09.11.1987
Sameinað þing: 15. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 822 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

77. mál, launakostnaður við mötuneyti framhaldsskólanna

Flm. (Danfríður Skarphéðinsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka góðar undirtektir hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, 2. þm. Austurl., og stuðning við þessa till., en eins og kom fram í máli hans er hér um mikið hagsmunamál landsbyggðarinnar að ræða því að hvar sem maður kemur um hinar dreifðu byggðir landsins eru það menntunarmál barnanna sem heitast brenna á fólki, að þau geti haft sömu möguleika til að afla sér menntunar og þeir sem í þéttbýli búa.

Hv. 2. þm. Austurl. minntist líka á tekjur nemenda, en eins og fram kom í máli hans duga þær hvergi nærri fyrir framfærslu þeirra yfir veturinn og það er eitt af stóru vandamálunum í menntakerfi okkar núna að nemendur bæta stöðugt á sig vinnu með námi og það skilar sér í lélegri námsárangri. Þetta er því mjög brýnt mál í alla staði.