10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 847 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Sem annar flm. frv. þakka ég undirtektir hv. 10. þm. Reykv. og er sjálfsagt að taka til athugunar ábendingar um frekari útfærslu á frv. sem hér liggur fyrir.

Hv. 1. flm. hefur gert ágæta grein fyrir ástæðu fyrir flutningi frv. og hef ég þar litlu við að bæta. Þó vil ég benda á að allt frá stofnun Kvennaframboðsins og síðan Kvennalistans höfum við unnið að því og stutt að svæði væru lýst kjarnorkuvopnalaus. Í stefnuskrá Kvennalistans stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Við viljum tryggja að kjarnorkuvopn verði aldrei leyfð á Íslandi. Við viljum að íslensk efnahagslögsaga verði friðuð fyrir kjarnorkuvopnum og umferð kjarnorkuknúinna farartækja. Við mótmælum harðlega losun kjarnorkuúrgangs og eiturefna í hafið vegna þeirrar hættu sem öllu lífríki og þar með fiskistofnum er búin með slíku athæfi.“

Við hljótum öll að stefna að því að eyða kjarnorkuvopnum af jörðinni allri. Sérhvert skref í átt til afvopnunar er spor í áttina. Borgarfulltrúi Kvennalistans í Reykjavík flutti vorið 1986 tillögu í borgarstjórn um að Reykjavík og Reykjavíkurhöfn yrðu lýst kjarnorkuvopnalaus og hér á Alþingi hafa þingkonur Kvennalistans ítrekað flutt tillögur í þessa átt. Alþingi og ríkisstjórnin hafa lýst því yfir að á Íslandi verði ekki staðsett kjarnorkuvopn og ef marka má skoðanakannanir vilja um 90% Íslendinga að Ísland verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði. Þetta frv. sýnir hvernig hægt er að standa að að festa í lög þennan vilja þjóðarinnar og Alþingis að hér skuli aldrei verða staðsett kjarnorkuvopn, hvorki á friðar- né ófriðartímum.