14.04.1988
Sameinað þing: 69. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6453 í B-deild Alþingistíðinda. (4447)

453. mál, ráðstafanir gegn atvinnuleysi á Suðurlandi

Eggert Haukdal:

Herra forseti. Það hefur hallað undan fæti hjá landsbyggðinni í tíð fyrrverandi og núverandi stjórnar og ástandið er orðið alvarlegt víða um land. Það á ekki síst við um það svæði sem þessi tillaga fjallar um. En ráð hv. flm. er aðeins að skipa nefnd. Ráð stjórnvalda eru hins vegar um of því marki brennd að biðja um skýrslur eða möppur. En það er nóg til af möppum. Það vantar aðgerðir af hálfu stjórnvalda og það strax. Það vantar nefnilega almennar aðgerðir sem fljótlega mundu snúa þróuninni við. Til þess að framkvæma þær þarf hvorki nefnd, skýrslur eða möppur.

Þarna vil ég fyrst nefna afnám lánskjaravísitölunnar. Ekkert fer eins illa með landsbyggðina og hún, þótt þjóðin öll þurfi að losna við þann bölvald, nema fáeinir peningamenn og okrarar. Við tökum lán úti á landsbyggðinni með þessum okurvöxtum, en það sem við framkvæmum fyrir lánin með þessum vöxtum er síðan illseljanlegt. Lánskjaravísitalan er mannfyrirlitning, hún er ómanneskjuleg og hún drepur fólk. Vextirnir eru orðnir að drepsótt, hefur mætur læknir sagt. Sjálfsvíg á Íslandi eru álíka mörg í dag og umferðarslys og sum stafa af því að menn hafa gefist upp fyrir vöxtunum. Það virðist hafa vantað hjartalagið í þá sem sömdu lánskjaravísitöluna. Það eiga ekki við þá orðin sem Runeberg sagði um Svein dúfu: Hjartað, það var gott. - Og hætt er við að enn - það stendur til að fara að endurskoða þessa vísitölu - hætt er við að hjartalagið muni enn vanta í sérfræðingana. Þar er enginn tilnefndur úr atvinnulífinu, enginn af landsbyggðinni. Það sýnist vera og er fagnaðarefni að þessi ákvörðun hefur verið tekin og að menn eru að skilja þá umræðu sem hefur verið í þjóðfélaginu, en þeir þyrftu bara að skilja hana betur og afnema vísitöluna og það strax. Það er það eina sem gildir því að þessi vísitala er mesti verðbólguvaldurinn á Íslandi. Og hvers vegna var afnumin kaupgjaldsvísitala en lánskjaravísitalan skilin eftir?

Ég er með frv. hér í þinginu um afnám lánskjaravísitölu og ég vænti þess að það komi til atkvæða og þm. segi já eða nei við afnámi hennar. Það þarf ekkert síður að segja já eða nei við því en að leyfa bjór.

Önnur aðgerð er orkumálin. Fagna ber því sem þegar er búið að gera, að veita nokkru fé til að jafna mun á verði á orku til upphitunar en það vantar að jafna verð á orku til atvinnurekstursins, það vantar jöfnun í orkuverðið. Það er eitt mesta mál landsbyggðarinnar að það verði gert og það sem fyrst.

Ég vil nefna það þriðja, að það var ekki ástæða til að draga úr landbúnaði á því svæði sem byggir eingöngu á landbúnaði eins og þessar tvær sýslur sem hér eru nefndar í till. Þar gat lítið annað komið í staðinn. Byggðastofnun og áður Framkvæmdastofnun hafa um árabil starfað en þar hefur fyrst og fremst verið miðað við að byggja upp sjávarútveg og skal það ekki eftir talið en það hefur of lítið komið frá þeim til byggða eins og þessara tveggja hafnlausu sýslna. Enn vantar fé til sjávarútvegsbyggða. En það vantar líka stórfellt fjármagn einmitt á þeim svæðum sem ekki hafa sjávarútveg, til eflingar iðnaðar, ferðamála, fiskeldis og fleira, en umfram allt að gleyma ekki að hlúa að því sem fyrir er. Hinn hefðbundni búskapur verður alltaf meginundirstaðan í dreifbýli landsins.

Ríkisstjórnin er með þessi mál í athugun. Sú athugun má ekki standa lengi. Dráttur má alls ekki verða á aðgerðum.