26.04.1988
Neðri deild: 80. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6839 í B-deild Alþingistíðinda. (4768)

435. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 880 liggur fyrir nál. fjh.- og viðskn. þar sem lagt er til að frv. verði samþykkt eins og það liggur fyrir á þskj. 785. Þetta frv. felur í sér að óráðstafaður persónuafsláttur skuli nýtast til greiðslu eignarskatts manna á gjaldárinu 1988 ef hann er ekki hærri en 38 021 kr.

Þegar fyrirframgreiðsla á árinu 1988 var ákveðin í byrjun þessa árs og í ljós kom að ýmsir aðilar fengju fyrirframálagningu vegna eignarskatts sem ekki höfðu greitt eignarskatt áður, m.a. ellilífeyrisþegar, var ákvæði þetta tekið til athugunar. Ástæðan fyrir þessu er sú að hjá þeim sem hafa verið undir skattleysismörkum hefur persónuafsláttur gengið til greiðslu á eignarskatti á árum áður.

Í frv. þessu er gert ráð fyrir því að hluti af ónýttum persónuafslætti skuli nýtast til greiðslu eignarskatts manna á árinu 1988. Er við það miðað að sú fjárhæð verði ekki hærri en kr. 38 021 kr. Þetta hefur það í för með sér að þeir sem nýta alla þessa upphæð til greiðslu eignarskatts borga ekki eignarskatt af hreinni eign sem nemur allt að 6 millj. kr. hjá einstaklingi og tvöfaldri þeirri upphæð hjá hjónum. Hins vegar er ljóst að þessi breyting hefur það ekki í för með sér að slíkt hið sama gildi á næsta ári og verður því að taka það mál til sérstakrar athugunar áður en kemur til álagningar á árinu 1989.

Þess ber að geta að enginn ágreiningur var í fjh.og viðskn. um þetta mál og því er einnig samþykkur fulltrúi Borgaraflokksins sem situr fundi nefndarinnar, Ingi Björn Albertsson.