30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7136 í B-deild Alþingistíðinda. (5152)

437. mál, löggjöf um forskólastig og uppbyggingu dagvistarstofnana

Kristín Einarsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir þá till. sem hér er flutt af hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifi Guttormssyni og tel að það sé fyllilega tímabært að mótuð verði stefna um forskólastigið sem og um önnur skólastig. Kvennalistinn hefur ítrekað lagt áherslu á að það þurfi að móta heildstæða menntastefnu og skilgreina skólastigin og þá má alls ekki verða út undan það svokallaða forskólastig sem hér er talað um.

Ég vil benda á, og það kom reyndar einnig fram hér áðan, að það hefur verið gerð starfsáætlun um uppeldisstörf á dagvistarheimilum í kjölfar till. hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, sem var gefin út árið 1985, uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili, markmið og leiðir. Ég held að þó að þessi uppeldisáætlun hafi bætt úr brýnni þörf er hún þó einungis leiðbeinandi, en hún getur verið mjög góður grunnur fyrir það sem hér er talað um að undirbúa frv. til I. um forskólastigið og móta þar með þetta skólastig ekki síður en önnur.

Það sem mér finnst mjög gott við þessa till. er ekki síst að hér er lögð áhersla á að það er ekki eingöngu uppeldi heldur ekki síður menntun við hæfi sem þarf að fara fram á dagvistarstofnunum vegna þess að það er mjög mikilvægt að börn sem þarna eru, oftast 1–6 ára, fái menntun við hæfi og verði ekki skilin út undan. Við gerum ráð fyrir því að fæðingarorlof verði eitt ár, það veitir ekkert af því, og þar með erum við að tala um börn 1–6 ára. Það á að vera liðin tíð að það sé litið á dagvistarheimili sem geymslustaði. Þau eru það alls ekki heldur nauðsynlegur þáttur í uppeldi barna á okkar tímum og mikill stuðningur við fjölskylduna.

Börnin fá þarna undirbúning fyrir framtíðina. Tími stórfjölskyldunnar er liðinn. Við höfum ekki lengur ömmu og afa og frændur og frænkur heima til að mennta og ala upp börnin, því miður. Við verðum að horfast í augu við að nú eru breyttir tímar. Meiri hluti kvenna vinnur utan heimilis, báðir foreldrar vinna því utan heimilis þannig að það þýðir ekkert að tala um að börnin séu heima allan daginn. En auðvitað verður að leggja áherslu á að dagvistarheimilin koma ekki í stað heimilanna heldur við hlið þeirra og til aðstoðar þeim.

Því vil ég ítreka að ég tek undir þáltill. sem hér er til umræðu en vil benda á að þarna er talað um tíu ára framkvæmdaáætlun. Það má minna á að í tengslum við kjarasamninga ASÍ árið 1980 greip ríkisstjórnin inn í til að liðka fyrir samningum og lofaði þá að taka til höndunum við uppbyggingu dagvistarheimila og fullnægja þörfinni á næstu tíu árum. Það eru þá ekki nema tvö ár til stefnu. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að standa við það að byggja upp dagvistarheimili á tveimur árum sem þurft hefði þannig að e.t.v. þurfum við næstu tíu árin til að byggja upp dagvistarheimili. Fyrr í vetur lögðu þingmenn Kvennalistans í Nd. fram frv. til l. um tímabundið átak í uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn sem Sigríður Lillý Baldursdóttir var 1. flm. að. Þar var gert ráð fyrir að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur og einnig var gert ráð fyrir í frv. til l. um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í frv. var gert ráð fyrir að myndaður yrði sjóður til uppbyggingar dagvistarheimila. Sjóðurinn yrði myndaður á fimm árum. Í þennan sjóð skyldu sveitarstjórnir leggja1/3 hluta sem aflað skyldi með því að leggja 0,11% álag á aðstöðugjaldsstofn. Þannig gátu sveitarstjórnirnar afla fjár að1/3. Síðan var gert ráð fyrir að ríkið greiddi 1/3 á móti þessum aðstöðugjaldsstofni og svo sveitarfélögin úr eigin sjóðum 1/3 þar að auki. Með þessu var hægt að fullnægja, að vísu ekki allri þörf en það var hægt að fara langt með að fullnægja þeirri þörf sem gert var ráð fyrir í þeim kjarasamningi, sem gerður var árið 1980, að 80% barna 2–5 ára mundu geta átt möguleika á að vera á dagvistarheimilum og minna prósentuhlutfall annarra barna. Það má spyrja hvort við eigum ekki að reyna að hraða þessu meira en þarna er gert ráð fyrir. Það verður að gera ráð fyrir að nefndin, sem þarna er miðað við að undirbúi frv. og framkvæmdaáætlun, taki tillit til þeirra þátta og þeirra tillagna sem komið hafa fram og ekki síst þess sem talað var um 1980 þar sem ríkisstjórnin lofaði að liðka til fyrir samningum og gera átak í uppbyggingu dagvistarheimila. Það hefur frekar lítið orðið um þær efndir.

Það hefur mikið verið talað um að atvinnuvegirnir taki þátt í uppbyggingu dagvistarheimila og það hafa flestir verið sammála um það. Það er að vísu eilítill munur á skoðun fólks á því með hvaða hætti atvinnuvegirnir eiga að taka þátt í þessu. Sumir vilja að fyrirtækin reki dagvistarstofnanirnar ein og án afskipta annarra. Ég tel það ekki rétt. Ég tel mjög eðlilegt að forskólastigið verði ekki meðhöndlað á annan hátt en grunnskólinn og það verði meðhöndlað svipað bæði hvað varðar laun þeirra sem mennta börnin og eins kostnaðarskipting ríkis og sveitarfélaga í því sambandi.