29.04.1988
Efri deild: 84. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7046 í B-deild Alþingistíðinda. (5020)

363. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Guðmundur Ágústsson:

Herra forseti. Ég vildi segja nokkur orð í tilefni afgreiðslu nefndarinnar á þessu frv. sem ég tel vera til bóta frá því sem nú er. Hins vegar hefði ég viljað sjá frv. öðruvísi og að nánar sé kveðið á um í frv. þá vexti sem ég tel að verði að vera á þessum skyldusparnaði sem lögbundinni eign fyrir ungt fólk þannig að þeir skuli ekki vera lægri en gerist á markaðnum og þá á ég við á spariskírteinum ríkissjóðs.

Ég vil jafnframt benda á frv. sem við þingmenn Borgarafl. fluttum hér í febrúar um sama efni, þar sem gert var ráð fyrir tvenns konar sparnaði, annars vegar að Húsnæðisstofnun yrði falið að ávaxta þetta sparifé með byggingu húsnæðis sem sparendur gætu eignast hlutdeild í með sparifé sínu og hins vegar yrðu settir á stofn sérstakir reikningar hjá Húsnæðisstofnun er bæru hæstu vexti.

Ég vonast eftir því að það frv. sem hér er til umræðu, þó svo ég geti ekki fyllilega sætt mig við það, verði að lögum því að brýnt er að það unga fólk sem leggur inn hjá Húsnæðisstofnun fái fulla ávöxtun á fé sitt, en vil jafnframt skora á nefndina að taka frv. okkar þingmanna Borgarafl. til rækilegrar skoðunar með það í huga að það fái umfjöllun og vonandi samþykkt fyrir þingslit.