20.04.1988
Efri deild: 78. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6650 í B-deild Alþingistíðinda. (4599)

293. mál, áfengislög

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið nokkuð sérkennilegt að sitja hér á Alþingi í vetur. Það hefur eiginlega ekki sést í þinghúsið fyrir bjór. Það hefur verið þannig að fjölmiðlar og þingheimur, almenningur í landinu hefur verið svo upptekinn af þessu þjóðþrifamáli sem er núna komið hingað upp í Ed. að það hefur í raun og veru ekki orðið vart við það í landinu að neitt annað væri á dagskrá á þinginu en þetta frv. sem hér kemur til 1. umr. í þessari virðulegu deild. Á þeim tímum þegar ástand í efnahagsmálum er t.d. jafnalvarlegt eins og allir þekkja sem eitthvað um þau hugsa og staða atvinnuveganna er með þeim hætti sem menn þekkja er býsna alvarlegt að hugsa til þess að þær raddir sem vilja ræða þau mál skuli ekki ná út fyrir þessa þykku veggi þinghússins sem umlykja okkur, þessa „bergmálslausu múra“ sem Steinn Steinarr kvað um forðum.

Félagar okkar og samstarfsmenn í Nd. Alþingis hafa rætt um þetta mál vikum ef ekki mánuðum saman. Sú umræða hefur stundum einkennst af því að menn væru fremur að takast á af kröftum en lagni og beita hver annan rökum sem eðlilegt er að flytja með og á móti máli af þessu tagi. Ég vil segja það strax fyrir mitt leyti við þessa 1. umr. málsins að ég hef engan hug á því og engan áhuga á því að frá þessari virðulegu deild þingsins leggi málflutning út til þjóðarinnar með þeim hætti sem við höfum kynnst undanfarna daga úr herberginu við hliðina á okkur. Ég held að það þjóni engum tilgangi, hvorki fyrir þá sem eru með bjórnum og jafnvel enn síður fyrir þá sem eru á móti honum, að fara að setja hér á langar ræður og ítarlegar umræður, að ég segi ekki rifrildi, um mál af þessu tagi þar sem menn uppnefna hver annan jafnvel innan stjórnmálaflokka. Ég ætla þess vegna aðeins að draga hér fram þau rök sem eru efst í mínum huga og eru þessi:

Það eru í fyrsta lagi heilbrigðisröksemdir. Ég starfaði um nokkurra ára skeið í heilbrrn., þurfti þá starfs míns vegna að heimsækja stofnanir, meðferðarstofnanir fyrir áfengissjúklinga, að kynnast þannig þeim vandamálum sem þar er við að glíma, að sjá ungt fólk tugum, hundruðum saman, kornungt, mjög illa farið af neyslu vímuefna af margvíslegu tagi. Eftir að hafa kynnst þessum málum með þessum hætti get ég ekki varið það fyrir samvisku minni að fallast hér á frv. sem hefði í för með sér aukningu á notkun áfengis í landinu, en það viðurkenna allir að sjálfsögðu.

Ég bendi á að fyrir nokkru var dreift hér í þinginu skýrslu frá nefnd um opinbera stefnumótun í áfengismálum sem ég átti þátt í að skipa árið 1983. Þessi nefnd gerir tillögur á grundvelli stefnumótunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Grundvallaratriði stefnumótunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru þau að það beri að gera það sem unnt er til að draga úr aðgengi að áfengi með það markmið í huga að áfengisneysla hafi minnkað mjög verulega árið 2000. En eins og þingheimi er kunnugt er það eitt kjörorð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að berjast fyrir heilbrigði allra árið 2000.

Það væri í hrópandi mótsögn við þetta markmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þeirrar opinberu nefndar sem starfað hefur og fjallað um þessi mál ef Alþingi færi nú að samþykkja frv. sem, ef að lögum verður, hefði í för með sér aukningu á áfengisneyslu hér á landi.

Nú er því haldið fram hins vegar af þeim sem bera þetta mál mjög fyrir brjósti að þetta þýði ekki aukningu, hér verði aðeins um að ræða verslun á vegum ríkisins með þessa vöru. Ég tel að það sé út af fyrir sig góðra gjalda vert að menn hafi þetta í huga í upphafi en ég er sannfærður um að eftir tiltölulega mjög skamman tíma mun verslun með áfengt öl færast miklu víðar. Hún mun ekki takmarkast við Áfengisverslunina þó ekki sé nema vegna þess að pósthús landsins sem taka nú við póstkröfum frá Afengisversluninni munu fljótlega og forráðamenn þeirra komast að því fullkeyptu að þau hafi ekki pláss til að hýsa þessa vöru. Þess vegna kemur fram krafa um að henni verði opnaðar dyr í allar almennar verslanir.

Ég hef heyrt þau rök í þessu máli að Alþingi eigi ekki að reyna að hafa vit fyrir þjóðinni. Hver einstaklingur eigi að hafa vit fyrir sjálfum sér, hann eigi að hafa þroska til þess og getu. Auðvitað þarf það að vera þannig. En ég spyr á móti: Erum við ekki alltaf að setja hér reglur sem taka á þeim málum sem snerta einstaklinginn? Frelsi er gott en á því verður að vera nokkurt skipulag og við viljum að það skipulag sé ákveðið með lýðræðislegum hætti.

Ég tel að það að taka afstöðu gegn framleiðslu og innflutningi áfengs öls sé ekki forræðishyggja heldur heilbrigðisstefna sem byggist á lýðræðislegu sjónarmiði. Við þekkjum það þegar við umgöngumst börnin okkar að við viljum gjarnan halda þannig á málum við þau að þau verði ekki fyrir því að lenda í klóm vímugjafanna sem herja á yngstu kynslóðina í okkar landi eins og mörg önnur lönd á okkar menningarsvæði. Þá beitum við forræðishyggju sem foreldrar. Það þýðir ekki, a.m.k. við mig, að setja mál þannig upp að við berum ekki ábyrgð gagnvart einstaklingunum í þjóðfélaginu. Það gerum við sem hér erum.

Til hvers erum við kosin á þing? Við erum kosin á þing til að framkvæma þá stefnu sem flokkar okkar og stjórnmálasamtök standa fyrir. Ég held að við séum nokkuð sannfærð um það öll, hvert með sínum hætti, að við séum hér á þingi til að reyna að láta gott af okkur leiða. Þegar við styðjum mál gerum við það í trausti þess og vissu að niðurstaðan, ef málið nær fram að ganga, sé betri en óbreytt ástand.

Ég hef engan mann heyrt halda því fram að það að hefja innflutning og framleiðslu á áfengu öli hér á landi bæti ástandið í áfengismálum, fækki þeim sem þurfa að leita til meðferðarstofnana t.d., dragi úr vanda unga fólksins sem þarf að takast á við þennan vanda, dragi úr vanda foreldranna. Fyrir mér a.m.k. sem einstaklingi hér á þessari samkomu er það lykilatriði þegar ég tek afstöðu til máls að ég hafi fulla sannfæringu fyrir því að það sem ég er að gera geri ástandið ekki verra út frá þeim grundvallarsjónarmiðum sem ég geng út frá þegar ég er kosinn hér til þessara starfa.

Af þessum ástæðum, virðulegi forseti, hef ég á undanförnum árum þegar þetta mál hefur komið hér fyrir þingið ævinlega greitt atkvæði gegn bjórfrv. og ég mun gera það nú líka. Ég mun ekki gera neinar tilraunir til að hengja aftan í það einhver önnur og gersamlega óskyld mál. Ég tel að það sé út í hött, það sé til þess að drepa málinu á dreif. Ég mun greiða atkvæði á móti frv. eins og það kemur fyrir. Ef svo illa fer að þetta mál verði samþykkt hér og verði að lögum frá þessu þingi mun ég síðar flytja tillögur um þingmál til að taka á þeim vanda sem samþykkt þessa frv. mundi hafa í för með sér. Ég mun ekki gera neina tilraun til að hengja þar hluti saman, eins og gert var hjá félögum okkar í Nd., fyrst og fremst vegna þess að ég tel eðlilegast að menn taki afstöðu til málsins eins og það liggur fyrir, gangi í gegnum það hér vafningalaust, tali með og á móti eftir atvikum, flytji mál sitt með eðlilegum og málefnalegum hætti, eins og tíðkast gjarnan í þessari deild. Ég hygg að það yrði bæði deildinni og þar með þinginu í heild mestur sómi, hver svo sem lendingin yrði, ef afgreiðsla málsins gengur fyrir sig með eðlilegum, rökvísum, skynsamlegum og rólegum, málefnalegum hætti.

Ég mundi harma það ef niðurstaðan yrði sú að bjórfrv. yrði samþykkt. Ég tel enga ástæðu til að ætla að svo sé í þessari deild. Ég veit ekkert um hugi einstakra þm., það kemur í ljós. Mín afstaða er skýr, hún er sú sem ég hef hér fært rök fyrir. Þó að ég þekki málið, virðulegi forseti, allvel og gæti flutt um það miklu ítarlegra mál tel ég enga ástæðu til þess á þessu stigi en áskil mér rétt til að ræða um málið við síðari umræðu eftir því sem ástæður verða til.