09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

Fundardagar og dagskrá

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Fyrst farið er að ræða um aðstöðu þm. undir liðnum þingsköp taldi ég rétt að koma upp og nefna smámál sem ég hef nefnt hér í nokkur ár í sambandi við starfsaðstöðu þm. Ég hef beðið um að á skrifstofu mína í þinginu fengi ég síma svo hægt væri að ná í mig og hafa samband við mig á öðrum tímum en skrifstofutímum Alþingis. Því miður hefur þetta ekki gengið enn og ég vildi spyrja hæstv. forseta hvort von sé til þess að úr þessu verði bætt eftir að búið er að gera svo vel við okkur í hv. sölum, bæði Sþ. og beggja deilda, sem raun ber vitni um. Ég hef jafnframt frétt að nú sé í undirbúningi að aðstoða menn við bílasíma, veita þeim ýmsa þjónustu í sambandi við það. Ég tel það af hinu góða. En ég vænti þess að úr hinu litla atriði sem ég hef beðið um undanfarin ár verði bætt hið bráðasta. Sú aðstaða að menn geti haft venjulega símaþjónustu á hvaða tíma sólarhringsins sem er í skrifstofum sínum hlýtur að vera lágmarkskrafa hvers alþm.