30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7146 í B-deild Alþingistíðinda. (5161)

429. mál, vinnuvernd í verslunum

Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um vinnuvernd í verslunum. Flm. eru Guðmundur H. Garðarsson og Halldór Blöndal. Till. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hefja undirbúning að setningu laga um vinnuvernd í verslunum.“

Óþarft er að hafa mörg orð um þessa tillögu. Alkunna er að vinnuálag á verslunarfólk hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Aukin almenn velmegun og breytt viðhorf í viðskiptum hafa leitt til þess að opnunartími verslana hefur lengst til muna og er nú svo komið að í ýmsum stórmörkuðum getur daglegur vinnutími fólks verið allt að 12–14 klst. fimm daga vikunnar. Þar við bætast 7–8 klst. á laugardögum. Þess eru dæmi að vinnuvika hjá einstaklingi getur komist í 70–80 klst.

Þrátt fyrir ítarlegar viðræður fulltrúa launþega og vinnuveitenda í verslunum hefur enn ekki tekist að ná viðunandi samkomulagi um tilhögun vinnutíma í þessari grein. Virðist stefna í fullkomið óefni ef ekkert verður að gert til að tryggja hag fólksins í þessum efnum.

Með þessari þáltill. er ekki stefnt að því að þrengja hag eða rekstrarstöðu verslunarfyrirtækja heldur lögð sú skylda á herðar Alþingis og ríkisstjórnar að tryggja að verslunarfólki verði ekki misboðið með of miklu vinnuálagi, auk þess sem fjölskyldulífi þeirra er starfa við verslun verði ekki stefnt í voða vegna óheyrilega langs vinnutíma sex daga vikunnar allt árið um kring.

Hugsanlegt er að nú kunni einhverjir að segja sem svo að aðilar vinnumarkaðarins geti leyst þetta með samningum sín í milli. Því er til að svara að í þeim efnum hafa ár eftir ár farið fram árangurslausar viðræður, enda er nú svo komið að sá aðili sem hefur mesta félagslega forustu fyrir verslunarfólki í landinu, Verslunarmannafélag Reykjavíkur, hefur með félagssamþykkt óskað eftir því að hv. Alþingi komi til skjalanna til aðstoðar við lausn þessa vandamáls.

Á aðalfundi VR 1988 var samþykkt samhljóða svohljóðandi ályktun sem ég vil lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Verslunarmannafélags Reykjavíkur, haldinn 28. mars 1988, beinir þeim tilmælum til Alþingis að sett verði lög sem verndi verslunarfólk gegn óþolandi vinnuálagi sem viðgengst í vissum greinum verslunar.“

Reynslan hefur sýnt að þrátt fyrir baráttu stéttarfélaga verslunarmanna, einkum VR, til að hamla gegn stöðugt lengri vinnutíma afgreiðslufólks, einkum í stórverslunum, hefur það ekki borið árangur sem skyldi af margþættum ástæðum. Má í því sambandi sérstaklega geta um mikinn þrýsting af hálfu þeirra aðila sem telja sig vernda sjónarmið neytenda, en þá gleymist oft að verslunarfólk og fjölskyldur þess eru einnig neytendur.

Erlendis hefur verslunarfólk átt við svipaðan vanda að stríða. Þar hefur löggjafarvaldið því gripið til þess ráðs að tryggja stöðu fólksins með ákvæðum vinnuverndarlaga. Fordæmi eru fyrir þessu í íslenskri löggjöf, sbr. vökulögin sem sett voru 1924 til að fyrirbyggja vinnuþrælkun um borð í íslenskum togurum. Nú árið 1988 stendur verslunarfólk frammi fyrir svipaðri þróun og sjómenn árið 1924, óþolandi vinnuþrælkun sem verður að linna.

Til þess að gefa hv. þm. einhverja hugmynd um það um hve mikinn fjölda er að ræða þegar talað er um verslunarfólk, sem þetta mál áhrærir, vil ég segja þetta. Félagsmenn Verslunarmannafélags Reykjavíkur eru nú um 14 þús. manns. Þar af eru nokkur þúsund manna sem er nefnt sumarfólk og allmargir er vinna hlutastörf. Hins vegar má gera ráð fyrir að í þessu félagi séu um 10 þús. manns sem eru í fullu starfi. Þar af eru 4–5 þús. manns við afgreiðslustörf. Í VR eru um 63% félaganna konur og 37% karlar. Konur eru í yfirgnæfandi meiri hluta við afgreiðslustörf, svo sem m.a. má sjá í stórmörkuðum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Hið mikla vinnuálag og langi vinnutími kemur því hvað harðast niður á konum og fjölskyldulífi þeirra. Þá er einnig þess að geta að á meðal þeirra eru margar einstæðar mæður. Þess vegna er brýnt að þessum málum verði strax komið í viðunandi horf. Án afskipta Alþingis gerist það ekki að mati fólksins sjálfs. Það má áætla lauslega að þetta mál snerti 15–20 þús. manns beint, þ.e. það eru viðkomandi starfsmenn og fjölskyldur þeirra, sérstaklega börn.

Nútímaþróun í uppbyggingu stórmarkaða, sem eiga að mæta auknum kröfum neytenda, má ekki verða með þeim hætti að starfsmenn þessara fyrirtækja verði fórnardýr nýrra viðskiptahátta.

Víða erlendis hafa farið fram miklar umræður um hliðstæð vandamál og hér er við að stríða. Unnið hefur verið að setningu laga og útgáfu reglna sem m.a. eiga að veita verslunarfólki ákveðna vinnuvernd. Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn hljóta því samkvæmt framansögðu að koma til skjalanna með setningu laga sem fela í sér ákveðna vinnuvernd fyrir verslunarfólk á sama tíma sem kröfum nútímans um aukna þjónustu er mætt með viðunandi hætti.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu máli vísað til allshn.