14.04.1988
Sameinað þing: 68. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6405 í B-deild Alþingistíðinda. (4406)

366. mál, vegamál

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sem svar við 1. fsp. Vegagerð ríkisins hefur komið sér upp reglum um uppsetningu vegstika og er síðasta útgáfan frá 1986. Skv. þeim skulu vegir með bundnu slitlagi og meiri umferð en 200 bílum á dag að meðaltali yfir árið stikaðar beggja megin með 50 metra millibili. Allar aðrar stofnbrautir óháð slitlagi og umferð skulu stikaðar öðrum megin með sama millibili. Sama gildir um þjóðbrautir sem hafa meiri umferð en 100 bíla á dag. Miðað var við að uppsetningu stika skv. þessum reglum lyki 1988.

Fjallvegir eru auk þess metnir sérstaklega og allmargir þeirra stikaðir umfram hinar almennu reglur. Stikur þessar eru til mikillar hjálpar fyrir umferðina. Ágangur á þær er mikill, ekki síst á veturna. Er kostnaður við viðhald þeirra og endurnýjun áætlaður 14 millj. kr. á ári.

Sem svar við 2. fsp. Samkvæmt reglum þeim um vegbreiddir sem Vegagerð ríkisins notar skulu stofnbrautir almennt byggðar fyrir tvær akreinar, þ.e. minnst 6,5 m á breidd. Í markmiðum langtímaáætlunarinnar er kveðið á um að bundið slitlag skuli lagt á vegi með umferð sem er meiri en 100 bílar á dag, svo og á ýmsa vegi með minni umferð. Frá byrjun hefur fjármagn til vegagerðar verið mun minna en vera átti skv. langtímaáætluninni. Því hófust snemma tilraunir með ódýrari útfærslur á bundnu slitlagi. Á umferðarminnstu vegunum var þannig gerð tilraun með einbreitt bundið slitlag, þ.e. 3,8 m á breidd. Hefur bundið slitlag í þessari breidd verið lagt í nokkrum mæli undanfarin ár á umferðarminni vegum. Þó ekki séu allir á eitt sáttir um gæði þessarar tilhögunar hefur reynsla af henni enn sem komið er verið með þeim hætti að Vegagerðin heldur áfram að nota hana á umferðarminni vegi. Ljóst er þó að fylgjast þarf vel með þessum einbreiðu slitlögum til að umferðaröryggi haldist í viðunandi horfi.

Sem svar við 3. lið fsp.: Með vaxandi umferð eykst slysahætta af einnar akreinar brúm á tveggja akreina vegum. Þrátt fyrir það hefur ekki þótt fjárhagslega fýsilegt að byggja allar brýr á stofnbrautum tvíbreiðar, enda hefur allur þrýstingur löngum beinst að öðrum atriðum, svo sem nýjum leiðum og bættum vetrarsamgöngum og slitlögum.

Lengi hafa verið í gildi hjá Vegagerðinni staðlar um hvernig haga skuli breidd brúa á þjóðvegum. Fram til 1987 skyldi skv. þeim byggja langar brýr á umferðarlitlum stofnbrautum með einni akrein. Ástæðan fyrir þessu var sem fyrr mikill kostnaður við byggingu lengri brúa með tveimur akreinum ásamt takmörkuðum fjárráðum Vegasjóðs og miklum þrýstingi um aðrar framkvæmdir.

Í mars 1987 tók gildi nýr staðall, en skv. honum skulu brýr á stofnbrautum vera með tveimur akreinum. Þó eru enn leyfð frávik í vissum tilvikum þegar „allar aðstæður hafa verið vandlega athugaðar og öryggi umferðar virðist viðunandi“, eins og í reglunum segir. Þar til nægjanlegt fjármagn fæst er líklegt að við verðum að búa við þá skerðingu umferðaröryggis sem leiðir af því að við höfum ekki fjármagn til að endurbyggja annars nothæfar einbreiðar brýr á stofnbrautum.