02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7205 í B-deild Alþingistíðinda. (5247)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Frsm, fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér er búið að segja margt skynsamlegt í þessum umræðum, en þó er ég ekki sammála því öllu.

Hv. þm. Geir H. Haarde benti á að mannréttindi væru víðar brotin. Það er rétt hjá honum að sjálfsögðu, en skilsmunurinn er sá að það hefur ekki komið fram formleg ósk frá kúguðum meiri hluta í þeim löndum um viðskiptabann eða þvílíkar aðgerðir.

Hann velti því einnig fyrir sér hvort meiri hlutanum væri ekki betur borgið án viðskiptabanns sem hefði efnahagslegar þrengingar í för með sér fyrir Suður-Afríku. Ég svara því til að ég held að hinn kúgaði meiri hluti meti það svo að betra sé að fá viðskiptabann en ekki.

Þá spurði hv. þm. hvað við hefðum gert ef raunverulegir hagsmunir hefðu verið í húfi eins og hann orðaði það. Það er kannski óþarfi að svara þessari spurningu. Það eru ekki stórir hagsmunir í húfi fyrir Íslendinga eins og stendur. En það breytir engu í mínum huga. Suður-Afríkustjórn hefur sér fátt eða ekkert til málsbóta og þess vegna tel ég að það sé ekki ástæða til að hafa við þá viðskipti.

Hv. þm. Hreggviður Jónsson las upp úr ræðu Geirs Hallgrímssonar frá 1985. Ég tel að það sé Sjálfstfl. til sóma að standa að þessari lagasetningu eins og hann er hér að gera. Það er nefnilega mikið vatn til sjávar runnið frá 1985 eða eins og segir í grg.:

„Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað skrifað ýmsum félagssamtökum bréf þar sem eindregnum tilmælum er beint til þeirra að hætta viðskiptum við Suður-Afríku meðan stjórnvöld þar í landi fótumtroða mannréttindi meiri hluta íbúa landsins. Ýmis félagasamtök, t.d. Alþýðusamband Íslands og Verkamannasamband Íslands, hafa tekið þessum tilmælum vel, en ljóst er að hvatning stjórnvalda ein sér nægir ekki, tryggir ekki tilætlaðan árangur.“

Það er nefnilega búið að prófa aðrar leiðir og þær báru ekki árangur. Þar af leiðir að viðhorfið er orðið annað en var 1985 og ég tel, eins og ég sagði áðan, að það sé Sjálfstfl. til sóma að standa að þessari löggjöf.

Ég sé ekki ástæðu fyrir neinn flokk eða alþm. að skjóta hér á Alþingi skildi fyrir stjórn Suður-Afríku. Mér finnst kenna útúrsnúninga í röksemdum hv. þm. Hreggviðs Jónssonar og mér finnst að með frv. sýnum við samstöðu með hinum kúgaða meiri hluta Suður-Afríku eins og fjölmargar aðrar þjóðir hafa gert.

Ég furða mig nokkuð á málflutningi hv. 5. þm. Reykv. Alberts Guðmundssonar. Albert Guðmundsson hefur oftast komið fram sem sérstakur fulltrúi mannúðar og mildi og hefur margoft sagt frá því sjálfur. Hann hefur sagst vera vinur „litla mannsins“. Ég ætla að vona að hann sé líka vinur litla svarta mannsins. Ég vona að það sé misskilningur minn að svo sé ekki.

Ég harma að hann skuli vera að drepa málinu á dreif með þeim hætti sem hann gerir svo því mér finnst hann vera að verja viðskipti við Suður-Afríku með ræðu eins og hann gerði í dag, annaðhvort að stíga miklu lengra skref eða stíga ekkert, og eins og hann gerði við 1. umr. málsins. Mér finnst þessi afstaða ekki vera í stíl við annan málflutning hans um mannúðarmál. Ég vona að það sé bara sérstakt óhappatilfelli að vera hér að slysast til að reyna drepa málinu á dreif.

Það kemur e.t.v. að því síðar að samstaða myndast um enn frekari einangrun Suður-Afríkustjórnar og þá er líklega rétt fyrir okkur að taka þátt í því. Sú samstaða er bara ekki enn fyrir hendi jafnvel þó að hv. þm. hafi horft á sjónvarp frá Frakklandi. Hún er ekki enn fyrir hendi. Það er þarflaust að ræða það mál á þessu stigi. Frv. gerir ráð fyrir því skynsamlegasta skrefi sem við getum stigið í bili og finnst mér að það skref ætti Borgarafl. að stíga með okkur hinum.