04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7400 í B-deild Alþingistíðinda. (5446)

Þinglausnadagur

Forseti (Jón Kristjánsson):

Ég vil upplýsa hv. 6. þm. Norðurl. e. um að ég gerði reyndar grein fyrir því í upphafi fundar hvernig fundahöldum yrði háttað í dag. Kl. 4 munum við fresta fundi til kl. 17.30, en setja þá fund og reyna að ljúka þeirri dagskrá sem við erum með nú. Það ætti að takast ef ekkert óvænt kemur upp á án þess að hafa kvöldfund í kvöld, en ég hélt reyndar opnum þeim möguleika.

Ætlunin er á morgun að hafa fund í Sþ. kl. 10. Hann verði í styttra lagi og það verði fundir í þessari deild að honum loknum. Þetta er reyndar háð því að Ed. takist að afgreiða frv. um virðisaukaskatt á þessum degi. Það má reikna með þingfundum á föstudag og þá fundum í deildum eða Sþ. Það er ekki endanlega ákveðið enn. (Gripið fram í: Kvöldfund þá?) Það er ekki búið að ákveða það enn, en það fer eftir því hvernig vinnst þangað til. Við reynum að komast hjá kvöldfundum ef hægt er. En það má búast við að fundahöld verði stíf fram að helgi því það er ætlunin að þinglausnir verði á þriðjudag ef þær áætlanir standast og við þurfum að hafa á spöðunum í að afgreiða þau mál sem okkur hafa verið fengin og ætlunin er að afgreiða fyrir þinglok.

Ég hef reynt undanfarið að taka þau þmfrv. á dagskrá sem eftir er að mæla fyrir og ég mun taka það til athugunar eftir því sem möguleikar eru til. Það eru einhverjir fleiri en hv. 6. þm. Norðurl. e. sem eiga mál inni enn þá og ég mun skoða hvort möguleiki er að menn geti mælt fyrir málum. Hins vegar höfum við að venju látið þau stjfrv. ganga fyrir sem ákveðið hefur verið að afgreiða og gera að lögum fyrir þinglok.

Þetta eru vafalaust ekki tæmandi upplýsingar um þinghaldið, en ég vona að það gefi hv. 6. þm. Norðurl. e. nokkra vísbendingu um hvað fram undan er.