14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6400 í B-deild Alþingistíðinda. (4397)

312. mál, flugvellir á Akureyri og Egilsstöðum

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):

Herra forseti. Umræður þær sem mest hefur borið á undanfarin ár um varaflugvöll fyrir stærri vélar, svokallaðan varaflugvöll fyrir millilandaflug, hafa að mestu leyti verið í formi ágreinings um staðsetningu slíks flugvallar og má segja að af því stigi hafi hann tæpast komist.

Enn sem komið er hefur ekkert verið fjallað af alvöru um búnað slíks flugvallar, hvað þá heldur um fjármögnun framkvæmda. Um fjármögnunarþáttinn hefur helst verið pískrað og gengið út frá því sem vísu að einhvern tíma í framtíðinni komi slíkur flugvöllur og verði þá fjármagnaður af erlendum aðilum og þá helst litið til NATO.

Nú hafa tvær nefndir verið starfandi til að fjalla um þetta mál, önnur á vegum flugmálastjórnar með samþykki samgrn., hin á vegum samgrn. og utanrrn. með þátttöku fulltrúa NATO. Ekki er séð fyrir endann á starfi þessara nefnda þegar þetta er talað.

Hér á landi hefur einn flugvöllur, Akureyrarflugvöllur, verið notaður um árabil sem varaflugvöllur fyrir Boeing-vélar Arnarflugs og Flugleiða. Ljóst er að ekki þarf að gera mikið fyrir Akureyrarflugvöll til að hann geti nýst fleiri flugvélartegundum. Nú eru einnig hafnar framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll sem mun fullbúinn geta nýst Boeing-vélum okkar, bæði til áætlunarflugs og sem varaflugvöllur. Einnig þar þarf að fara út í viðbótarframkvæmdir til að völlurinn nýtist fleiri tegundum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hagkvæmni þess að hafa varaflugvöll hér á landi. Fyrir utan öryggisþáttinn geta íslensk flugfélög sparað sér að taka á milli 6 og 7 tonn af viðbótareldsneyti sem þau eru nú skyldug til að hafa svo að vélar komist til varaflugvallar í Skotlandi eða á Írlandi. Gætu þau notað þennan sparnað til að auka flutningsgetu á frakt og lækkað fraktgjöld. Eftir því sem kunnugir menn segja mér þarf aðeins að stækka flugvöllinn á Akureyri um 300 metra, úr 2000 í 2300 metra, svo að DC-B-vélar geti lent þar. Sama gildir um Egilsstaðaflugvöll, en hann er áætlaður 2000 metrar. Fsp. er því þessi, en henni er beint til hæstv. samgrh.:

„1. Hvað mundi kosta að gera Akureyrarflugvöll þannig úr garði að allar flugvélategundir í eigu íslenskra flugfélaga gætu notað hann þannig að fyllstu öryggiskröfum yrði mætt um aðflug, brautarlengd og styrkleika flugbrautar, svo og um fráflug?" Það hefur misritast í þskj. Þar stendur bara „flug“, en á að vera „aðflug“.

„2. Hver yrði viðbótarkostnaður við hinn nýja flugvöll á Egilsstöðum ef fullnægja ætti sömu kröfum og um getur í 1. lið?"