30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7107 í B-deild Alþingistíðinda. (5113)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hv. nefnd fyrir störf að þessari till. Ég verð þó að segja að ég hefði frekar kosið að Alþingi hefði treyst sér til að samþykkja hana og sé satt best að segja ekki að nein sérstök rök mæli gegn því og allra síst eftir að hafa heyrt frsm. mæla fyrir nál. Hún upplýsti það, sem reyndar kemur mér ekkert á óvart, að allar umsagnir sem um tillöguna bárust eða a.m.k. flestallar hefðu verið jákvæðar og nefndin hefði í sínum störfum metið það svo að þörf væri á — (VS: Frekar jákvæðar.) Frekar jákvæðar, já. — átaki af þessu tagi.

Það var enn fremur upplýst hér að um 20 ár væru síðan reynt hefði verið að taka á þessum málum í heild sinni og mun það rétt vera. Allt finnst mér þetta heldur mæla með því að Alþingi hefði átt einfaldlega að fela ríkisstjórninni að fara yfir þessi mál og það hefði verið myndarlegra en vísa tillögunni sem slíkri til ríkisstjórnarinnar.

Nú er ég ekki að lasta hæstv. ríkisstjórn og út af fyrir sig efa ekki að hún hefði gjarnan viljað taka á þessum málum, en ég hygg að það hefði verið myndarlegri leiðsögn af hálfu Alþingis að samþykkja tillöguna og fela ríkisstjórninni þannig verkefnið en vísa tillögunni sem slíkri þangað.

Virðulegi forseti. Það er að vísu nokkur galli að mínu mati að hæstv. samgrh. skuli enn vera forfallaður einhvers staðar í húsinu. Það hefði verið ágætt ef hæstv. ráðherra hefði mátt hlýða á umræðuna. Ég hefði gjarnan viljað fá að heyra hans viðhorf til þess hvað hann hyggist gera í framhaldi af því að þessari tillögu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra verður kominn hér í salinn áður en umræðunni lýkur, en ég kem þá aftur og endurtek spurningar mínar til hans.