26.04.1988
Efri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6797 í B-deild Alþingistíðinda. (4732)

271. mál, framhaldsskólar

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Það er full ástæða til að fagna þegar við sjáum hilla undir að samþykkt verði lög um framhaldsskóla eftir svo langa bið, en það er hins vegar spurning hvort hv. þm. og þeir sem í skólunum eiga að starfa eru allir jafnsáttir við það frv. sem hér liggur fyrir.

Það er ein grundvallarástæða fyrir því að Kvennalistinn getur ekki sætt sig við það stjórnunarfyrirkomulag sem lagt er til í þessu frv., það er varðandi skólanefndir og verksvið þeirra. Það er auðvitað alltaf spurning hvernig á að skipa forstöðu fyrir hinum ýmsu stofnunum. Skólanefndir hafa verið, eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra, stuðningur við suma skólameistara, en það er þó ekki algilt. Hann ræddi hér um að það væri hræðslan við hið óþekkta sem gerði menn hrædda við skólanefndirnar. Ég held að það sé ekki eingöngu sú hræðsla heldur er ástæðan aðallega sú að kennarar hafa fyrir tveimur árum loksins fengið viðurkennd þau faglegu réttindi sem nauðsynleg eru til að starfa við stofnanir sem skóla og þessi faglegu sjónarmið finnst okkur höfð að engu í þessu frv. með því að skólanefndin er pólitískt kjörin nefnd. Ég vil þó alls ekki gera lítið úr fulltrúum sem veljast í skólanefndir almennt. Í þær veljast oft mjög hæfir menn sem eru færir um að sinna þeim verkefnum sem þeim eru ætluð, en það getur verið tilviljanakennt. En að vald um innri málefni skólans, námsframboð og annað innra starf skuli falið skólanefnd þar sem ekki er einu sinni ákvæði um að kennarar eigi áheyrnarfulltrúa á fundum skólanefndarinnar teljum við með öllu óhugsandi. Það er sem sé stjórnunarkaflinn sem við gerum að okkar stærsta ágreiningsefni varðandi þetta frv. og mun ég væntanlega fyrir hönd okkar þingkvenna Kvennalistans í þessari deild flytja brtt. þegar málið kemur til 2. umr.

Ég ætla ekki að fara mjög nákvæmlega út í hinar einstöku greinar frv. að þessu sinni vegna þess að til þess gefst mér tækifæri í menntmn. Það eru þó nokkur atriði sem ég vildi gera að umræðuefni og spyrja hæstv. menntmrh. um. Það eru greinar sem mér finnst vera óljósar og ætla því aðeins að fara í gegnum það helsta sem mér finnst ekki koma alveg skýrt fram.

Í fyrsta lagi vil ég gera að nokkru umræðuefni málefni fatlaðra nemenda sem hann minntist á í máli sínu áðan. Ég fagna því mjög að nú skuli gert ráð fyrir að fatlaðir nemendur fái aðgang að framhaldsskólanum. Það er löngu tímabært og það hefur verið stefnan í starfi grunnskólans undanfarin ár að reyna að kenna fötluðum nemendum sem mest með öðrum nemendum. Með fötlun á ég við annaðhvort líkamlega eða andlega fatlaða. Ég held mig við þá skilgreiningu á orðinu. Ég fagna því mjög að þeim skuli nú gert kleift að sækja framhaldsskólann og að þeim verði boðið þar upp á nám við sitt hæfi, en mér finnst reyndar ekki koma alveg nógu skýrt fram hvernig þetta námsframboð verður og í hvaða formi og eins vakna spurningar varðandi inntökuskilyrðin. Þess vegna vildi ég spyrja aðeins um 16. gr. Þar segir að allir sem lokið hafa grunnskólanámi eða hlotið jafngilda undirstöðumenntun eigi rétt á að hefja nám í framhaldsskóla að fullnægðum kröfum um starfsþjálfun þar sem hennar er krafist. Síðan segir, með leyfi forseta: „Nemendum er skylt að stunda fornám í einstökum námsgreinum samkvæmt ákveðinni námsskrá hafi þeir ekki náð tilskildum lágmarksárangri.“

Nú er það svo með marga fatlaða nemendur að þeir fara ekki eftir hefðbundnum brautum grunnskólans. Það eru sérdeildir starfandi við hina ýmsu skóla þar sem er vikið frá námsefni og þeir taka í raun og veru aldrei þetta svokallaða grunnskólapróf. Spurningin er: Með hvaða skilyrðum á að taka þessa nemendur inn í skólann? Í 30. gr. hefur verið gerð breyting sem ég tel til bóta. Þar segir einmitt líka í síðasta málsl. í fyrri málsgr., með leyfi forseta: „Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.“ Og síðan heldur áfram og segir: „Heimilt er að stofna sérskóla fyrir þroskahefta nemendur. Menntmrn. setur reglugerð með nánari ákvæðum um framkvæmd kennslu og nám fatlaðra nemenda.“

Eigi fatlaðir nemendur að stunda nám við hlið annarra nemenda er auðvitað spurningin með hvaða skilyrðum og þess vegna vildi ég spyrja út í þau inntökuskilyrði sem tiltekin eru í 16. gr. og síðan það sem fram kemur í 30. gr. að þeir eigi að fá að stunda nám við hlið hinna. Mig langar í sambandi við þessar hugleiðingar mínar um fatlaða nemendur að vitna til greinargerðar um verkefni sem unnið hefur verið í Öskjuhlíðarskóla og er tengt norræna þróunarverkefninu um stuðningskennslu og fyrirbyggjandi starf í framhaldsskólum. Ég ætla að leyfa mér að lesa þessa greinargerð því ég tel að þarna fari fram mjög mikilvægt starf. Það sýnir nú kannski þörfina á löggjöf um framhaldsskólann að sá kennari sem hefur umsjón með þessu verkefni, Fjölnir Ásbjörnsson, er ráðinn kennari við Öskjuhlíðarskólann í Reykjavík, en nemendurnir, sem hann kennir, eru innritaðir í Iðnskólann í Reykjavík. Hann þarf í raun og veru aldrei að stíga fæti sínum inn í Öskjuhlíðarskólann þó að það sé í raun og veru sá staður þar sem hann er ráðinn. En hér segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Árið 1985 fór af stað tilraunaverkefni af hálfu Öskjuhlíðarskóla. Tilraunin var í því fólgin að bjóða unglingum með skerta námshæfni á aldrinum 17 ára til tvítugs nám við sitt hæfi, þ.e. nám sem að miklum hluta væri verklegt og byggi þá undir tiltekið starf. Markmið:

1. Að leita eftir samvinnu við einhvern framhaldsskóla í Reykjavík með það að markmiði að setja þar upp tilraunanámsbraut fyrir nemendur með skerta námshæfni.

2. Að vinna að gerð námsskrár fyrir námið.“ Um framkvæmdina segir: „Ellefu nemendur hófu nám við Iðnskólann í Reykjavík á vorönn 1986. Nemendurnir stunduðu þrenns konar verklegt nám, málmiðnað, tréiðnað og bókband, einnig bóklegt nám. Þessir nemendur luku námi í maí 1987 að afloknum þrem önnum. Nemendur fengu þá afhent lokaskírteini þar sem fram kemur að þeir hafi lokið þriggja anna starfsnámi við Iðnskólann í Reykjavík tengdu ákveðinni iðngrein, að námið skiptist í bóklegt nám og verklegt og að námið veiti ekki sérstök starfsréttindi. Sérkennari frá Öskjuhliðarskóla hefur annast alla skipulagningu og umsjón með kennslu við námsbrautina. Í því hefur falist að annast bóklega kennslu og vera þeim fagkennurum Iðnskólans til ráðgjafar sem annast hafa verklegu kennsluna. Jafnframt hefur það verið hlutverk þessa kennara að sjá um skýrslugerð vegna kennslunnar og hafa m.a. verið unnar ítarlegar skýrslur um kennsluna á hverri önn fyrir sig. Í skýrslunni hefur verið að finna lýsingar á daglegum rekstri, vali námssviða, viðhorfi nemenda og kennara og tengslum námsins við atvinnulífið og síðast en ekki síst höfum við reynt að leggja mat á hvernig til hefur tekist.“

Um námsskrána segir: „Samhliða sjálfri kennslunni hefur verið unnið að gerð námsskrár fyrir nám af þessum toga. Námsskrárvinnan hefur farið fram í samvinnu við skólaþróunardeild menntmrn. og var lokið við drög að slíkri námsskrá vorið 1987 og hún send ýmsum aðilum til umsagnar. Við gerð námsskrárinnar hefur verið miðað við að námsbrautir í líkingu við tilraunanámsbrautina við Iðnskólann yrðu settar á stofn við ýmsa framhaldsskóla og byðu upp á fjölbreytilegra nám en hægt hefði verið að bjóða upp á í þessari litlu tilraun.

Í námsskránni er námið skilgreint og það nefnt starfsnám. Fram kemur m.a. að náminu er ekki ætlað að veita tiltekin réttindi til starfa heldur stuðla að betri samkeppnisaðstöðu nemandans á almennum vinnumarkaði, veita nemandanum betri sjálfsmynd og auka sjálfstraust hans í starfi og leik. Markmið námsins eru sett fram í tvennu lagi: Annars vegar þau markmið sem unnið er að meira eða minna á öllum önnum námsins. Hins vegar þau markmið sem hafa megináherslu á tiltekinni önn.“

Að lokum er kafli um tengsl námsins við atvinnulífið. Þar kemur fram að námið á að vera markviss undirbúningur undir þátttöku nemenda í atvinnulífinu. Sá undirbúningur fæst m.a. með vettvangsfræðslu sem eykst stig af stigi með hámarki á 3. og síðustu önn námsins.

Og um framhald verkefnisins segir: „Nú í haust hóf nýr hópur starfsnám við Iðnskólann í Reykjavík í málm- og tréiðnaðardeildum skólans og er ætlunin að þeir nemendur útskrifist um áramótin 1988/1989. Vegna sérstakra óska frá hópi umsækjenda um starfsnám haustið 1987 um að boðið yrði upp á saumanám fóru fram viðræður við stjórnendur tveggja fjölbrautaskóla í Reykjavík og leit út fyrir á tímabili að slíkt nám færi af stað við Fjölbrautaskólann í Breiðholti á vorönn 1988. Á síðustu stundu kom þó í ljós að af því gat ekki orðið þar vegna húsnæðiseklu skólans. Í staðinn tókst áframhaldandi samvinna við stjórnendur Iðnskólans í Reykjavík og mun því hópur byrja í saumanámi við Iðnskólann á vorönn 1988 og miðað við þriggja anna nám munu þeir nemendur því ljúka námi vorið 1989.“

Um framtíðarhorfur segir, og ég held að það verði einmitt mjög mikilvægt fyrir okkur, ef við samþykkjum frv. þar sem gert er ráð fyrir að þessir nemendur eigi fulla aðild að skólunum, að tryggja framtíð þeirra. Það verður að taka þessum nemendum af heilum hug inn í skólana, ekki að hafa þetta dauðan lagabókstaf á pappír. Um framtíðarhorfurnar segir, með leyfi forseta:

„Reynslan af tilraunakennslunni hefur verið mjög jákvæð. Bæði nemendur og kennarar hafa verið mjög ánægðir með þann námslega árangur sem hefur náðst. Viðhorf kennara og annarra nemenda Iðnskólans til starfsnámsbrautarinnar hafa einnig reynst vera jákvæð. Þeir nemendur sem útskrifuðust sl. vor hafa allir fengið vinnu að því er best er vitað. Einn er að vinna á vernduðum vinnustað, en hinir hafa allir fengið vinnu á almennum vinnumarkaði. Nokkrir nemendanna vinna við aðstoðarstörf í þeim iðngreinum sem þeir hlutu þjálfun í, en aðrir vinna við önnur aðstoðarstörf.

Þrátt fyrir að enn hafi ekki verið samþykkt nein heildarlög um framhaldsskóla á Alþingi, sem veitt gætu öllum unglingum rétt til framhaldsnáms við sitt hæfi, má segja að bjartsýni ríki varðandi framhald einhvers tilboðs fyrir nemendur með skerta námshæfni. Þannig er ríkjandi jákvætt viðhorf í menntmrn. til framhalds þessa verkefnis í einhverri mynd án tilraunastimpils og námsskráin er samin með það í huga að nýtast í framhaldsskólum almennt og með fjölbreyttara námstilboði en nú er um að ræða. Það er því ósk og von aðstandenda þessa verkefnis að námstilboð af þessum toga sé komið til þess að vera innan íslenska framhaldsskólans og sú vinna sem fram hefur farið undanfarin tæp þrjú ár í tengslum við verkefnið muni nýtast við framhald einhvers starfsnámstilboðs fyrir nemendur sem standast ekki þær kröfur sem nú eru gerðar í hefðbundnu framhaldsnámi. Hugmyndir að uppbyggingu námsbrautarinnar hafa verið sóttar víðs vegar að og má þar t.d. nefna Bretland og Norðurlöndin. Einnig er skylt að nefna að þær skoðunarferðir sem farnar hafa verið innan ramma norræna þróunarverkefnisins svo og heimsóknir norrænna starfsbræðra hingað til lands hafa m.a. stuðlað að því að gengið hefur verið ákveðnar til verks og ýmsir byrjunarörðugleikar auðveldlega yfirunnir.“

Þetta er undirritað af Fjölni Ásbjörnssyni í desember 1987.

Sá sami Fjölnir Ásbjörnsson hefur hins vegar af því töluverðar áhyggjur hvernig málum þessara nemenda verður komið fyrir miðað við það framhaldsskólafrv. sem við höfum til umfjöllunar og hann gerir fornámið sérstaklega að umræðuefni í grein, sem hann skrifar í Morgunblaðið í þessari viku. Þar segir, með leyfi forseta:

„Við nokkra framhaldsskóla hafa verið settir á stofn svokallaðir núlláfangar eða öðru nafni fornám. Í núlláföngum eða fornámi gefst nemendum sem ekki hafa náð tilskilinni viðmiðunareinkunn í samræmdum greinum 9. bekkjar kostur á að fá tilsögn í 9. bekkjar námsefni viðkomandi greina. Hér er því um undirbúning að meira námi að ræða.

Hluti þeirra nemenda sem byrja í fornámi standast það próf og hefja síðan nám í framhaldsskólum. En töluverðum hluta nemenda reynist fornámið ofviða. Vegna 18 ára reglunnar og þeirra sem hefja nám að afloknu fornámi eru ávallt heldur fleiri sem hefja nám á 1. ári í framhaldsskólum landsins en árlega ljúka 9. bekkjar prófum með framhaldseinkunn. Reynslan sýnir hins vegar að brottfall nemenda á fyrsta ári í framhaldsnámi er geigvænlega hátt.“

Og hann heldur áfram og segir: „Felst þó í þessu nýja frv. til framhaldsskólalaga engin stefnubreyting frá því sem verið hefur varðandi inntöku nemenda.“

Í 30. gr. frv. er fjallað um fatlaða nemendur og segir þar: „Á framhaldsskólastigi skal veita fötluðum nemendum kennslu og þjálfun við hæfi og sérstakan stuðning í námi. Í því skyni skal látin í té sérfræðileg aðstoð og nauðsynlegur aðbúnaður eftir því sem þörf krefur að mati menntmrn. Fatlaðir nemendur skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.“

Ekki var þetta mikið og engu er líkara en greinin sé skrifuð í andanum fæst orð bera minnsta ábyrgð.“ En ég vil skjóta því inn í að hér hefur verið kveðið nánar að orði í því frv. sem við höfum nú til umfjöllunar þó að ég telji það ekki alveg fullkomið eins og það er hér fram lagt.

Ég læt þessari tilvitnun minni lokið vegna þess að þessi grein var víst skrifuð fyrir allnokkru þó hún birtist í Morgunblaðinu svo seint sem raun ber vitni, en það var fyrst í þessari viku þegar breytt frv. með nánari skilgreiningu á orðinu „fatlaður“ lá fyrir hér. Í framhaldi af þessu vil ég leggja áherslu á möguleika fatlaðra nemenda til að stunda nám í framhaldsskólanum og reyndar benda á að þar sem um nemendur er að ræða sem eiga við hreyfifötlun að etja er nauðsynlegt að mæta þeirra fötlun með ýmsum framkvæmdum í skólunum og jafnvel utan við skólana því að aðgengi að mörgum byggingum er slíkt að það er ekki einu sinni hægt að komast yfir skólalóðirnar. Ég legg áherslu á að það verði tekið tillit til allra þeirra þarfa um leið og þeir koma inn í skólann.

En ég vildi aðeins spyrja hæstv. menntmrh., ef ég næ eyrum hans nú, varðandi það sem ég hef sagt um fatlaða nemendur. Hér á öðrum stað er talað um kennslustundafjölda við framhaldsskóla. Í 34. gr. er falinn upp sá kennslustundafjöldi sem talinn er nauðsynlegur til að geta rekið skóla. Þar er miðað við grunntöluna 1,7–2 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi. Nú kom það fram í umsögnum og heimsóknum gesta til menntamálanefnda beggja deilda að margir skólastjórar minni skólanna höfðu af þessu nokkrar áhyggjur. Ég vil þá spyrja hæstv. menntmrh. hvort þessi viðmiðun sé talin nægja þegar við bætast þeir fötluðu nemendur sem koma inn í skólana, hvort þessi stundafjöldi muni nægja? Það er fyrirsjáanlegt að ef það á að standa að þessu af þeim myndarbrag sem við getum ekki annað en gert þarf að sjá til þess að innan framhaldsskólanna fari fram sérkennsla og til þess þarf væntanlega aukinn kennslustundafjölda.

Það er annað sem ég vildi líka minnast á. Það er varðandi námsráðgjöf. Það kom fram í þeirri grein sem ég vitnaði til áðan að það er gífurlega hátt hlutfall nemenda sem hættir námi á fyrsta ári. Ég tel mjög nauðsynlegt og brýnt að efla námsráðgjöf við alla framhaldsskólana til að koma í veg fyrir þetta, reyna að hjálpa nemendum áfram. Hér segir í 12. gr. að heimilt sé að fela ráðgjafar- og sálfræðiþjónustu grunnskóla að annast hliðstæða starfsemi fyrir framhaldsskólann. Ég vil því spyrja hæstv. menntmrh. hvort ekki sé áætlað að þörf sé fyrir heilar stöður námsráðgjafa við framhaldsskólana. Það hefur komið fram í umsögnum Félags ísl. námsráðgjafa að þeir gera ráð fyrir því að til að sinna 300 manna skóla þurfi einn námsráðgjafa og held ég að sé mjög raunhæf tala að miða við. En mér finnst þetta nokkuð veikt orðað hér vegna þess að ég veit að námsráðgjöf hefur hjálpað mörgum nemendum áfram í náminu. Störf námsráðgjafanna eru mjög fjölbreytileg. Þeir fjalla bæði um vandamál nemenda sem tengjast náminu svo og persónuleg og félagsleg vandamál þannig að ég tel að það sé full þörf á að kveða þarna fastar að orði.

Ég fer fram og til baka í frv. Þetta er kannski ekki mjög skipulega fram sett hjá mér. En ég vil fagna sérstaklega 15. gr. um heilsuvernd í framhaldsskólunum. Ég held að sé mjög til bóta að það verði komið einhverju skipulagi þar á. Það er undir hælinn lagt hvernig henni er sinnt um þessar mundir. Þá vil ég sérstaklega leggja áherslu á upplýsingar og fræðslu við nemendur og forvarnarstarfsemi af ýmsu tagi og jafnframt benda á að það háttar svo til við allmarga framhaldsskóla að þar eru ekki einu sinni aðstæður til leikfimikennslu. Það er vonandi eitt af því sem við tökum í röð svokallaðra forgangsverkefna á næstunni að leggja megináherslu á forvarnarstarfið og þá ekki síst með því að ala nemendurna upp í heilbrigðum lífsháttum.

Ég vil síðan víkja lítillega að 33. gr. þar sem talað er um heimavistir. Ég fagna þeirri breytingu, sem gerð var á varðandi byggingu heimavistarhúsnæðis, að ríkissjóður greiði þær. Það hefur valdið nokkrum erfiðleikum þar sem mörg sveitarfélög eiga að koma sér saman eða þá bæjarfélag þar sem skóli er staðsettur að taka ákvörðun um byggingu heimavistar. Ég legg áherslu á og minni á tillögu sem ég flutti ásamt fleiri hv. þm. Kvennalista, Alþb. og Borgarafl. fyrir jólin varðandi mötuneyti heimavistarnemenda og mötuneyti nemenda við framhaldsskólana almennt. Ég held að það sé mjög brýnt að við reynum að jafna aðstöðu barna þessa lands til náms. Það er mikill baggi á heimilum að senda börnin, unglingana á heimavistarskóla. Það eru reyndar ekki öll bæjarfélög svo heppin að geta boðið upp á heimavist og sennilega er höfuðborgin sjálf einna verst stödd í þeim efnum og nemendur sem þurfa að sækja til Reykjavíkur þurfa að greiða himinháa húsaleigu eins og við þekkjum öll. En varðandi mötuneytin vil ég minna á tillögu sem ég flutti um að launakostnaður við mötuneytin verði greiddur úr ríkissjóði eins og gildir um t.d. aðra starfsmenn í skólanum. Mér finnst að það megi í raun og veru líta á nemendur sem starfsmenn skólans meðan þeir eru þar. Ég legg áherslu á að þetta er atriði sem ég tel að þurfi að breyta alveg afdráttarlaust. Það kom fram hér í vetur sem svar við fsp. Sturlu Böðvarssonar, hv. varaþm. á Vesturlandi, að raungildi dreifbýlisstyrks til nemenda, sem var ætlað til þess að jafna aðstöðumun þeirra, er orðið harla lítið miðað við það sem upphaflega var. Ég tel nauðsynlegt að það verði lögð áhersla á að finna leiðir til að jafna í raun þennan aðstöðumun sem er fjárhagslega milli nemenda til náms vegna búsetu. Þess vegna minni ég á bæði dreifbýlisstyrkinn og mötuneytin. Ég tel að launakostnaður við þau sé ekki þungur baggi fyrir ríkissjóð að bera.

En ég ætla aðeins að spyrja að lokum. Nú er mér kunnugt um að það hefur verið efnt til aukins samstarfs af hálfu menntmrn. við faggreinafélög kennara og fagna ég því. Mig langar til að spyrja hæstv. menntmrh. hvort í reglugerðum verði ákvæði um faggreinakennara og þeirra þátt t.d. í námsskrárgerð. Við vorum að fjalla um frv. um Kennaraháskóla Íslands um daginn og fyrst ég minnist á faggreinafélög get ég ekki stillt mig um að segja við 1. umr. núna að ég vildi óska þess að við hefðum frv. fyrir framan okkur um framhaldsskólann af sömu gæðum og frv. um Kennaraháskóla Íslands. Eins og ég hef sagt fyrr í máli mínu finnst mér fagleg sjónarmið vera fyrir borð borin og tel að það þurfi að koma því inn á einhvern hátt að það skíni af þessu frv. einhvers konar menntastefna.

En ég ætla aðeins að ítreka það aftur, sem ég sagði og sem hv. þingkona Þórhildur Þorleifsdóttir sagði líka er hún flutti brtt. í Nd. í síðustu viku, að Kvennalistinn vill draga úr áhrifum pólitískt kjörinna fulltrúa, en auka að sama skapi áhrif skólafólks um mótun skólastarfsins. Við teljum það ekki vera valddreifingu að koma mótun skólastarfsins í hendurnar á fimm pólitískt kjörnum fulltrúum því að það er alltaf spurning hvernig og hverjir rata í þær pólitísku stöður.

En ég vil samt sem áður leggja áherslu á að ég styð það að framhaldsskólafrv. verði samþykkt sem fyrst, það liggur á því, einhver rammalöggjöf, en mun flytja brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir við 2. umr. málsins.