28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6919 í B-deild Alþingistíðinda. (4876)

495. mál, förgun hættulegs efnaúrgangs

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Á síðustu árum hefur notkun ýmissa hættulegra efna aukist mikið og ný efni komið fram. Nú orðið er tiltölulega mikið vitað hvaða áhrif þessi efni geta haft og hvernig er best að komast hjá því að þau valdi skaða. Sú vitneskja er þó aðeins í höndum fárra, en það getur verið lífsspursmál að reglur um hættuleg efni og eiturefni séu ítarlegar og ljósar hverjum þeim sem þau meðhöndlar. Hættulegust eru þau efni sem leysast upp í fitu en ekki vatni. Sem dæmi má nefna svokölluð lífræn leysiefni, en þau eru notuð í ríkum mæli hér í lakki, málningu, lími, plastefnum, ryðvarnarefnum o.fl. Annar efnahópur sem þennan eiginleika hefur eru „fjölklóruð bífenýl“ sem eru algeng m.a. í fiskvinnslustöðvum. Þegar efnin komast inn í líkamann brotna þau hægt niður eða alls ekki. Líkaminn getur ekki losnað við þau, þau eru komin inn í fæðukeðjuna, safnast fyrir í lífverum og getur styrkur þeirra orðið verulega hár þar sem þessi efni eru í umhverfinu.

Öll meðferð efna sem hér hefur verið lýst er því mjög vandasöm. Hvergi má vera brotalöm hvað varðar flutning, alla meðferð, geymslu, notkun og ekki síst förgun allra hættulegra efna.

Ég hef því leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. heilbrmrh. sem er á þskj. 855:

„1. Hvaða reglur eru nú í gildi hér á landi um förgun hættulegs efnaúrgangs?

2. Hver sér um kynningu á þeim reglum sem í gildi eru?

3. Hvernig er háttað eftirliti með því að eftir reglunum sé farið?

4. Hvar eru helstu förgunarstaðir fyrir hættulegan efnaúrgang?"