04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7282 í B-deild Alþingistíðinda. (5313)

446. mál, Listasafn Íslands

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um þetta mál. Ég fagna því að hér skuli koma fram frv. sem færir málefni Listasafnsins í nútímahorf eins og segir í athugasemdum við frv. Það eru einkum tvö atriði sem ég vildi minnast á. Annað er einmitt sú valddreifing sem felst í því að forstöðumaður er ráðinn tímabundið. Eins og kemur fram í athugasemd við þá grein er talað um að slíkt komi í veg fyrir stöðnun og hindri ákveðinn ósveigjanleika. Ég tel þetta mikilvægt skref til valddreifingar sem nauðsynlegt er að verði tekið upp í mun ríkara mæli hjá opinberum stofnunum og almennt í þjóðfélaginu, þar sem um forstöðuhlutverk er að ræða, einmitt til þess að tryggja að nýjar hugmyndir komist að.

Ég vil einnig fagna þeirri brtt. sem kom fram í Nd. þar sem líka er um möguleika á ákveðinni dreifingu á listaverkum að ræða út í þjóðfélagið í stað þess að þau séu einungis inni á söfnum. Ég held að það sé mjög jákvætt skref til að auka möguleika fólks á því að njóta listar.

Þetta voru aðeins nokkur orð, en ég vildi ekki láta það fram hjá mér fara að taka undir með erindi þessa frv. og minnast sérstaklega á þessi tvö atriði sem ég legg áherslu á.