29.04.1988
Efri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7046 í B-deild Alþingistíðinda. (5019)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. um frv. til l. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins nr. 60 frá 1984, með síðari breytingum, frá félmn.

Nefndin hefur fjallað um frv. á fundi sínum og mælir með samþykkt þess, en flytur þó brtt. á sérstöku þskj. sem ég mun gera hér nánari grein fyrir á eftir. Fjarstaddir við afgreiðslu málsins voru Halldór Blöndal, Guðrún Agnarsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir, en Júlíus Sólnes sat fund nefndarinnar.

Undir þetta nál. skrifa Guðmundur H. Garðarsson, formaður, frsm., Jóhann Einvarðsson, Karl Steinar Guðnason og Svavar Gestsson.

brtt. sem nefndin varð sammála um að leggja fram er við 1. gr. þess frv. sem hér um ræðir og er á þá leið að í stað orðanna „fengnum tillögum húsnæðismálastjórnar og“ komi: fenginni. Samkvæmt því mundi 1. gr. með þeim breytingum sem frv. gerir ráð fyrir verða þannig að 2. mgr. mundi hljóða sem hér segir:

„Ríkisstjórn Íslands tekur ákvörðun um vexti af innlánum á skyldusparnaðarreikningum hjá Byggingarsjóði ríkisins að fenginni umsögn Seðlabankans.“

Nefndarmönnum fannst eðlilegt að þessi breyting væri gerð þar sem lántakandi, í þessu tilviki húsnæðismálastjórn, mundi ella hafa áhrif á það með þeirri uppsetningu sem þessi lagagrein gerði ráð fyrir og töldum við það óeðlilegt. Þar með teljum við að hagsmunum sparenda sé betur borgið.