28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6899 í B-deild Alþingistíðinda. (4847)

406. mál, kaupskipaeign Íslendinga

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Svar við 1. spurningu: Kaupskipastóllinn á vegum íslenskra útgerða í dag telur 45 skip, þar af 32 skip undir íslenskum fána en sjö skip á þurrleigu hjá íslenskum útgerðarmönnum mönnuð íslenskum áhöfnum. Íslenskar útgerðir eiga tvö skip sem eru skráð undir erlendum fánum og fjögur erlend skip eru í langtímaleiguverkefnum hjá íslenskum útgerðum.

Íslenski skipastóllinn hefur lítillega dregist saman á síðustu árum, en helstu ástæður þess eru þær að skipin eru nú stærri og afkastameiri, rekstur þeirra betur skipulagður og afköst við lestun og losun hraðari. Skipastóllinn flytur því umtalsvert meira vörumagn nú en hann gerði fyrir nokkrum árum þrátt fyrir fækkun skipanna. Þetta er sama þróun og orðið hefur í mörgum nágrannalöndum okkar, en breytingin hér á landi er þó mun minni og hefur íslenskum útgerðum tekist bærilega að komast í gegnum þá erfiðleikatíma sem einkennt hafa útgerð um allan heim undanfarin 5–7 ár. Með fækkun og stækkun skipa, hraðari lestun og losun og með aðhaldi í rekstri hefur tekist að auka afköst verulega og lækka flutningskostnað. Hefur íslenskum útgerðum þannig tekist að halda samkeppnisstöðu sinni.

Svar við 2. spurningu: Eins og ég sagði áðan hafa íslenskar skipaútgerðir nú sjö skip á „þurrleigu“ sem kallað er með íslenskum áhöfnum, fjögur skip í áætlanasiglingum til og frá landinu með erlendum áhöfnum. Kaupskipaútgerðir hafa notfært sér ástandið á leigumarkaðnum eftir mætti, en til að tryggja atvinnu sjómanna hefur leiga skipa aukist. Þurrleiga þýðir einfaldlega að útgerðin leigir skipið eingöngu sem tæki en ber allan kostnað og ábyrgð á mönnun þess og rekstri. Því eru fyrrnefnd sjö þurrleiguskip mönnuð íslenskum áhöfnum þótt þau sigli undir erlendum skráningarfánum.

Vaxandi fjöldi þurrleiguskipa hefur því takmarkað erlendar lántökur og fjárhagsskuldbindingar útgerðanna án þess að atvinnuöryggi sjómannanna sé ógnað. Einnig skapar þetta útgerðarmönnum meira svigrúm til tíðari breytinga á skipakosti eins og aðstæður hvers tíma kalla á. Það er ekki síst þurrleiguformið sem hefur gert íslenskum útgerðum kleift að aðlaga skipastól sinn að nútímaflutningatækni. Í öllum tilfellum hérlendis hafa útgerðirnar samhliða þurrleigu tryggt sér forkaupsrétt á föstu verði ef markaður fyrir skip færi hækkandi.

Af þeim fjórum skipum sem eru í áætlanasiglingum til og frá landinu eru þrjú á vegum Eimskips og eitt á vegum skipadeildar Sambands ísl. samvinnufélaga. Breyting mun verða á þessu hjá Eimskip í október á þessu ári þegar tvö ný skip bætast í flotann og mun þá leiguskipum fækka a.m.k. niður í tvö. Eitt skip er í millilandasiglingum á vegum skipadeildar SÍS með erlendri áhöfn og auk þess eitt færeyskt skip í strandsiglingum, einnig með erlendri áhöfn.

Svar við 3. spurningu: Til að afla þessara upplýsinga þarf að safna gögnum frá einstökum útgerðum. Varðandi þurrleiguskipin hefur þetta takmarkaða þýðingu því þurrleigan er í raun sambærileg við afborganir og vexti af skipum sem fyrirtækin ættu. Sú leiga er því í raun fjármagnskostnaður sem hefur ekkert gildi í þessu sambandi. Þótt þessi þurrleiguskip væru í eigu Íslendinga væri verið að greiða afborganir af erlendum lánum og vexti í stað leigu. Varðandi tímaleiguskip liggja ekki fyrir upplýsingar um slíkt þar sem skipin eru tekin á leigu af ýmsum aðilum, bæði farmflytjendum, skipamiðlurum og skipafélögum.

Svar við 4. spurningu: Íslenskum farmönnum hefur fækkað, en ekki liggja fyrir nákvæmar tölur í því sambandi. Í dag starfa um 660 farmenn á íslenska kaupskipaflotanum og 70 útlendingar á þeim tímaleiguskipum sem fyrirtækin eru með í rekstri.

Svar við 5. spurningu: Stjórnvöld hafa ekki gripið til sérstakra ráðstafana í þessu sambandi. Þau hafa þó beint þeim tilmælum til skipaútgerða að takmarka töku leiguskipa eftir mætti, auk þess sem fagfélög farmanna hafa verið í viðræðum við skipafélögin um þessi mál.

Í raun hefur ekki orðið vart atvinnumissis vegna erlendra leiguskipa og möguleikar stjórnvalda eru litlir í þessum efnum ef menn vilja á annað borð hafa siglingar frjálsar til og frá landinu eins og er hjá öðrum Vestur-Evrópuþjóðum. Skipafélögin hafa sýnt skilning í þessu efni og telja verður að ástandið á þessu sviði sé viðunandi um þessar mundir.

Að lokum vil ég segja að það er ánægjulegt hversu takmörkuð áhrif hinir miklu erfiðleikar í alþjóðlegri skipaútgerð hafa haft hér á landi. Það er hins vegar engin trygging fyrir óbreyttu ástandi í því efni og því munu stjórnvöld kappkosta að fylgjast náið með öllum breytingum sem verða á þessu sviði svo að yfir okkur dynji ekki sömu erfiðleikar í kaupskipaútgerð og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa þurft að stríða við.