10.11.1987
Efri deild: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

69. mál, útvarpslög

Flm. (Júlíus Sólnes):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að afsaka að mér láðist í framsögu minni að leggja til að málinu yrði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. og geri ég það hér með.

Ég vil segja það að sjálfur er ég enginn sérstakur áhugamaður um sjónvarp. Ég hef miklu meiri áhuga á hinum þætti málsins, sem ég hef lagt mikla áherslu á í frv., þ.e. upplýsinga- og boðveitan sem ég sé opnast möguleika fyrir með því að veita þessa heimild. Það er ekki nokkur vafi á því, og það hafa tæknimenn Póst- og símamálastofnunar tjáð mér, að meðan það ástand varir að ekki er heimilt að dreifa hér á Íslandi erlendu sjónvarpsefni frá gervitunglum, þá verður ekki nein upplýsinga- eða boðveita lögð hér. Í nágrannalöndunum er það einmitt sjónvarpsdreifingin sem ryður brautina fyrir breiðbandsog upplýsingakerfið.

Hvað varðar textunina er það alveg rétt að ég kom ekkert inn á hana. Ég get hins vegar fjallað um hana, sbr. það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. gat um í ræðu sinni áðan. Ég er algjörlega sannfærður um að það er einmitt þessi textunarskylda sem gerir það að verkum að höfuðáhersla er lögð á að dreifa hér ódýru, lélegu, amerísku sjónvarpsefni. Það er fyrst og fremst slíkt efni sem borgar sig að þýða. Hins vegar er okkur þar með meinað að horfa á ýmiss konar menningarefni. Með því að fá að taka á móti erlendum sjónvarpssendingum væri t.d. hægt að fá að horfa á franskt sjónvarpsefni. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þessi síbylja amerísks afþreyingarefnis með íslenskum texta er það sem er að eyðileggja íslenska tungu en ekki það að leyft yrði að horfa á vandað franskt, ítalskt og þýskt menningarefni óþýtt. Það mundi ekki valda neinu tjóni á íslenskri tungu fyrir utan það að sá kostnaður sem fer í það að texta erlent sjónvarpsefni væri miklu betur kominn til þess að efla íslenskukennslu í grunnskólunum. Það er þar sem að kreppir í sambandi við íslenskukunnáttu okkar, það er ekki nógu góð íslenskukennsla hér, hvorki í grunnskóla né framhaldsskóla. Þar kreppir skóinn að en ekki í því að texta erlent sjónvarpsefni.

Ég tel alveg sjálfsagt að eftir sem áður verði allt sjónvarpsefni textað sem er hér sýnt hjá íslenskum sjónvarpsstöðvum og ég tel það best gert með því að hafa hvatningarákvæði í lögunum um það að leitast skuli við að senda allt erlent sjónvarpsefni með íslenskum texta þegar því verður við komið. En það segir sig sjálft að því verður ekkert við komið þegar ætlunin er að horfa t.d. á erlendar sjónvarpsfréttir í beinni útsendingu frá erlendum sjónvarpsgervitunglum.

Við getum eflaust tafið þá þróun að almenningur á Íslandi geti horft á erlendar sjónvarpssendingar með því að banna lagningu strengkerfa til þess að notendur geti á ódýran hátt náð í erlendar sjónvarpssendingar. Við getum í hæsta lagi tafið það í nokkur ár. En þegar fram líða stundir mun móttökuútbúnaður verða eitthvað ódýrari þannig að hver og einn setur þá einfaldlega upp sjónvarpsmóttökuloftnet við sína íbúð eða við sitt heimili. Það þýðir þá einfaldlega að bæir og byggðarlög á Íslandi verða einn óhræsilegur loftnetsskógur sjónvarpsloftneta, með diskloftnetum við hvert hús. Nú þegar geta hinir efnameiri í þjóðfélaginu veitt sér að setja upp sjónvarpsmóttökudisk fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar og enginn amast við því. Og hvað er þá verið að tala um? Er verið að tala um það að þeir sem hafa ekki efni á því að kaupa sér móttökuloftnet fyrir erlendar sjónvarpsstöðvar megi ekki horfa á þær af því að þeir hafa ekki efni á því, af því að þeir geta ekki leyst þetta sameiginlega? Mótsagnirnar í þessu eru svo miklar að þær taka engu tali.

Ég vil ítreka það enn einu sinni að við getum í besta falli tafið þessa þróun um nokkur ár og það sem gerist er að sú tæknibylting, sem ég lýsti í grg. með frv., þ.e. boðveitan, upplýsingaveitan, verður líka tafin um jafnlangan tíma því að hún kemur ekki nema sjónvarpsdreifingin fylgi með. Það er reynsla nágrannalandanna.

Ég vil að lokum ítreka að íslenskunni verður betur bjargað með því að efla íslenskukennsluna í skólakerfinu en með því að texta lélegt, amerískt afþreyingarefni sem flæðir hér yfir markaðinn til þess að rugla íslenskukunnáttu allra sem á það horfa.