04.05.1988
Neðri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7381 í B-deild Alþingistíðinda. (5380)

469. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. samgn. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Samgn. deildarinnar hefur fjallað um frv. til l. um breytingu á lögum um Siglingamálastofnun ríkisins, nr. 20 frá 30. apríl 1986.

Nefndin leggur ekki til neina efnisbreytingu á því frv. sem hér er flutt en telur eðlilegra að fella þetta inn í lagatextann á öðrum stað. Með leyfi forseta vil ég lesa nál. og svo brtt. eins og hún er orðuð:

„Nefndin hefur athugað frv. og leggur til að það verði samþykkt með breytingu sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. og felur ekki í sér efnisbreytingar.

Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Eggert Haukdal og Valdimar Indriðason.“

Undir þetta skrifa Ólafur Þ. Þórðarson, Ingi Björn Albertsson, Málmfríður Sigurðardóttir, Sigbjörn Gunnarsson og Guðni Ágústsson. Greinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Formann og varamann hans skipar ráðherra án tilnefningar og skal formaður vera fulltrúi samgrn. Aðra fulltrúa skipar ráðherra skv. tilnefningu eftirtalinna aðila: Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Landssambands ísl. útvegsmanna, Sambands ísl. kaupskipaútgerða, Sjómannasambands Íslands, Landssambands smábátaeigenda, Félags dráttarbrauta og skipasmiðja og Slysavarnafélags Íslands.“