14.10.1987
Neðri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

2. mál, eignarréttur íslenska ríkisins að auðlindum hafsbo

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins, en flm. ásamt mér eru aðrir hv. þm. Alþb. í Nd.

Frv. þetta er nú flutt í þriðja sinn hér í þessari virðulegu deild sem þmfrv., en hafði raunar verið lagt fram sem stjfrv. á þinginu 1982–1983 og var þá vísað til ríkisstjórnarinnar til skjótrar athugunar eða eins og segir í grg.: „til skjótrar en ítarlegrar athugunar hæfustu sérfræðinga“.

Síðan hefur ekki, svo mér sé kunnugt, verið fjallað um þetta mál sérstaklega í ríkisstjórnum eða unnið að því að taka á því af hálfu þeirra og þess vegna er málið enn flutt af okkur þm. Við teljum að nauðsynlegt sé að setja um þessi efni almennar reglur og það óháð því hvort álit manna sé að líklegt sé að verðmæt jarðefni eða auðlindir sé að finna á hafsbotni innan íslenskrar lögsögu.

Meginefni frv. kemur fram í 1. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið er eigandi allra auðlinda á og í hafsbotninum utan netlaga og svo langt til hafs sem fullveldisréttur Íslands nær samkvæmt lögum, alþjóðasamningum eða samningum við einstök ríki.

Auðlindir samkvæmt lögum þessum taka til allra ólífrænna og lífrænna auðlinda á og í hafsbotninum.“ Í öðrum greinum frv. er kveðið á um að leitað skuli leyfis iðnrh. til leitar að slíkum efnum til hagnýtingar og iðnrh. skuli gefa út leyfi ef þurfa þykir til að nýta efni af hafsbotni. Tími til slíkrar hagnýtingar samkvæmt sérstöku leyfi er 30 ár samkvæmt ákvæðum 4. gr. og gert er ráð fyrir að iðnrh. geti með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laganna.

Frv. þetta var upphaflega undirbúið af sérstakri nefnd sem kallast hafsbotnsnefnd iðnrn. og hefur verið starfandi síðan 1980, að mig minnir, og ég veit ekki betur en að hún sé enn starfandi. Í öllu falli var hún endurskipuð af hæstv. fyrrv. iðnrh., hv. þm. Albert Guðmundssyni, á síðasta ári. Þegar frv. var mótað hafði forustu í nefndinni Benedikt Sigurjónsson, fyrrv. hæstaréttardómari, og með honum voru þar að verkum sérfræðingar. Litið var til löggjafar nágrannalanda um þessi efni, ekki síst norskra ákvæða, og það var talið, m.a. af hæstv. fyrrv. utanrrh. Ólafi Jóhannessyni, gild ástæða til þess að undirbúa og setja slíka löggjöf. Eins og ég gat um er mér ekki kunnugt um að sérstök hreyfing hafi verið á þessu máli hjá ríkisstjórnum sem síðan hafa setið, en hæstv. iðnrh., sem hér er viðstaddur, upplýsir okkur væntanlega um það ef svo er, svo og vænti ég þess að hann segi hug sinn til þessa máls hér í umræðum.

Það er mat okkar að þó að lagareglur hafi verið settar um fullveldisrétt Íslands yfir hafsbotninum með lögum frá 1979 skorti reglur um eignarrétt og nýtingarrétt að auðlindum sem kunna að finnast, a.m.k. á svæðum utan netlaga.

Í grg. með frv. er rakin saga rannsókna sem tengjast þessu máli, athugana á íslenskum hafsbotnssvæðum allt frá árinu 1972 fram undir þennan dag og er ég ekki að rifja hana upp hér sérstaklega. Þó vil ég víkja að þeim athugunum sem síðast fóru fram um þessi efni, en það voru rannsóknir í samvinnu við norsk stjórnvöld og norska jarðeðlisfyrirtækið Geco og Orkustofnun sem unnar voru með „seismiskum“ mælingum sem svo eru kallaðar, eða bergmálsdýptarmælingum, sumarið 1985. Þær athuganir voru tvenns konar. Meginrannsóknin sem þá fór fram var á Jan Mayen svæðinu sem um gildir sérstakt samkomulag milli Íslands og Noregs frá 22. október 1982 og þar voru mældar yfir 4000 km langar línur eða farið með skip yfir 4000 km og gerðar bergmálsdýptarmælingar til þess að kanna hafsbotninn.

Hin athugunin tók til Flateyjarsvæðisins sem svo er kallað, þ.e. setlagadældarinnar sem uppgötvaðist upp úr 1980 úti fyrir Eyjafirði og Skjálfanda, þar sem er að finna samkvæmt niðurstöðum þeirra rannsókna þykkustu setlög sem vitað er um hér við Ísland eða allt að 7–8 km á dýpt. Þar fóru fram boranir, nánar tiltekið í Flatey 1982, að vísu fremur grunn rannsóknaborun, og það var áhugi á því hjá íslenskum stjórnvöldum að fá ítarlegri athuganir og það tókst sumarið 1985, ég hygg fyrir tilverknað þáv. ráðherra iðnaðarmála, að fá mælingar einnig á þessu svæði þar sem farið var yfir 230 km með bergmálsdýptarmælingum til að safna fyllri heimildum. Íslenskir sérfræðingar fylgdust með þessu máli og þar hefur verið fremstur Karl Gunnarsson, ég hygg jarðeðlisfræðingur, starfsmaður Orkustofnunar, sem sl. ár var við Oslóarháskóla til þess að afla sér fyllri þekkingar á málum sem þessu tengjast, þ.e. olíuleit sérstaklega. Hann fylgdist ásamt fleiri sérfræðingum með þessum athugunum 1985 og hefur verið þátttakandi í úrvinnslu þessara gagna sem hafa farið fram í Noregi en einnig að hluta til hérlendis hjá Orkustofnun þar sem menn hafa verið að koma upp búnaði til þess að geta tekið fullan þátt í úrvinnslu á gögnum af þessu tagi.

Nú er það svo að hugmyndin er að selja þessar upplýsingar til iðnaðaraðila, olíufélaga eða annarra sem áhuga kynnu að hafa á þessum gögnum, til frekara mats, og ef hagnaður yrði af slíkri sölu kæmi hann að hluta til til Íslands og þá á ég við Jan Mayen svæðið sérstaklega. Af þessum ástæðum eru gögnin að nokkru leyti óopinber og yfir þeim er ákveðin leynd, en þó verða almenn atriði úr þessum niðurstöðum birt í skýrslum sem nú eru á lokastigi úrvinnslu og munu verða tiltækar hjá Orkustofnun að því er mér er tjáð fyrir lok þessa árs. Ég vil leyfa mér vegna umræðu um þetta mál að geta þess sem ég hef fengið upplýst frá Karli Gunnarssyni um meginniðurstöður í þessum athugunum frá 1985.

Það sem snertir Flateyjarsvæðið bendir ekki til þess að það sé líklegt olíusvæði og gögnin, og úrvinnsla þeirra sem fyrir liggur, eru ekki þess eðlis að líkur séu til að það verði lögð áhersla á frekari athugun þarna með tilliti til olíu á allra næstu árum. Það eru sem sagt ýmis jarðeðlisfræðileg og jarðfræðileg atriði sem eru þess eðlis að líkurnar eru hverfandi. Bæði er mikil brotavirkni á þessu svæði og misgengi sem veldur því að jarðskorpan er sundruð ef svo má segja, er ekki heil, og það vantar auk þess allar sannanir um lífrænar leifar á þessu svæði sem gætu hafa leitt til olíumyndunar jafnvel þótt jarðlögin og jarðeðlisfræði þessa svæðis væri hagstæð með tilliti til olíumyndunar. Þetta er um Flateyjarsvæðið.

Varðandi Jan Mayen svæðið sem er auðvitað miklu stærra, það sem til athugunar var, gildir verulega öðru máli. Niðurstöður þeirra athugana eru fremur jákvæðar með tilliti til hugsanlegrar olíumyndunar á þessu svæði. Eins og hv. þm. eflaust vita er þarna um að ræða á svæðinu suðsuðvestur af Jan Mayen leifar af meginlandi sem hefur skilist frá þegar Atlantshafið varð til og Grænland rak frá Noregi og þessi lönd skildust að fyrir tugum milljóna ára. Það eru einmitt þær aðstæður sem eru að vissu leyti forsenda fyrir því að líkur séu til að þarna gæti verið um eitthvað verulegt að ræða í sambandi við olíumyndun. Þó er það svo að setlögin sem fundist hafa við athuganir á þessu svæði eru frekar ung, en undir þeim og hraunlögum, sem undir þeim liggja, er talið að séu eldri setlög hliðstæð þeim sem fundist hafa á Jamesonslandi austur af Grænlandsströnd og í Möre-setlagadældinni við Noreg, en þessi svæði, Jamesonsland og Möredældin, voru aðliggjandi fyrr á tíð áður en Norður-Atlantshafið varð til við landrek sem svo er kallað.

Þetta eru sem sagt talin áhugaverð setlög þó að mælingar sanni vissulega ekki tilvist olíu. Karl Gunnarsson hefur tjáð mér að hann telji vísbendingar vera um gasútstreymi þarna á hryggnum, en nánari athugun á eftir að fara fram á því. Þessi setlög eru innan rammans sem samkomulag Íslands og Noregs frá 1981 tekur til, en það er birt sem fylgiskjal með þessu frv. og menn sjá þetta svæði á bls. 12 í fskj. VIII þetta svæði sem snertir þetta samkomulag og Íslendingar eiga tilkall til að hluta, þ.e. út að 200 mílum, en Norðmenn aftur þar norðnorðaustur af og er þeirra hlutur vissulega mun stærri landfræðilega séð.

Það er líka svo að setlög á þessu svæði, sem gefa helst til kynna að þarna gæti verið um olíumyndun að ræða, eru að meiri hluta inni á norsku svæði, þ.e. utan við 200 mílurnar frá Íslandi. Þó er það svo að þau ganga einnig suður á hið íslenska svæði og raunar alveg upp undir landgrunnsbrúnina norðaustur af landinu. Þar eru að vísu þessi setlög og meginlandsleifar klofin upp í nokkra þætti og þar er dýpi líka mun meira heldur en á norska svæðinu og allir erfiðleikar varðandi hugsanlega nýtingu í framtíðinni mun meiri. Norðar á þessu aðalsetlagasvæði er dýpið 700–1000 metrar en dýpkar þegar nær dregur Íslandi þar sem dýpið er um 1500 metrar. Það er sem sagt ástæða til að ítreka að engin vissa er um olíu á þessu svæði þó að skilyrðin geti verið hagstæð í því sambandi og hitt skulum við einnig hafa í huga að það er langt frá því að núverandi tækni geri kleift að vinna olíu við þessar aðstæður. Það er sem sagt háð tækniframförum að til slíks gæti dregið og það eru áratugir, 10–20 ár a.m.k., sem talið er að þurfi til þess að þróa slíka tækni og til þess þurfa öflugir aðilar að hafa áhuga á nýtingu á þessu svæði.

Menn spyrja eðlilega þegar rætt er um hagnýtingu efna eins og t.d. olíu á íslenskum hafsbotnssvæðum eða svæðum sem eru nálægt landinu hvort þarna sé ekki um að ræða verulega áhættu í sambandi við umhverfisþáttinn og hættu sem okkar sjávarauðlindum gæti stafað af nýtingu, t.d. af olíuvinnslu, a þessu svæði. Við leggjum áherslu á það flm. og það er fram tekið í grg. að að þessum þáttum þurfi sannarlega að huga og það jafnhliða öllum hugmyndum sem tengjast hugsanlegri olíuvinnslu og jafnvel olíuleit. Ég hef að vísu heyrt það sem álit sérfræðinga í Hafrannsóknastofnun að varðandi Jan Mayen svæðið sé ekki talið að straumar liggi þannig að jafnvel þó um óhapp væri að ræða eða slys sem stundum er svo kallað í sambandi við olíuvinnslu ætti það ekki að ógna eða stefna sjávarauðlindum okkar, fiskimiðum okkar, í verulega hættu. Ég skal ekki leggja mat á þetta, enda er hér aðeins um lauslegar upplýsingar að ræða, en tel nauðsynlegt að leggja áherslu á þennan þátt alveg sérstaklega þegar verið er að ræða um slík hugsanleg nýtingaráform í framtíðinni.

Ég vil svo, herra forseti, undir lok míns máls minna a að þegar mál þetta var rætt síðast í þinginu komu fram jákvæðar undirtektir frá þáverandi hæstv. iðnrh., nú hv. þm. Albert Guðmundssyni, varðandi þetta mál og hafsbotnsnefndin, sem hann endurskipaði í fyrra, veitti allshn., sem fékk mál þetta til meðferðar, og ég legg raunar til að málið gangi aftur til allshn. þessarar deildar, umsögn um frv. eins og það liggur hér fyrir og sú umsögn er birt sem fskj. með frv. á bls. 5. Hv. þm. geta kynnt sér álit hafsbotnsnefndarinnar sem er eindregið og jákvætt og þar er hvatt til þess, eins og segir í niðurlagsorðum:

„Hafsbotnsnefndin mælir með því fyrir sitt leyti að sett verði lög um eignarrétt að auðlindum hafsbotnsins og hefur ekki efnislegar athugasemdir að gera við frumvarpið.“

Ég nefni það svo að lokum að ég vænti þess að mál þetta fái ekki aðeins þinglega meðferð heldur vænti ég þess að á því verði tekið í ljósi þeirrar jákvæðu umsagna sem þegar liggja fyrir og allrar forsögu málsins þar sem menn úr ýmsum flokkum, fyrrv. hæstv. ráðherrar, hafa tekið mjög jákvætt undir það og undirstrikað nauðsynina að slík lagasetning verði að veruleika og það einnig þó ekki sé um að ræða neinar sérstakar aðstæður sem krefjist slíks. Það er nauðsynlegt fyrir Alþingi að horfa til framtíðarinnar og móta almennar reglur varðandi íslenskt yfirráðasvæði. Hér er sannarlega um að ræða miklu stærra svæði en er ofansjávar og telst til Íslands og því full ástæða til þess fyrir þingið að móta um þetta reglur. Ekki mundum við flm. fyrtast við þó að athugasemdir væru efnislega af hálfu þingdeildarinnar eða nefndar þingsins varðandi þetta mál því að skylt er að skoða það og leita sem bestra leiða í sambandi við löggjöf. En ég legg til að að lokinni umræðu verði þessu máli vísað til hv. allshn. deildarinnar.