18.04.1988
Sameinað þing: 70. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6513 í B-deild Alþingistíðinda. (4512)

465. mál, flugmálaáætlun 1988--1991

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að fagna því að flugmálaáætlun fyrir fyrsta tímabilið samkvæmt því 10 ára skipulagi, sem unnið var um uppbyggingu flugsamgangna, lítur hér dagsins ljós og er lögð fram og mælt fyrir henni á þinginu.

Það er komið nokkuð á annað ár, hygg ég, síðan áætlunin var kynnt á fundi og talsvert síðan samþykkt voru sérstök lög, nr. 31 frá 1987, um fjáröflun. Það er því tímabært og rúmlega það að við fáum sjálfa áætlunina um framkvæmdatilhögunina, tekjur og gjöld, til meðferðar. Ég hygg að menn séu nokkuð sammála um að það sé mikil framför að því að taka með skipulegum hætti á uppbyggingu flugsamgangnanna eins og hér er lagt til og má sjálfsagt segja að slíkt skipulag hafi vantað á undanförnum árum. Það gæti hugsanlega verið ein skýring þess að lítið hefur miðað áleiðis í að byggja upp viðunandi flugmannvirki, mannvirki á sviði flugsamgangna, hér í landinu.

Stór hluti af hinni nýju flugmálaáætlun var sérstök tekjuöflun með mörkuðum tekjustofnum í formi skattlagningar á flugsamgöngur. Það er vissulega umdeilanlegt hversu langt á að ganga í því á hverjum tíma að skattleggja viðkomandi starfsemi til þess að kosta uppbyggingu á eigin sviði og venjulega hefur verið um einhverjar beinar fjárveitingar úr ríkissjóði af öðrum skatttekjum að ræða þegar gert hefur verið átak til uppbyggingar samgöngumannvirkja. Tillögurnar í flugmálaáætluninni gerðu ráð fyrir því að uppbyggingin yrði að stórum hluta til fjármögnuð með skattlagningu á flugið sjálft. En nú lítur þáltill. dagsins ljós og þá er staðan orðin sú að ekki er gert ráð fyrir neinum fjárveitingum úr ríkissjóði til framkvæmda í flugmálunum. Beinar fjárveitingar úr ríkissjóði munu rétt hrökkva til að standa undir rekstri apparatsins í flugmálunum. Þess er ekki að vænta ef marka má þessa flugáætlun að neinir fjármunir renni úr ríkissjóði beint til uppbyggingar flugvalla eða flugvallamannvirkja.

Hér hefur orðið afturför hvað varðar hugmyndir manna í langtímaáætluninni. Þar var gert ráð fyrir að það bil sem væri á milli áætlaðra framkvæmda og þeirra tekna sem hinir mörkuðu tekjustofnar skiluðu á hverjum tíma yrði brúað með framlögum úr ríkissjóði. Hér skakkaði að vísu ekki stórum fjárhæðum miðað við lauslega samlagningu mína, en þá er að hafa í huga að tekjurnar byggja á áætlun. Það byggir á áætlun hve miklu hinir mörkuðu tekjustofnar muni skila. Þeir sem voru lagðir á með sérstökum lögum á síðasta ári, þ.e. flugvallagjald og eldsneytisgjald, munu skila á tímabilinu frá 256 og upp í 269 millj. kr. samkvæmt þessari áætlun en framkvæmdirnar eru um 270 millj. kr. Ég tel þá ekki með þær mörkuðu tekjur sem fyrir voru, svo sem lendingargjöld, loftferðaeftirlitsgjöld og annað.

Ég hefði kosið að sjá aðeins meiri bjartsýni í áætluninni og að strax á árinu 1989 væri a.m.k. gert ráð fyrir einhverjum beinum fjárveitingum til uppbyggingar flugmálanna. Mér finnst ekki sérstök ástæða né sérstök rök fyrir því að á sama tíma og talsverðum fjárhæðum, að vísu allt of litlum, er varið beint úr ríkissjóði til hafnargerðar, til vega, eða ætti að vera samkvæmt gildandi áætlunum og til ýmissa annarra hliðstæðra mannvirkja, sé ekki reiknað með að neinir fjármunir komi úr ríkissjóði til þess að taka þátt í þessu stóra átaki í uppbyggingu flugsamgangna því hér er auðvitað um að ræða gjörbyltingu í framkvæmdum ef af verður. Þetta 10 ára tímabil, ef svo vel tekst til að menn nái að halda þessari áætlun, yrði auðvitað meiri háttar stórátak sem mundi tæpast eiga sinn líka hvorki fyrr né síðar hvað varðar uppbyggingu flugsamgangna. Þess vegna hefði ég talið að ekki hefði verið nein ofrausn að gera ráð fyrir eins og 30–50 millj. á ári í formi beinna framlaga úr ríkissjóði til að taka þátt í þessari uppbyggingu. En nóg um það að sinni.

Ég vil gera, eins og áður, þá fyrirvara við stuðningi mínum við þessa till. að flokkun flugvallanna, eins og hún er hér upp sett, að vísu hafandi í huga þann formála sem hæstv. samgrh. hafði þar um, megi ekki verða bindandi á nokkurn hátt um innbyrðis röðun flugvallanna og framkvæmdir. Ég tel til að mynda, til þess að það skiljist nú strax hvað ég er að fara, að flugvellirnir í Vestmannaeyjum og á Húsavík eigi að sitja við sama borð og vera flokkaðir með sama hætti og flugvöllurinn á Egilsstöðum, svo ekki sé nú talað um flugvöllinn á Sauðárkróki þar sem er til að mynda líklega upp undir fimm sinnum minni umferð en í Vestmannaeyjum. Lengd flugvallanna í dag breytir í raun og veru engu um. Það er fyrst og fremst hlutverk þeirra, umferðin um þá og líkleg þróun umferðar þar í framtíðinni sem á að leggja til grundvallar þegar hin eiginlega flokkun er ákveðin. Mér þætti miklum mun lakara að sjá til að mynda þessa tvo flugvelli, sem ég nefndi, verða áfram í öðrum flokki þegar þáltill. verður afgreidd við síðari umr. Ég held að menn ættu þá einfaldlega að breyta þeirri vinnureglu sem er höfð við flokkunina og setja sér það markmið að koma þessum tveimur flugvöllum á næstu árum innan t.d. ramma áætlunarinnar upp í fyrsta flokk. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það þurfi að gera ráð fyrir því og vonandi er það í allri uppbyggingunni að flugvellirnir færist upp eftir því sem uppbyggingu þeirra miðar. Ég er þeirrar skoðunar að innan tíðar verði gerð krafa um það að allir mikilvægustu héraðsflugvellir landsins geti tekið við miðlungsþotum, ekki síst til fraktflutninga sem gera má ráð fyrir að fari vaxandi í framtíðinni, t.d. útflutningur á ferskum matvælum.

Örfá orð í lokin, herra forseti, um varaflugvallarmálið sæla sem við, ákveðnir þm. hér á hinu háa Alþingi, sitjum okkur sjaldnast úr færi til að nefna ef við komum því við. Ég er, þó það eigi e.t.v. ekki sérstakt erindi inn í fyrstu tvö árin í þessari 10 ára áætlun, með það í huga sem sagt að flugmálaáætlun kemur aftur til endurskoðunar að tveimur árum liðnum, eindregið þeirrar skoðunar að gera eigi ráð fyrir að leysa þetta varaflugvallarspursmál innan ramma okkar flugmálaáætlunar og þar séum við ekki að tala um neitt stórverkefni sem eigi þar ekki heima, heldur einfaldlega að gera þær lagfæringar á einum, tveimur og jafnvel fleiri flugvöllum sem fyrir eru í landinu eða verið er að byggja að þeir geti þjónað varaflugvallarhlutverki fyrir íslenska millilandaflugið eins og það er, að svo miklu leyti sem það er hægt, og síðan eins og það verður innan tiltölulega fárra ára þegar væntanlega allar flugvélagerðir sem þá verða í notkun geta notað flugvellina á Akureyri og síðan á Egilsstöðum, eins og þeir eru í dag, miðað við þá lengd sem þeim er ætluð.

Hæstv. utanrrh. hefur, mér til óumdeildrar gleði, gengið af herflugvallarhugmyndinni dauðri. Því hefur ekki verið mótmælt hér að hann sló þá hugmynd faglega út af borðinu og lýsti því yfir fyrir hönd ríkisstjórnarinnar að hún væri ekki á dagskrá. Við þurfum þá að sjálfsögðu að ganga út frá því og ræða málin út frá því og þar með erum við að tala um að leysa þessi mál fyrir okkur sjálfa á þann hátt sem okkur er viðráðanlegt. Það hygg ég að sé best gert með því að gera ákveðnar lágmarksúrbætur á Akureyrarflugvelli, sem reyndar eru nú að hluta til inni í þessari áætlun, og taka mið af því við uppbyggingu flugvallarins á Egilsstöðum. Þar er gert ráð fyrir 2000 metra braut. Innan tíðar verður íslenski flugflotinn væntanlega þannig samsettur að allar vélar þar geti notað þá braut. Síðan er ég þeirrar skoðunar, eins og ég áður sagði, að fleiri af mikilvægustu landshluta- og/eða héraðsflugvöllunum muni í framtíðinni verða í stakk búnir til að þjóna hliðstæðu hlutverki. Þá verður þetta fræga varaflugvallarmál endanlega dautt og innan svona 10 ára, þegar einir sex flugvellir í landinu geta hver fyrir sig tekið á móti öllum þeim flugvélategundum sem eru í millilandaflugi fyrir Íslendinga, munu menn hlæja sig máttlausa að þeim mönnum sem voru með hugmyndir uppi um fleiri hundruð millj. kr. fjárfestingar í flugvöll til að nota einu sinni á ári.