóðar textinn sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta, svo:

„Gengið ræðst ekki af yfirlýsingum. Það er stefna ríkisstjórnarinnar að verðbólga á næsta ári verði um 10% . Er þá miðað við hækkun framfærsluvísitölu frá upphafi til loka árs. Þessi stefna eða von byggir á því að unnt sé að halda gengi krónunnar stöðugu og að kjarasamningar á næsta ári verði á lágum nótum eða feli í sér svipaðar launahækkanir og um samdist við opinbera starfsmenn.

Umræður um gengi krónunnar hafa mjög einkennt umfjöllun um verðlagsmál. Ríkisstjórnin hefur gefið út miklar yfirlýsingar um að hún ætli að halda genginu stöðugu og að það eigi að vera gildasta haldreipið til að verjast verðbólgunni. Þessi umræða um gengið og yfirlýsingar stjórnarinnar skipta hins vegar ekki höfuðmáli. Gengi krónunnar ræðst af efnahagslegum forsendum en ekki yfirlýsingum. Gengi krónunnar getur einungis verið stöðugt ef aðstæður leyfa. Í stað yfirlýsinga ætti ríkisstjórnin að gera grein fyrir þeim efnahagslegu forsendum sem hún ætlar að skapa fyrir lágri verðbólgu og stöðugu gengi. Maður fær það nefnilega á tilfinninguna að allt talið um stöðugt gengi og skilaboð til aðila vinnumarkaðarins í því sambandi sé fyrst og fremst til þess ætlað að geta bent á sökudólga ef ekki tekst að ná verðbólgunni niður.“

Það ríkir ekki nein ánægja hjá þessum aðila yfir því hvernig Seðlabankinn og ríkisstjórnin standa að gengismálum í dag.

Næst vil ég víkja að grein í Morgunblaðinu 21. febr., en greinin er Reykjavíkurbréf laugardaginn 20. febr. þó að það komi daginn eftir í sunnudagsblaðinu. Þar stendur svo með breyttu letri, með leyfi forseta:

„Fari svo að stjórnvöld neyðist til að verða við kröfum fiskvinnslunnar um gengisbreytingu er eðlilegt að á móti komi krafa frá stjórnvöldum til fiskvinnslunnar um að djúpstæð endurskipulagning fari fram á rekstri hennar með það að markmiði að framleiðslugeta þessara iðjuvera verði nýtt mun betur og rekstur þeirra þar af leiðandi hagkvæmari.“

Það er nú það. Hér er sem sagt lýst yfir alveg ótvírætt í Morgunblaðinu að það sem fyrst og fremst sé að sé hvernig staðið sé að rekstri hjá fiskvinnslunni og nýtingunni. Það er það sem er að. Þetta leiðir náttúrlega hugann að því að Morgunblaðið er ekki neitt stikkfrítt í þessu landi. Ég vitna í viðtal við Brynjólf Bjarnason, forstjóra Granda, í Morgunblaðinu 23. febr. 1988. Hann hlýtur að vera einn af sökudólgunum. Ef ég man þetta rétt var hagnaðurinn hjá Granda 1,8 millj. og þó hafði fyrirtækið selt skip á árinu. En það skal tekið fram að ég er ekki að henda neinum steinum að forstjóra þess fyrirtækis og tel að hann standi vel fyrir sínu sem rekstrarmaður í íslensku atvinnulífi. En með leyfi forseta vil ég lesa það sem hann segir um þessi mál:

„Gengið verður að leiðrétta. Rekstrarstaða frystihúsa okkar er mjög slæm á þessum tíma. Taprekstur hefur verið mikill undanfarna mánuði og er svo komið að veltufé hefur rýrnað gífurlega. Greiðslustaðan er því erfið og bitnar mjög á öllum viðskiptavinum fyrirtækisins. Á sl. ári naut framleiðsla frystihúsanna nokkurra erlendra verðhækkana, allt fram á mitt sumar, en frá því á vormánuðum fór verðlag hér á landi úr böndunum og urðu innlendar kostnaðarhækkanir langt umfram tekjuhækkanir. Gífurleg umskipti urðu síðan sl. haust, þannig að saman fór launahækkun ásamt hækkun á öllum aðföngum, aflatregða og tekjulækkun vegna falls dollarans“, sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda hf. „Það er augljóst að raungengi íslensku krónunnar hefur hækkað gífurlega á síðustu átta mánuðum. Skilyrði útflutningsatvinnugreina eru því óviðunandi og raungengið verður að leiðrétta. Markmiðið hlýtur að vera að ná verðbólgu niður á það stig sem gerist í viðskiptalöndum okkar eða 4–5%.

Það má vera að um of miklar fjárfestingar sé að ræða í frystiiðnaðinum í heild. Hins vegar má ekki missa sjónar á því hvernig þessi atvinnugrein hefur þróast með uppbyggingu á framleiðslu víðs vegar um land og hinni miklu tæknibreytingu sem fiskiðnaðurinn hefur farið í gegnum á undanförnum áratugum. Vel má vera að nýting þessara fjárfestinga sé ekki næg og kemur það berlega í ljós í þeirri samkeppni sem landfrysting á nú í við sjófrystingu.

Að sjálfsögðu er ekki hægt að alhæfa neitt um það hvernig frystihúsin eru rekin. Hitt er þó ljóst að í þessari atvinnugrein sem öðrum verður ætíð að vera vel á verði varðandi stjórnun og aðgerðir til framleiðniaukningar. Á undanförnum rúmum tveimur árum hefur verið beitt hér svonefndri fastgengisstefnu. Það er álit mitt að á þessum tíma hafi útflytjendur í frystiiðnaði tekið sig verulega á í að beita ýmsum aðgerðum til að ná fram aukinni framleiðni og hafa miklar endurskipulagningar átt sér stað í frystihúsum víða“, sagði Brynjólfur.

Ég fæ nú ekki séð á þessu að það sé einhver sérstök ánægja með hvernig staðið er að þessum málum. Þó hefur þessum manni verið trúað fyrir stærsta fyrirtækinu að ég hygg í þessari grein. Í sama blaði og í sama skipti er tekið viðtal við Baldur Jónsson, Suðureyri. Með leyfi forseta vil ég lesa það sem hann hefur um þetta að segja:

„Óvitaskapur og vanþekking. Nú er staðan orðin svo glórulaus að eina svarið sem frystihúsamenn hafa er að stöðva reksturinn. Ef þjóðin getur verið án þessara fyrirtækja, þá gott og vel. Geti hún lifað af ferðamannaþjónustu, laxeldi og að menn skrifi reikninga hver á annan í þjónustugeiranum fyrir sunnan, á hún að gera það. Þetta er algerlega komið á heljarþröm og þessi atvinnuvegur hefur verið rústaður. Það er fyrst og fremst óvitaskapur og vanþekking á þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar sem hefur lagt hann í rúst“, sagði Baldur Jónsson, framkvæmdastjóri fiskiðjunnar Freyju á Suðureyri.

„Staðan í dag er langt fyrir neðan núllið. Hér á Vestfjörðum eru mörg gróin og gömul frystihús með þægilegan rekstur og eitthvað eigin fé. Þau geta kannski haldið svona áfram í eitt ár eða svo. Ég veit ekki hve margir hafa áhuga fyrir því. Þó nokkur frystihúsanna eru komin á heljarþröm. Eigið fé er uppétið og það er tímaskekkja miðað við aðstæður að halda rekstrinum gangandi.

Orsakirnar eru margvíslegar, en þrír meginþættir ráða mestu. Það er fiskveiðistefnan sem hefur dregið mjög verulega úr afla til stærstu húsanna á svæðinu. Þau nýta ekki eignir sínar eins og þau gerðu áður og við þurfum meiri umsetningu. Hinn almenni rekstrargrundvöllur hefur verið mjög lélegur allan þennan áratug. Á honum hafa aðeins verið gerðar óraunhæfar lagfæringar. Vaxtastefnan er svo að ganga af öllum dauðum. Það er hvergi í hinum vestræna heimi að þjóðir búa að aðalatvinnuvegum sínum eins og hér er búið að frystingunni og öllum atvinnurekstri. Þetta er fáheyrt vaxtaokur og eignaupptaka. Maður á engin orð yfir það.

Það verður að skrá gengið rétt á hverjum tíma. Það verður að selja gjaldeyrinn á a.m.k. sama verði og kostar að framleiða hann. Þetta eru svo gömul sannindi að menn virðast vera búnir að gleyma þeim. Það getur ekki nokkur lifandi maður framleitt gjaldeyri með tapi. Það þarf að lækka vextina. Það verður að hafa sérstaka vaxtaskrá fyrir þessa atvinnugrein eins og lengi hefur verið hjá Fiskveiðasjóði. Fyrir þau hús, sem ekki lenda á uppboði eftir þessi ósköp, verður síðan að breyta skuldahalanum, lengja lánatíma verulega og lækka vexti.

Ég held að ekki hafi verið um offjárfestingu að ræða á þessum áratug. Að vísu voru sum frystihús hér fyrir vestan sem í byrjun áratugarins undirbjuggu sig fyrir meiri átök í frystingu meðan togaraafli var mikill. Það má kannski segja að ekki hafi verið þörf fyrir alla þessa fjárfestingu eftir að kvótinn kom til.

Þá tel ég að undantekningarlítið séu frystihúsin mjög vel rekin. Það eru takmörk fyrir því hve nærri hráefni er hægt að ganga hvað varðar nýtingu og við erum löngu komnir á þann topp. Hins vegar verður stöðug endurskoðun á rekstrinum að eiga sér stað. Menn verða alltaf að leita hagræðingar og alltaf má gera betur. Frystihúsin eru velflest vel rekin með þaulreyndu starfsfólki. Að vísu hefur fólk verið að yfirgefa frystinguna vegna lágra launa. Það er þjóðarskömm að bjóða fiskverkafólki upp á þau laun sem því hafa verið boðin“, sagði Baldur Jónsson.

Ekki er ánægjan á þeim bæ yfir því hvernig staðið er að því að skrá gengi krónunnar.

Þá vil ég næst vitna í grein eftir Þórð Friðjónsson, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, sem birtist í Morgunblaðinu 26. febr. 1988. Ég vík að því efni sem í greininni fjallar um viðskiptahallann. „Verður viðskiptahallinn 10 milljarðar?" Það er viðtal sem þarna er um að ræða. „Verður viðskiptahallinn 10 milljarðar?" spyr blaðamaðurinn og Þórður svaraði:

„Viðskiptahallinn er eitt af þremur aðalvandamálum þjóðarinnar með og ásamt verðbólgu og slökum starfsskilyrðum samkeppnisatvinnuveganna. Viðskiptahallinn varð tæplega 7 milljarðar kr. á liðnu ári eða 3,5% af landsframleiðslu, en getur að óbreyttu orðið um eða yfir 10 milljarðar kr. 1988 eða nálægt 5% af landsframleiðslu. Þetta er gífurlega mikill viðbótarhalli, ekki síst að teknu tilliti til þess að ytri skilyrði þjóðarbúsins eru góð á flestra mælikvarða. Viðskiptahallinn felur í sér að þjóðarútgjöld eru meiri en þjóðartekjur og því er hann í raun ekkert annað en mælikvarði á það hvað samfélagið ráðstafar eða eyðir umfram það sem það aflar. Þessa eyðslu umfram tekjur verður auðvitað að fjármagna með erlendum lántökum. Viðskiptahallinn er því mjög alvarlegur í þeirri stöðu sem þjóðarbúskapurinn er í.

Jafnvægisleysi í efnahagsmálum að undanförnu má ekki síst rekja til þess að þjóðarútgjöld hafa aukist hraðar en þjóðartekjur. Á árunum 1985 og 1986 var aukning þjóðartekna meiri en þjóðarútgjalda, en á síðasta ári snerist þessi þróun við og útgjöldin tóku að aukast meira en tekjurnar. Það var minnkandi viðskiptahalli 1985 og afgangur á viðskiptajöfnuði 1986. Jafnframt fór verðbólga minnkandi. Á síðasta ári myndaðist hins vegar viðskiptahalli á ný og að öðru óbreyttu verður hann enn meiri í ár. Við þessar aðstæður er erfitt að koma á jafnvægi og stöðugleika í þjóðarbúskapnum. Því er grundvallaratriði að halda aftur af aukningu þjóðarútgjalda á næstunni.“

Ég fæ ekki séð að forstjóri Þjóðhagsstofnunar hrópi neitt húrra fyrir því hvernig lagatextinn um Seðlabanka Íslands kemur út í framkvæmd.

Með leyfi forseta vík ég næst að viðtali sem átt er við Jón Sigurðarson, forstjóra Álafoss, fimmtudaginn 17. des. 1987. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Stjórn efnahagsmála í landinu hefur brugðist. Á þessum mánuðum er gífurlegur fjármagnsflótti frá landsbyggðinni til Reykjavíkur vegna þess hversu lágt gengið er. Við erum í upphafi nýrrar landsbyggðarkreppu að mínu mati og allir undirstöðuatvinnuvegir úti á landi eru reknir með tapi. Eini hagnaðurinn sem ég veit af í þessu landi núna er innflutningurinn sem byggir á niðurgreiddum erlendum gjaldeyri“, sagði Jón Sigurðarson, forstjóri Álafoss hf.

„Mikið hefur verið rætt um það að fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar sé að sliga útflutninginn og menn eru farnir að hrópa á gengisfellingu. Jón Sigurðarson segir að fastgengisstefnan sé hin ágætasta stefna, en bráðnauðsynlegir fylgifiskar hennar séu fastkostnaðarstefna.“ - Það er aftur á móti stefna sem ég veit ekki til að ríkisstjórnin viti nein deili á. Þetta var innskot frá mér, þetta seinasta. Svo held ég áfram lestrinum, með leyfi forseta:

"„Þannig tel ég að fastgengisstefna í sjálfu sér hafi ekki brugðist heldur hafi stjórn efnahagsmála í landinu brugðist þannig að kostnaður hefur farið úr öllum böndum á sama tíma og tekjumöguleikar hafa ekki verið leiðréttir í gegnum gengið. Nú er svo komið að það er vonlaust að reka útflutningsfyrirtæki við þessar aðstæður," sagði Jón. Hann telur að kostnaðarhækkanir hafi hrundið fastgengisstefnunni og stjórnvöld verða að grípa inn í þessa þróun með aðgerðum til að bæta hag útflutningsatvinnuveganna og í því sambandi sagðist Jón ekki koma auga á aðra leið en gengisfellingu. „En kunni menn einhver önnur ráð er ég manna fegnastur," sagði Jón. Hann sagði að það væri stjórnleysi í efnahagsmálum sem hrópaði á gengisfellingu, ekki atvinnurekendurnir. Fulltrúar Seðlabanka og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafa sagt að það sé ekki þörf fyrir gengisfellingu en Jón sagði að þessir menn hefðu ekki komið með önnur ráð til að koma fótunum aftur undir útflutningsatvinnuvegina og á meðan þeir gerðu það ekki væri þetta marklaust hjal.“

Ég er hér með ljósrit úr Morgunblaðinu. Mér er ekki ljóst hver dagsetning er á því en þar er um að ræða frétt úr sérútgáfu Economist: „Óhjákvæmilegt að fella gengi krónunnar“. Með leyfi forseta vil ég lesa það sem þeir segja:

„Hið virta tímarit The Eeonomist hefur gefið út sérblað þar sem er að finna yfirlit yfir það sem sérfræðingar blaðsins telja að búast megi við að gerist í einstökum ríkjum og í alþjóðamálum á næstu árum. Sérútgáfa þessi nefnist Heimurinn 1988. Í ritinu er að finna stutta klausu um Ísland þar sem fullyrt er að ríkisstjórnin komist ekki hjá því að fella gengi krónunnar. Í formála ritsins segir að blaðamenn og sérfræðingar The Economist hafi ritað efni þess, auk þess sem leitað hafi verið til sérfræðinga um tiltekin málefni sem ekki starfa á vegum The Economist. Enn fremur segir í formálanum að flestir spádómar tímaritsins í sambærilegu hefti sem gefið var út skömmu fyrir síðustu áramót hafi reynst réttir og áreiðanlegir þó svo að viðurkenna beri að sérfræðingum blaðsins hafi á stöku stað orðið á í messunni.

Í greininni um Ísland sem rituð er af Michael Mitkev, fréttaritara tímaritsins Business International í Evrópu, segir: Viðleitni íslensku ríkisstjórnarinnar til að vinna bug á verðbólgu, sem varð þess valdandi að verðbólga var um 14% árið 1987 í stað 21% árið 1986, á undir högg að sækja. Kjarasamningar ársins 1987 leiddu til a.m.k. 22,5% hækkunar launa á árinu og mun áhrifanna áfram gæta á árinu 1988. Til að tryggja samkeppnishæfni erlendis mun ríkisstjórnin aftur neyðast til að grípa til þess ráðs að fella gengi krónunnar.“

Ég ætla hér, með leyfi forseta, að vitna í Gísla Konráðsson á Akureyri en það sem hann segir um þessi mál birtist í Morgunblaðinu 23. febr. 1988:

„Húsin gefast upp á næstu dögunum: „Eins og þegar hefur komið greinilega fram í fjölmiðlum er staða frystihúsanna svo alvarleg að gera má ráð fyrir að þau gefist upp hvert af öðru á næstu dögum eða vikum, verði ekkert gert af hálfu stjórnvalda til að afstýra því. Ástæðurnar fyrir þessu bága ástandi eru margar. Fyrst og fremst gengisskráning, sem heldur söluverði föstu í krónum, þótt kostnaðarliðir hækki stöðugt vegna innlendrar verðbólgu“, sagði Gísli Konráðsson, annar framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Akureyringa. „Hækkandi kostnaðarliðir, sem valdið hafa miklu um rekstrarhallann, eru fyrst og fremst fiskverðið, sem algjörlega fór úr skorðum þegar það var gefið frjálst á síðasta ári, og ollu þar mestu innlendir fiskmarkaðir og fisksala í gámum til útlanda. Viðmiðun við þessa tvo þætti skóp verðmyndun sem mjög víða reisti húsunum hurðarás um öxl svo að illa hlaut að fara af þeirri ástæðu einni. Vinnulaun hafa að sjálfsögðu hækkað, en það er ekki nema eðlilegur hlutur og ekki til þess ætlast að svo yrði ekki, enda ætti öllum að vera það ljóst að fólk sem vinnur að framleiðslu á helstu útflutningsafurðum og gjaldeyrisgjafa þjóðarinnar á það skilið að fá mannsæmandi laun fyrir störf sín. Aukinn fjármagnskostnaður á og sinn þátt í óförunum.

Það sem gera þarf er einfaldlega að gjaldeyririnn sem fyrir vöruna fæst, verði seldur á svo háu verði að dugi fyrir framleiðslukostnaði að viðbættum einhverjum rekstrarhagnaði. Hvernig að því verður farið verða stjórnvöld gjaldeyrismála að leysa. Ég fæ ekki séð aðra leið, þótt að vísu mætti e.t.v. draga úr kostnaði á einhvern hátt, sæju stjórnvöld sér það fært.

Ég held að ekki hafi verið um offjárfestingu að ræða hjá frystihúsunum á síðustu tímum. Hitt er svo annað að þau eru með mikil erlend lán og þunginn af þeim verður nú óbærilegur þegar greiðslurnar af skuldum hækka samkvæmt verðbólgu en tekjur lækka eða í besta falli standa í stað. Slíkt getur ekki gengið til lengdar.

Hvort frystihúsin á Íslandi séu nógu vel rekin ætla ég mér ekki að dæma um. Vafalaust er það eitthvað misjafnt eins og á öðrum sviðum atvinnurekstrar, en ég held að enginn geri það að gamni sínu að stefna fyrirtæki sínu að gjaldþroti. Og í þessum töluðum orðum berast mér fréttir um verðfall á þorskblokk í Bandaríkjunum. Líklegt þykir að sú lækkun geti verið upphafið að öðru meira," sagði Gísli Konráðsson.“

Herra forseti. E.t.v. er það svo að flestir hér á Alþingi Íslendinga segi sem svo: Menn vilja bara gengisfellingu. Frv., sem ég er flm. að, biður ekki um gengisfellingu. Frv. fer aftur á móti fram á það að markaðurinn ráði verðinu. Þá kemur í ljós hvorir hafa rétt fyrir sér, hagfræðihópurinn, hámenntaður, sem í vel launuðum störfum boðar að það eigi ekki að breyta í einu né neinu gengisskráningu íslensku krónunnar, eða þeir sem standa í eldlínu atvinnurekstrar og vinna að því að afla þessari þjóð þess brauðs sem hún lifir á. Auðvitað er hægt að gera þjóðarsátt um það að menn skuli eyða um efni fram jafnrosalega og gert er. Auðvitað er það hægt. En það eru aumir og huglausir stjórnmálamenn sem þannig standa að málum. Það eru aumir og huglausir stjórnmálamenn því miður.

Ég hygg að þann tíma sem ég hef verið stuðningsmaður ríkisstjórna hafi það aldrei gerst að forsrh., sem ber höfuðábyrgð á efnahagsmálum, hafi látið sér detta í hug að standa jafnglórulaust að þessum málum og nú er gert. (Gripið fram í: Hver gerir það? Stjórnin?) Sá hæstv. forsrh. sem telur að það sé allt í lagi að sitja við völd og hafa 12 milljarða viðskiptahalla við útlönd er að mínu viti ekki hæfur til starfans. (Gripið fram í: En ráðherrarnir hinir?) Sá forsrh. á að segja af sér. (Gripið fram í: En þeir sem styðja stjórnina?) Sá forsrh. getur ekki gert ráð fyrir því að almennir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar muni verja hann í vantrausti. Hann hlýtur að gera sér grein fyrir því að með því móti væru þeir að leggja til að hér yrði stefnt að því að Ísland tapaði efnahagslegu sjálfstæði. (SJS: Eigum við þá ekki að flytja vantrauststillögu?) Það er greinilegt að það er órói í íslenskum stjórnmálum þessa dagana. Það er greinilegt að sú ákvörðun um að kalla saman miðstjórnarfund Framsfl. hefur komið miklum skjálfta af stað og það er boðað í blöðum að sérstakir útsendarar hafi verið sendir af stað til að ræða það mál hvort hægt sé að fá nýja menn í ráðherrastóla ef þeir sem nú stýra landinu hiki við að halda lengur áfram á sömu braut.

Mér skilst á blaðafréttum að sé áhugi til staðar eigi menn að senda sendibréf til Sjálfstfl. Það verða trúlega blaðaskriftir á næstunni og menn senda frá sér sendibréf og lýsa sínum áhuga. Að mínu viti er þessi staða á þann veg að enginn ábyrgur stjórnmálamaður á Íslandi getur varið það að stefnt sé eins og gert er í þessum málum.

Mig undrar það mjög að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við sjálfstæði, kennir sig við atvinnurekstur, kennir sig við einkaframtak, hafi nú sameinast um þá stjórnarstefnu að þjóðnýta aftan frá einstaklingsframtakið í landinu sem vinnur við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar. Þjóðnýtingin aftan frá byggist á því að það á ekki með lagasetningu að taka ákvörðun um það að þessi eða hin fyrirtækin verði í ríkiseign. Það á að taka ákvörðun um það að hafa rekstrargrundvöllinn á þann veg, með því að neyða menn til að selja þann gjaldeyri sem fyrirtækin afla á lægra verði en kostar að afla hans, að fyrirtækin verði gjaldþrota og að ríkisbankar og ríkissjóðir, hvort sem það er Fiskveiðasjóður eða einhver annar, eignist fyrirtækin á nauðungaruppboði. Þetta er að þjóðnýta fyrirtækin aftan frá og það er verið að vinna að þessu undir forsæti Þorsteins Pálssonar.

Hvað hefur þetta í för með sér? Þetta hefur það í för með sér að þjónustufyrirtækin sem hér eru á Reykjavíkursvæðinu fá að vísu um dálítinn tíma að anda rólega. Þau fá að anda rólega meðan verið er að ganga frá framleiðslufyrirtækjum hringinn í kringum landið með gjaldþrotum. Svo kemur röðin að Reykjavík. Í sjónvarpsviðtali þar sem hæstv. forsrh. taldi það einna brýnast að fá skýrslu frá Byggðastofnun um ástandið á Suðurlandi áður en hans ríkisstjórn gæti tekið afstöðu til mála lýsti hann því yfir að hann hefði áhyggjur af því hvernig færi fyrir þéttbýlinu á eftir, þegar hitt væri hrunið. Merkilegt nokk. En það er nánast heimsmet að fara fram á skýrslu um ástandið í eigin kjördæmi áður en ákvörðun er tekin um hvað eigi að gera.

Ég hygg að rétt sé metið hjá mér að mönnum leiðist almennt svona umræðuefni. Menn vilja helst flytja hér fallegar tillögur sem skili árangri strax á morgun um jákvæða hluti í íslensku þjóðfélagi. Mér er aftur á móti ljóst að samþykkt frv. mundi þýða stefnubreytingu í þessu landi. Það mundi þýða það að Íslendingar yrðu að fara að haga sínum útgjöldum í samræmi við tekjur. Það mundi þýða aftur á móti aukna áherslu á það að Íslendingar notuðu innlenda iðnaðarvöru. Það mundi þýða aukna áherslu á það að menn reyndu að framleiða vörur sem hægt væri að selja erlendis og á nokkrum árum mundi það færa íslenskri þjóð efnahagslega hagsæld. (Gripið fram í: Velsæld.)

En hugsunarfeillinn og þversögnin eru svo rík í okkur að hver einasti fréttamiðill á Íslandi skýrir frá breytingum á gjaldskrá gjaldmiðla á þann veg að ef verið er að tala um erlendan gjaldeyri, eins og t.d. dollarann eða pundið, berast okkur á öldum ljósvakans þær fréttir: Dollarinn féll í verði, pundið lækkaði í verði. Þá berast ekki þær fréttir að Ronald Reagan hafi lækkað dollarann eða Margaret Thatcher hafi lækkað pundið eða öfugt. Nei, þá lækkaði dollarinn eða hækkaði og pundið lækkaði eða hækkaði. En þegar kemur að íslensku krónunni, hvað gerist þá? Undur og stórmerki. Þá berast þær fréttir að ríkisstjórn Íslands og Seðlabankinn hafi ákveðið að lækka gengi krónunnar. Það virðist einhvern veginn vera innbrennt í hausinn á mönnum að allir gjaldmiðlar í heimi hljóti að fara eftir markaðslögmálum nema þessi íslenska króna. Hún fari alls ekkert eftir markaðslögmáfum. Það séu bara vondir menn annaðhvort í Seðlabanka eða ríkisstjórn sem breyti hennar gengi. Auðvitað getur svona glórulaus fáfræði eins og kemur fram í slíkum fréttaflutningi mengað út frá sér. Og hugsunarvillur sitja yfirleitt fastar í mönnum, gjörsamlega fastar, og breytast ekki. Ég get tekið eitt dæmi úr minni heimabyggð. Frá því ég man eftir mér hefur verið talað um það við Súgandafjörð að önnur hlíðin væri að vestanverðu við fjörðinn en hin væri að norðanverðu við fjörðinn. Það þykir engum athugavert. (SvH: Þannig er það við Djúp.) Þannig er það við Djúp, segir hv. 4. þm. Austurl. Mér virðist að málvenjan sé sú að menn séu eiginlega að fara suður til Reykjavíkur hvaðan sem þeir koma af landinu. (Gripið fram í: Ekki úr Keflavík.) Nú, það er upplýst að þar er Keflavík undantekning og ég skal ekki hætta mér lengra inn í þá umræðu. En alveg eins og þetta er svo glórulaust stimplað inn í hausinn á mönnum að þar verður engu um þokað er það alveg borin von að hægt sé að útskýra það fyrir alþm. að mér sýnist að það sé verðmætið í þjóðfélaginu sem ráði gengisskráningu íslensku þjóðarinnar þegar horft er til lengri tíma þó að auðvitað geti einhver stjórnmálamaður sem hefur völdin reynt að hafa það vitlaust dálitinn tíma.

Á hverju bera þeir ábyrgð sem nú sitja hér á Alþingi? Bera þeir ekki númer eitt ábyrgð á sjálfstæði þessarar þjóðar? Eru það einhverjir aðilar úti í bæ sem bera fremur ábyrgð á sjálfstæði íslenskrar þjóðar en þeir sem hér sitja? Er hægt að varpa slíku út til einhverrar stofnunar úti í bæ, hún eigi að sjá um þann þátt mála? Auðvitað hlýtur það að vera fyrsta og síðasta skylda Alþingis Íslendinga að bera ábyrgð á sjálfstæði þjóðarinnar. Og er það ábyrg afstaða að ætla að sigla áfram á þann veg að hér skuli viðskiptahalli magnast á þessu ári? Er það ábyrg stefna? Ég segi nei. En það sem aumkunarverðara er: Það er huglaus stefna. Það er huglaus stefna hjá ríkisstjórn, sem hefur mestan meiri hluta á bak við sig sem verið hefur frá því að ég hef stutt ríkisstjórn á Alþingi Íslendinga, sem lætur sér detta í hug að standa þannig að málum. Það er huglaus stefna. Það eru hreinar línur hvað mig varðar að fremur vil ég fara af þingi og hætta þingmennsku en sigla áfram sem stuðningsaðili við slíka stefnu. Þeir mega halda áfram að styðja það huglausa lið sem telur að það sé sjálfsagt og sanngjarnt að hlaða svo upp erlendum skuldum við útlönd án þess að neinar stórframkvæmdir í landinu geti réttlætt þær lántökur.

Enn vil ég víkja að því hversu vonlaus sú umræða virðist vera að ræða þetta, hversu gjörsamlega frosið er fyrir vit manna í þessum efnum, að þeim mun hálærðari sem menn virðast vera þeim mun meira orðskrúð er notað þegar þessi mál eru rædd. Þá er reynt að færa þetta yfir á það svið að málið verður svo flókið að venjulegir menn ná því hreint ekki hvað verið er að tala um. Allur saltfiskútflutningur Íslendinga dugar ekki, þó hann væri tvöfaldaður, til að standast þann viðskiptahalla sem nú er stefnt að. Þó við tvöfölduðum sölu okkar á Bandaríkin á freðfiski, tvöfölduðum hjá SH það sem selt er á Bandaríkin gegnum Coldwater mundi það ekki duga. Hér er verið að tala um tölur af þeirri stærð að það hlýtur hverjum manni að vera ljóst hver alvaran er ef hann sest niður og skoðar þetta. Engu að síður virðist öll umræðan í þjóðfélaginu snúast um allt aðra hluti.

Ég ætla að minna á það í lokin að það voru fleiri smáríki sem urðu sjálfstæð um svipað leyti og Ísland en hafa glatað sjálfstæði sínu í dag, sum vegna efnahagsmála, önnur vegna bróðurkærleika nágrannaríkjanna sem tóku að sér að sjá um þeirra mái. Ég tel að sú ógn sem okkur stendur af þeirri stefnu að ætla að halda áfram að láta kaupanda gjaldeyrisins einan ráða verðinu sé slík að það varði sjálfstæði þessarar þjóðar því hvert árið sem líður skapar það samfélag að fleiri og fleiri vinna við þjónustu, færri og færri vinna í framleiðslugreinunum. Og þrýstihópurinn sem heimtar að það sé keypt á vitlausu verði er alltaf að stækka, hann vill blóðmjólka kúna. Búhyggindin eru ekki meiri.

„Senn er þess von að úr sessinum mínum ég víki“, sagði Jón Helgason forðum. Hæstv. forsrh. hefur stuttan tíma til stefnu til ákvarðanatöku í íslenskum efnahagsmálum ef ætlun ríkisstjórnarinnar er að halda þeim öllum innanborðs sem hana hafa stutt til þessa.