28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6911 í B-deild Alþingistíðinda. (4866)

411. mál, listskreyting Hallgrímskirkju

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi, 13. þm. Reykv., spurði hvað valdið hefði drætti á skipun nefndar um listskreytingu Hallgrímskirkju. Ég minni á að skv. þál. skyldi nefndin skipuð sjö mönnum, formanni skipuðum af ráðherra, en tilgreindum aðilum ætlað að nefna hina sex. Tilnefningar aðilanna sex bárust ráðuneytinu reyndar ekki eins fljótt og skyldi, sú síðasta víst í nóvember 1986, og svo reyndist það erfiðleikum bundið að fá mann til að gefa kost á sér til að vera formaður í nefndinni. Þetta er aðalskýringin á því að nefndarskipunin dróst um tæpt ár.

Síðan var spurt hvers vegna áætluninni um verklok hafi ekki verið breytt með tilliti til þess hversu seint nefndin var skipuð. Um það mál vil ég segja að nefndarstörfin gengu vel og í lok sl. árs var þar komið störfum nefndarinnar að fyrir lá bæði kostnaðar- og framkvæmdaáætlun um fyrsta verkþáttinn sem fjallar um skreytingu anddyris kirkjunnar, um lágmynd og glugga á framhlið kirkjunnar eða á vesturhliðinni. Ég vil taka fram að nefndin telur eðlilegt að listskreytingunni verði skipt í fimm þætti, á framhlið, kór, forkirkju, kirkjuskipi og svo umhverfi kirkjunnar.

Ég taldi rétt og lagði reyndar fyrir nefndina að hún skilaði af sér á tilsettum tíma í samræmi við þál. til þess að þingmönnum gæfist sem fyrst kostur á að kynna sér þessa niðurstöðu nefndarinnar og jafnframt væru þá meiri líkur á að framkvæmdir við listskreytinguna gætu hafist. Skýrsla nefndarinnar var svo send þinginu.

Varðandi það hverjar fyrirætlanir ég hafi um framhald verksins, þá langar mig að segja þetta: Fyrsti þátturinn í þessari kostnaðar- og framkvæmdaáætlun, sem nefndin hefur samið, er í reynd tvískiptur: Annars vegar skreyting dyra og gerð lágmyndar, hins vegar glugginn. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári og ljúki á því næsta. Í samræmi við tillögur nefndarinnar hef ég ákveðið að skipa dómnefndir og efna til lokaðrar samkeppni um skreytingu að þessu leyti. Ég mun reyna að fylgja þeirri áætlun sem nefndin samdi, en auðvitað hlýtur það að ráðast af fjárveitingum sem heimilaðar verða hverju sinni og ég minni líka á að þessi nefndarskipan og þessi þál. er dálítið óvenjuleg að því leyti að þarna tekur þingið sér fyrir hendur að skipa nefnd til að fjalla um skreytingu guðshúss sem ekki er í eigu ríkisins heldur safnaðarins í Hallgrímskirkjusókn.

Ég ætla svo að lokum að geta þess að ég hef á þessum grundvelli og í samráði við forsvarsmenn kirkjunnar ákveðið að skipa nýja nefnd til að móta endanlega kostnaðar- og verkáætlun þeirra fjögurra þátta sem fyrri nefnd gafst ekki alveg tóm til að ljúka. Ég tel það hentugra af fyrirkomulagsástæðum. Ég bind vonir við að nýstofnaður Jöfnunarsjóður sókna, en Alþingi setti lög um þá stofnun í desember sl., geti lagt fé til Hallgrímskirkju, m.a. til listskreytingar, enda hefur þessi sjóður lögunum samkvæmt sérstakar skyldur við landskirkjur eins og Hallgrímskirkja svo sannarlega má teljast.

Ég vildi að endingu minna á það að bygging slíkra stórkirkna sem Hallgrímskirkja er hefur oft og tíðum víða um lönd tekið áratugi og jafnvel miklu lengri tíma.