28.04.1988
Sameinað þing: 72. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6934 í B-deild Alþingistíðinda. (4895)

488. mál, ritskoðun á fréttastofu sjónvarps

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Fsp. sem hér liggur fyrir og hæstv. menntmrh. hefur svarað er ekki að tilefnislausu. Sú staðhæfing Tímans, sem ekki hefur verið dregin til baka af blaðinu, um að fréttir er snerta stjórnmál séu ritskoðaðar er mjög alvarleg og væri a.m.k. fróðlegt að kanna hvernig fréttaflutningur er af þessu og full ástæða til að skoða það með því að skipa nefnd til þess.

Það er náttúrlega mjög alvarlegt og umhugsunarefni þegar slíkar fréttir berast. Hitt málið, sem vekur líka umhugsun, er það að mikilvægt er að Ríkissjónvarpinu gangi vel og það sé einhugur meðal starfsfólks um að vinna saman að framgangi Ríkissjónvarpsins í einu og öllu. Það hefur komið í ljós nýlega að fréttastjórinn var rekinn og þau mál benda til þess að þessar fregnir séu ekki alveg úr lausu lofti gripnar. Ég ítreka að ég tel að menntmrh. eigi að kanna þetta betur.