29.04.1988
Efri deild: 82. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7004 í B-deild Alþingistíðinda. (4946)

391. mál, Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála

Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Menntmn. þessarar hv. deildar hefur fjallað um frv. til l. um Kennaraháskóla Íslands og kynnt sér mikinn fjölda umsagna um málið og fengið á sinn fund fulltrúa bæði menntmrn., Kennaraháskólans og Háskóla Íslands, þau Gerði Óskarsdóttur, Ólaf Proppé, Sólrúnu Jensdóttur, Andra Ísaksson, Þórólf Þórlindsson og Jón Torfa Jónasson.

Hér er um að ræða endurskoðun á lögum um Kennaraháskóla Íslands sem raunar átti skv. ákvæði í gildandi lögum að vera búið að endurskoða fyrir margt löngu, en hefur dregist úr hömlu. Það er búið að leggja mjög mikla vinnu í samningu þessa frv. og endurskoðun laganna og hér er um að ræða eins konar rammalöggjöf um starfsemi Kennaraháskólans.

Það er rétt að það komi fram að þær raddir hafa heyrst að beinlínis væri með öllu óþarft að vera með kennaraháskóla heldur ætti öll starfsemi af þessu tagi að vera innan veggja Háskóla Íslands og þetta ætti að sameina. Það er sjálfsagt rétt að það eru til ýmis skynsemisrök sem mæla með því að svo verði gert, en hitt er jafnljóst að það gerist ekki í einni svipan eða einu vetfangi. Því er svo við að bæta að nú undanfarin ár hefur samvinna og samstarf milli Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands og þeirra starfsmanna þar sem sinna skyldum eða svipuðum verkefnum, einkum þó á sviði uppeldis- og kennslumála, farið mjög vaxandi. Sú skoðun kom fram á fundum nefndarinnar með fulltrúum þessara stofnana að sjálfsagt mundi þróunin hafa í för með sér er fram liðu stundir að þetta mundi sameinast, en til þess væri ekki rétti tíminn á þessari stundu. Ýmislegt þyrfti að þróast og þroskast og eflast innan þessara stofnana þannig að af slíkri sameiningu gæti orðið. En ég hygg að fulltrúar beggja stofnana gætu verið sammála um að til þess gæti komið í framtíðinni og til þess væri í rauninni kannski æskilegt að kæmi í framtíðinni.

Menntmn. þessarar hv. deildar flytur aðeins eina brtt. við þetta frv. Hún er við 1. gr. 1. tölul. Nefndin leggur til að þetta verði orðað með þeim hætti er ég nú mun lýsa:

„Kennaraháskóli Íslands er miðstöð kennaramenntunar hér á landi að því er tekur til grunnskólastigs og annast rannsóknir á sviði uppeldis- og kennslumála.“

Þetta orðalag þótti að ýmsu leyti skýrara en það orðalag sem áður var og um þetta er fullt samkomulag í nefndinni. Ég átti einnig viðræður um þessa breytingu við þá starfsmenn menntmrn. sem um þetta hafa fjallað, en það sem máli skiptir er að nefndin er um þetta sammála.

Það eru hér ýmis atriði sem auðvelt er að gera að ágreiningsatriðum, svo sem fyrirhuguð lenging kennaranáms, og eru sjálfsagt um skiptar skoðanir. Ég ætla ekki, herra forseti, að hefja hér umræður um það. Ég hef gert grein fyrir umfjöllun nefndarinnar um málið og þeirri brtt. sem nefndin flytur og ég bæti því við að Skúli Alexandersson sat fundi nefndarinnar og er samþykkur þessu nál. eins og þar kemur fram. Undir þetta skrifa allir fulltrúar í menntmn. og án fyrirvara þannig að þetta hefur stuðning nefndarinnar þótt okkur öllum sé mætavel ljóst að hér eru ýmis atriði sem kannski eru svolítið ólíkar skoðanir á. En ég hygg að niðurstaða nefndarinnar ráðist af því að menn telja mikilvægt að þetta mál nái fram að ganga og um það ríki bærilegur friður þó að ýmis séu orðalagsatriði í frv. sem einn kysi að hafa á annan veg. En þó varð samstaðan ofan á í nefndinni.