29.04.1988
Neðri deild: 83. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7051 í B-deild Alþingistíðinda. (5028)

301. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta fyrra ákvæði til bráðabirgða sem hér eru greidd atkvæði um er að mestu leyti efnislega samhljóða brtt. sem ég flutti við 2. umr. og voru þá um breytingar á lögunum. Hér er hins vegar ekki lagt annað til en það að við væntanlega endurskoðun á löggjöfinni um húsnæðismálin verði þessi sjónarmið tekin sérstaklega til skoðunar og það furðar mig, svo að ekki sé meira sagt, ef hv. þm. deildarinnar sjá ástæðu til þess að leggjast gegn því að sjónarmið af þessu tagi, sem færð hafa verið ítarleg rök fyrir, fái að fljóta með samkvæmt sérstakri bókun í þeirri endurskoðun. Engin rök hafa verið færð gegn því að þetta bráðabirgðaákvæði megi fljóta með lögunum. Mig furðar því á þeim atkvæðum sem hér falla og lýsi því yfir að það verða bæði mér, svo og fjölmörgum aðilum öðrum, fjölmennum félagasamtökum og sveitarfélögum í landinu, mikil vonbrigði ef sú óbilgirni verður ofan á að fella þetta saklausa bráðabirgðaákvæði. Ég segi já.