04.05.1988
Neðri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7387 í B-deild Alþingistíðinda. (5396)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég hef litlu við orð hv. 2. þm. Austurl. að bæta. Hitt vil ég benda á að við höfum hér á landi lög um jafnan rétt karla og kvenna. En eitthvað er bogið við kynningu á þeim þegar þau undur geta gerst sem lýst er í Morgunblaðinu í gær, þriðjudaginn 3. maí. Þar skrifar ung kona, Ásta M. Ásmundsdóttir efnafræðinemi, grein sem lýsir hvernig fór fyrir henni er hún sótti um atvinnu í efnaverksmiðjunni Sjöfn á Akureyri. Ég held að það væri hollt fyrir hv. þm., hafi þeir ekki lesið þessa grein, að ég fengi að lesa smábrot úr frásögn Ástu, með leyfi forseta. Stúlkan lýsir því að hún sótti um starfið ásamt nokkrum jafnmenntuðum einstaklingum sem allir voru karlkyns og frétti síðan að haft hefði verið samband við þá en ekki hana. Hún segir síðan, með leyfi forseta:

„Hér koma nokkrar helstu ástæður til fróðleiks fyrir ykkur, ungar og kappsfullar konur á leið út á vinnumarkaðinn.

a. Þar sem viðkomandi starf var í málningardeildinni var talið æskilegra að ráða karlmann því karlmenn hefðu yfirleitt meiri reynslu af húsbyggingum og hefðu frekar staðið í slíku en konur.

b. Auk þess hefðu karlmenn frekar unnið í byggingarvinnu með náminu og hefðu því meira innsæi í þessa hluti. (Rétt er að taka það fram að það var staða efnafræðings sem var til umræðu.)

c. Það væri ekkert líklegra en að ef kona væri ráðin, þá yrði hún fljótlega ófrísk og yrði frá vinnu vegna veikinda ungra barna sinna. (Aðalsteinn — en það er forstjóri verksmiðjunnar — hafði svo sem gefið konum tækifæri og hafði af því slæma reynslu.)

e. Ef um hefði verið að ræða starf í snyrtivörudeildinni hefði málið horft allt öðruvísi við. (Kvenlegt innsæi líklega komið að góðum notum við framleiðslu dömubinda, það er að segja ef konan væri þá ekki ólétt.)

Önnur rök komu fram í samtali annars aðila frá fyrirtækinu og bekkjarbróður míns. Það var að viðkomandi efnafræðingur þyrfti að umgangast starfsmenn í Slippstöðinni hf., sem flestir eru karlmenn og því æskilegra að viðkomandi væri karlmaður.“

Lýkur hér tilvitnun í þessa furðulegu frásögn Ástu M. Ásmundsdóttur efnafræðinema og væri verulega skemmtilegt verkefni að skilgreina þann þankagang sem að baki liggur.

En forstjórinn, Aðalsteinn Jónsson hjá efnaverksmiðjunni Sjöfn á Akureyri, lætur sér hvergi bregða í viðtali við Morgunblaðið í dag. Það er ógerlegt að sjá að sá maður viti að til eru í landinu lög um jafnan rétt karla og kvenna. Hann segir, með leyfi forseta:

„Ég held að flestir sem til þekkja viti að það er sannleikur í þessum orðum. Það eru yfirleitt meiri fjarvistir hjá kvenfólki, sérstaklega ungu kvenfólki, sagði Aðalsteinn Jónsson forstjóri efnaverksmiðjunnar Sjafnar á Akureyri er hann var spurður út í grein sem Ásta M. Ásmundsdóttir efnafræðinemi ritaði í blaðið í gær. Í grein sinni ber Ásta Aðalstein fyrir því að karlmenn séu hæfari en konur til að starfa sem efnafræðingar við fyrirtæki það sem hann veitir forstöðu.“ Þá segir Aðalsteinn, með leyfi forseta:

„Þó að einstaka kona hafi unnið á þessum vettvangi og þær geti spjarað sig ágætlega, þá er það ekki hin algilda regla. Maður verður að reikna með meðaltalinu, sagði Aðalsteinn. Af reynslu liðinna ára vitum við að konur hafa komið miklu minna nálægt vinnu við málningu heldur en karlmenn og það þarf ekki annað en að fara í fagbækur til þess að gá að því. Þar sést það greinilega að konur hafa ekki lagt þetta fyrir sig. Það er misjafnt hvað kynin leggja fyrir sig. Þetta er bara reynsla liðinna ára og það þarf ekki tölfræði til.“

Hann er spurður: „Ertu þá þeirrar skoðunar að karlkyns efnafræðingur hafi meiri þekkingu á málningarframleiðslu en kona sem lokið hefur sama námi frá sama skóla?

Það er mitt álit. Starfið felst ekki eingöngu í að vinna á rannsóknarstofu. Viðkomandi verður að geta fylgt sínum vörum út á markaðinn og kennt mönnum að fara með þær, legið í gólfum“ — Ég bið þingheim að taka eftir, konur eru ekki taldar geta legið í gólfum — „og lagt gólfefni og annað slíkt. Það er það sem maður verður oft að taka sér fyrir hendur.“

Ég bið þingheim að lesa þessar tvær greinar, þetta er með hreinum ólíkindum. Að svona lagað skuli geta gerst mörgum árum eftir að lög um jafnan rétt karla og kvenna voru sett hér á Alþingi bendir ekki til að þau hafi haft mikil áhrif eða félmrn. séð um að þau væru kynnt þannig að önnur eins ósköp eins og þetta gætu ekki átt sér stað. (Gripið fram í.) Ég vil því biðja hæstv. félmrh. þó að hún sé ekki stödd hér í salnum í augnablikinu að ganga fram í því að kanna hvernig ráðuneytið eða yfirvöld í landinu geti brugðist við. Ég sé ekki betur en hvert einasta orð sem þessi góði forstjóri, sem meira að segja er ættaður úr Hafnarfirði, segir varði beinlínis við íslensk lög. Þetta vil ég biðja hv. þingheim eða hæstv. forseta að sjá um að komist til skila til hæstv. ráðherra.