28.04.1988
Sameinað þing: 73. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 6950 í B-deild Alþingistíðinda. (4916)

505. mál, vantraust á ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar

Forsætisráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Fyrir skömmu átti ég þess kost að vera á fundi í Búðardal til þess að ræða við fólkið í því byggðarlagi um þann vanda sem nú steðjar að byggðum landsins og ekki síst Dölunum sem þurfa að mæta sérstökum erfiðleikum vegna einhæfs atvinnulífs. Þar voru haldnar margar ræður og það var dregin nokkuð sönn mynd af dökku ástandi í atvinnumálum. Undir lok fundarins stóð upp kona og sagði að allt sem sagt hefði verið og dregið fram væri satt og rétt, en það væri nauðsynlegt til þess að myndin væri í heild sinni rétt að benda á að í Dölum hefði nýlega verið reist nýtt og glæsilegt stjórnsýsluhús, að í Dölum væri góð heilsugæsla, að þar væri áformað að hefjast handa við nýjar framkvæmdir í íþróttamálum til þess að búa æsku byggðarlagsins betri skilyrði til íþróttaiðkana, að samgöngumálum miðaði fram og ný stór áform í þeim efnum væru í vændum.

Ég fór með betri og meiri trú á möguleika þessa byggðarlags að vinna sig út úr örðugleikunum vegna þessarar ræðu. Og hvernig skyldi það vera í okkar þjóðfélagi? Ætli þeir séu best til þess fallnir að leiða þjóðina út úr erfiðleikum sem einungis sjá það sem úrskeiðis gengur, sem einungis draga upp hinar dökku myndir, sem hafa það eitt fram að færa að reyna að ala á sundurlyndi og úlfúð og skipta þjóðinni upp í stríðandi hópa, eða hinir sem hafa víðsýni til þess að horfa og meta það sem úrskeiðis hefur gengið, það sem hefur orðið að áfalli fyrir þjóðina, en skýra um leið frá því sem áunnist hefur og til heilla horfir og nota það sem viðspyrnu til átaka við vandamálin?

Ég held að svarið sé augljóst. En það kom skýrt fram í ræðu málshefjanda fyrir þeirri vantrauststillögu sem hér er á dagskrá að það eina sem hann sér og þeir sem að baki þeirri tillögu standa er það sem úrskeiðis hefur gengið og sú freisting að reyna að ala á sundrungu og úlfúð meðal þjóðarinnar. Hitt held ég að sé sanni nær að við þurfum nú að stilla saman kraftana. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þeim áföllum sem við höfum orðið fyrir. En við skulum viðurkenna að við erum um margt í góðri stöðu til að takast á við þau.

Lítum svolítið á rökstuðninginn fyrir þeirri vantrauststillögu sem hér hefur verið borin fram. Í fyrsta lagi er talað um versnandi kjör og launamisrétti. Sannleikurinn er sá að á undanförnum árum hefur kaupmáttur aukist meira á Íslandi en nokkru sinni fyrr, aukist meir en í nokkru öðru landi í kringum okkur. Við höfum á undanförnum árum unnið okkur fram þannig að laun eru nú stærri hlutdeild í þjóðartekjum en annars staðar á Norðurlöndum og til skamms tíma hefur launadreifing verið svipuð hér og þar. En ég deili áhyggjum með þeim, sem sannarlega eru réttar, að í rótleysi góðærisins hefur á hallað í þessu efni og launamismunur vaxið. Þessu hafa stjórnvöld reynt að mæta af sinni hálfu með stórauknum tryggingabótum, stórauknum barnabótum og verulegri hækkun skattleysismarka. Það er talað um að það sé rökstuðningur fyrir vantrausti á ríkisstjórnina að kaupmáttur hafi minnkað. Þjóðartekjurnar hafa minnkað. Kaupmáttur útflutningstekna þjóðarbúsins er að minnka á þessu ári. Við slíkar aðstæður rýrnar kaupmáttur launafólksins í landinu, fjárfestingin minnkar og einkaneyslan minnkar, eyðslan minnkar. Þetta sýnir að okkur hefur tekist að laga efnahagsaðstæðurnar að breyttum ytri aðstæðum. Ef kaupmátturinn væri að vaxa með minnkandi þjóðartekjum og rýrnandi kaupmætti útflutningstekna, ef fjárfestingin væri að aukast við þessar aðstæður og einkaneyslan að aukast hefði efnahagsstefnan mistekist. Þá væri ástæða til þess að bera fram vantraust. En staðreyndirnar í þessu máli sýna að það hefur tekist að laga efnahagslífið að breyttum ytri aðstæðum. Það kann að vera erfitt þegar á móti blæs og það kann að taka á, en það er nauðsynlegt að gera það við þessar aðstæður og hver ábyrg ríkisstjórn verður að hafa þor og kjark til þess.

Það er talað um það í rökstuðningi fyrir tillögunni að það sé ástæða fyrir vantrausti á ríkisstjórnina að nú séu verkföll. Sannarlega stendur nú alvarlegt verkfall verslunarmanna. En meginhluti kjaradeilnanna, langstærsti hluti verkalýðsfélaganna í landinu hefur á undanförnum vikum og mánuðum leyst sín dellumál við atvinnurekendur án verkfalla. Þessi fullyrðing stenst því ekki heldur.

Það er talað um viðskiptahalla og skuldasöfnun, en lítum á tillögur og málflutning stjórnarandstöðunnar í vetur. Hver hefur hann verið? Þeir lögðu fram tillögur um það við fjárlagaafgreiðsluna að afgreiða fjárlög á þessu ári með halla. Niðurstaðan: auknar erlendar lántökur. Þeir hafa viljað brjóta niður þá stefnu sem leitt hefur til aukins sparnaðar í þjóðfélaginu. Afleiðingin: auknar erlendar lántökur. Og það á að skilja orð þeirra svo að það eigi að auka kaupmáttinn í landinu í heild þegar kaupmáttur útflutningsteknanna minnkar. Það verður ekki gert nema með auknum erlendum lántökum.

Niðurstaðan af öllum þessum málflutningi er sú að ef við hefðum farið að ráðum stjórnarandstöðunnar værum við hér í mjög vaxandi skuldasöfnun, stórauknum erlendum lánum, vaxandi verðbólgu og óáran og ringulreið í efnahagslífinu. Ef við hefðum farið að tillögum stjórnarandstöðunnar væri ástæða til þess að flytja vantraust á ríkisstjórnina. En það er ekki ástæða til þess vegna þess að við höfum ekki orðið við þeim kröfum. Það hafa verið farnar aðrar leiðir.

Við settum okkur það markmið, sem mynduðum þessa ríkisstjórn í fyrrasumar, að gera aðgerðir til þess að ná niður vaxandi verðbólgu, sem þá var augljós, draga úr þenslu og stuðla að auknum jöfnuði. Þetta var gert með margvíslegum ráðstöfunum, ráðstöfunum sem leiddu til þess að við náðum jöfnuði í ríkisfjármálum á þessu ári, hættum að taka erlend lán til ríkissjóðs, settum skatta á erlendar lántökur fyrirtækja og einkaaðila, gerðum kröfur til kaupleigufyrirtækja um að þau fjármögnuðu starfsemi sína í ákveðnum hlutföllum innan lands en ekki alfarið utan lands. Árangurinn: minni þensla, minni fjárfesting, verðbólgan, sem var milli 25 og 30% á þremur síðustu mánuðum fyrra árs, er komin niður í 13–14% á þremur síðustu mánuðum. Þetta er árangur af markvissum aðhaldsaðgerðum í efnahagsmálum.

Það var ljóst að nauðsynlegt var að mæta ekki einungis vaxandi þenslu og verðbólgu heldur afleiðingum þess á atvinnulífið í landinu, erlendum kostnaðarhækkunum, sem leiddu til hallareksturs útflutningsframleiðslunnar, og ytri áföllum. Þetta var gert í tengslum við kjarasamninga í lok febrúar með því að fella niður áformaða skatta á útflutningsframleiðsluna, bæði fiskvinnslu og iðnað, og með því að lækka gengi krónunnar hóflega. Með þessu var verið að mæta nauðsynlegum kröfum útflutningsframleiðslunnar um betri rekstrarskilyrði, en um leið að freista þess að viðhalda svo sem best mátti verða því kaupmáttarstigi sem atvinnurekendur, launþegar og stjórnvöld töldu unnt að gera við þær aðstæður sem þá voru. Menn reyndu að ná þeim markmiðum í senn að viðhalda þessu kaupmáttarstigi en treysta rekstrarskilyrði atvinnuveganna.

Síðan höfum við mætt nýjum áföllum. Verðlag á erlendum mörkuðum hefur verið að lækka stórlega að undanförnu frá því að þessar aðgerðir voru afráðnar í lok febrúar. Það setur okkur nú frammi fyrir nýjum vanda. Atvinnureksturinn, sérstaklega útflutningsframleiðsla og iðnaður, býr við rekstrarskilyrði sem ekki er unnt að þola til lengdar. Þess vegna er nú verið að undirbúa ráðstafanir til að taka á þessu verkefni, treysta stöðu útflutningsframleiðslunnar, jafna aðstöðumuninn milli þéttbýlis og dreifbýlis vegna þess að við vitum að ef útflutningsframleiðslan í hinum dreifðu byggðum hrynur hrynur líka þjónustan og verslunin í þéttbýlinu. Þetta verðum við að gera án þess að slaka á þeim aðhaldskröfum sem hafa leitt til þess árangurs sem við höfum náð í að draga úr verðbólgu. Þessu tvíþætta markmiði verðum við að ná og við gerum það ekki með því að slíta sundur friðinn í þessu þjóðfélagi. Við gerum það ekki með því að auka erlendar lántökur og draga úr aðhaldsaðgerðunum eins og stjórnarandstaðan hefur boðað. Við gerum það ekki með erlendri skuldasöfnun. Við gerum það ekki með því að ala á sundrungu og úlfúð heldur með því að stilla saman kraftana. Við þurfum að horfa lengra fram á við til nýrrar framtíðar, gera ráðstafanir til þess að íslenskt atvinnulíf geti lagað sig að nýjum aðstæðum og nýrri tækni sem er að halda innreið sína, laga íslenskt atvinnulíf að nýjum aðstæðum á erlendum mörkuðum til að byggja hér upp traust og öflugt atvinnulíf. Við eigum ekki að deila kröftum þessarar þjóðar, eins og stjórnarandstaðan leggur til, til þess að slást innbyrðis um minnkandi þjóðartekjur. Við eigum að sameina krafta og afl þessarar sterku þjóðar til þess að horfa fram á við, til þess að takast á við vandamál og ytri áföll, ná jafnvægi þannig að við getum haldið áfram að byggja upp, þannig að við getum stækkað þá köku sem er til skipta og þannig bætt lífskjör allrar alþýðu í þessu landi af því að við ætlum okkur, Íslendingar, að byggja hér upp sterkt og öflugt velferðarkerfi, hagsældarþjóðfélag, menningarþjóðfélag á Íslandi.

Þakka ykkur fyrir.

1