04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7401 í B-deild Alþingistíðinda. (5447)

454. mál, viðskiptabankar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er komið á dagskrá að nýju mál sem mælt var fyrir fyrir allnokkru síðan þegar hæstv. viðskrh. fékk hér sérstaka þjónustu og mælti fyrir málinu. Það var síðan lagt til hliðar og umræðum um það frestað um allnokkra hríð. Nú er reyndar hæstv. viðskrh. ekki sjáanlegur í salnum. Ég byrja þess vegna á því, herra forseti, að fara fram á að það verði kannað hvort hæstv. bankamálaráðherra hyggist ekki vera hér við umræðuna. Ef hann er upptekinn annars staðar eða af einhverjum ástæðum ekki viðlátinn held ég að æskilegra væri að fresta þessari umræðu enn. (Forseti: Það verður kannað.) Enda mundi okkur ekki muna mikið um að bíða í einn eða tvo sólarhringa í viðbót, herra forseti, úr því að við höfum orðið að leggja framsöguræðu hæstv. viðskrh. á minnið allan þennan tíma sem var ekki létt verk.

En ég get út af fyrir sig byrjað að ræða málið á meðan það er athugað hvar hæstv. viðskrh. sé. (Gripið fram í.) Þó að sá fyrrv. sé maður fyrir sinn hatt og sinn snúð kemur það samt ekki í sama stað niður og að hafa hæstv. núv. viðskrh. (Forseti: Ég vil biðja hv. þingdeildarmenn og alla núv. og fyrrv. ráðherra að hafa hljóð. Ræðumaðurinn hefur orðið. En hæstv. viðskrh. er í húsinu og hann mun áreiðanlega birtast hér innan tíðar.) Já, það er nú gott og blessað.

Um frv. er það að segja, herra forseti, að þar eru að slepptri einni greininni á ferðinni nokkrar sjálfsagðar leiðréttingar og lagfæringar á gildandi lögum um viðskiptabanka, sem eru reyndar ekki gömul, eða frá því í júlímánuði 1985. Það sem er m.a. verið að tryggja betur en gert var í þeim lögum — og var það þó meiningin þegar endurskoðuð voru lagaákvæði um viðskiptabanka á sínum tíma — eru ákvæði sem koma fyrir í 2. gr. þessa frv. En þar segir, með leyfi forseta:

„Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar og ábyrgðir bankans, þar með um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Reglur þessar skal endurskoða eigi sjaldnar en árlega og skulu þær sendar bankaeftirlitinu sem láta skal í té álit á þeim hverju sinni.“

Þessi setning kemur í staðinn fyrir það sem fyrir stendur í lögum um viðskiptabanka og er svohljóðandi: „Bankaráð setur og að fenginni umsögn bankastjórnar almennar reglur um lánveitingar bankans sem sendar skulu bankaeftirlitinu.“

Eins og hv. þingdeildarmenn sjá eru hér á ferðinni allmiklu ítarlegri ákvæði þar sem það kemur beinlínis inn í bankalögin að það skuli vera hlutverk bankaráðanna að fenginni umsögn bankastjórnar að setja almennar reglur ekki bara um lánveitingar heldur líka um ábyrgðir bankans og þar með um hámark lána til einstakra lántakenda og tryggingar fyrir lánum. Þetta er að mínu mati, herra forseti, mjög mikilvæg viðbót og ég styð eindregið að þessar breytingar verði gerðar á bankalögunum.

Það væri freistandi að rifja upp kunnug dæmi — ekki þarf að fara mjög langt aftur í tímann til að sækja það — því til rökstuðnings að skynsamlegt sé að hafa alveg skýlausar reglur í lögum um það að fyrirgreiðsla bankanna þurfi að vera innan einhverra hóflegra marka þegar um einstaka viðskiptavini þeirra er að ræða. Þar þurfi menn að styðjast við ákveðnar fastmótaðar reglur sem eru endurskoðaðar árlega og bankaeftirlitið hefur samþykkt.

Ég held að allir sem eitthvað þekkja innviði íslenska bankakerfisins viti að eitt af mörgu sem gerir það valt og veikburða og kannski hættulegt er sú staðreynd að þar eru margir smáir aðilar oft og tíðum að þjóna viðskiptavinum sem eru þeim í raun og veru ofvaxnir. Það leiðir sjálfkrafa til þeirrar stöðugu hættu að fyrirgreiðsla við einstaka viðskiptavini bankanna, og sparisjóðanna ekki síður, verði óeðlileg mikil sem hlutfall af heildarumsvifum viðkomandi stofnunar.

Um 2. gr. frv. er því allt gott að segja að mínu mati, herra forseti, og ég tel sjálfsagt að gera á bankalögunum þær breytingar sem þar eru lagðar til. Eins og forseti og aðrir hv. áheyrendur hafa tekið eftir geymi ég mér umfjöllun um 1. gr. frv. því að ég ætla að enda á henni.

Í 3. gr. eru einnig gerðar breytingar sem ég tel verða til bóta. Þær eru í raun og veru sjálfsagðir hlutir, það sem var kallað í gamla daga „selvfölgeligheder“. Það er svo sem allt í lagi að hafa þær í lögunum úr því að menn sjá ástæðu til þess. 3. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„2. mgr. 33. gr. laganna hljóði svo: Bankaráðsmenn skulu ekki taka þátt í meðferð máls er varðar viðskipti þeirra sjálfra eða fyrirtækja sem þeir eiga hlut í, sitja í stjórn hjá, eru fyrirsvarsmenn fyrir eða eiga að öðru leyti verulegra hagsmuna að gæta í. Sama gildir um þátttöku bankaráðsmanna í meðferð máls er varðar aðila sem eru þeim tengdir, persónulega eða fjárhagslega.“

Hér er fyrst og fremst verið að ganga tryggilegar frá því en áður var að nauðsynlegur aðskilnaður sé á milli annars vegar ákvarðanatöku í bankaráðunum og hins vegar hvers kyns hagsmuna viðskiptaaðila bankanna, hvort sem þar er um persónuleg eða fjárhagsleg tengsl að ræða. Hlýtur það enn fremur að teljast sjálfsagt, þó að ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki þaullesið saman þessi ákvæði við gildandi lagaákvæði og er ekki alveg með það á hreinu í hverju munurinn liggur. Eitthvað er þó rætt um það í 3. gr. þar sem vikið er að því að nauðsynlegt sé að tryggja að hagsmunaárekstrar verði ekki í þessum tilfellum.

Það er reyndar svo með íslenskan stjórnarfarsrétt að þar eru fátæklegar reglur, eins og hér er sagt, um hagsmunaárekstra. „Rétt þykir“ — eins og hér segir — „í samræmi við starfsáætlun ríkisstjórnarinnar, að gera í lögum strangar kröfur um svo mikilvægar stofnanir sem banka þar sem hagsmunaárekstrar geta haft meiri afleiðingar en oft endranær og því er afar mikilvægt að tryggja óháðar ákvarðanir. Þessi ákvæði eru hliðstæð þeim sem eru í bankalöggjöf nágrannalanda skv. upplýsingum bankaeftirlits Seðlabankans.“

Þetta mun allt gott og blessað en ég vil þó sérstaklega lýsa þeirri skoðun minni að ég held að ekki sé síður ástæða til að fara yfir lögin um sparisjóði í þessu efni. Ég hef þau að vísu ekki hér við höndina þannig að ég geti sagt að hve miklu leyti hliðstæð ákvæði er þar að finna. En þar er, eins og við vitum, staðið öðruvísi að stjórnun stofnananna en. (Dómsmrh.: Frv. til laga um breytingu á lögum um sparisjóði var flutt hér í þinginu þar sem þessum ákvæðum er líka breytt til samræmis við þetta.) Það er gott að hæstv. bankamálaráðherra hefur hér upplýst að það sé einnig farið yfir þessi atriði hvað varðar sparisjóðina í frv. sem er sömuleiðis til meðferðar í þinginu. Það er gott því að samkvæmt minni takmörkuðu þekkingu á þessum málum sýnist mér að þörfin sé jafnvel enn meiri hvað varðar sparisjóðina. Enda er þar um mjög margar og smáar stofnanir að ræða sem oft starfa í tiltölulega fámennum byggðarlögum. Þar vill hættan verða sú að þessir hlutir lendi um of á fáar hendur. Um 3. gr. frv. er því hið sama að segja og um 2. gr. að þar er um eðlilegar lagfæringar að ræða að því er virðist.

Um 4. gr. hef ég ekki mikið að segja. Þar virðast vera sjálfsagðir hlutir á ferðinni um skyldur Ríkisendurskoðunar og svo enn fremur að skoðunarmaður skuli vera löggiltur endurskoðandi.

5. gr. frv. lýtur að þeim hlutföllum sem ákveðið var með bankalögunum á sínum tíma að gilda skyldu milli bókfærðs verðmætis fasteigna og búnaðar sem hver og einn banki á og notar til starfsemi sinnar og svo hins vegar eigin fjár bankans. Þessar reglur munu settar vegna þess að uppi var viss ágreiningur um það hvernig túlka skyldi þann frest sem gefinn var við setningu laganna á sínum tíma. Menn hafa skilið það svo að menn væru í raun og veru óbundnir af þessu hlutfalli þangað til aðlögunartíminn allur væri uppi, ef ég hef skilið þessa deilu rétt. Hér er hins vegar gert ráð fyrir því að þetta skuli þrepast niður fyrir þetta lágmark — og það er skynsamleg ráðstöfun — og bankarnir hefji nú þegar frá og með gildistöku þessara laga undirbúning að því að fullnægja ákvæðum bankalaganna einnig að þessu leyti og sem fyrst í stað þess að geta leikið sér með þetta hlutfall eins og þeim sýnist án þess að vera bundnir af neinu öðru en að hafa það í tilskildu horfi einmitt þegar fresturinn er útrunninn.

Síðan kem ég, herra forseti, að upphafinu, þ.e. 1. gr. Ég hef af tilteknum ástæðum geymt mér að ræða hana. Hún er á þá leið að inn í 5. gr. laganna um viðskiptabanka komi nýr málsl. svohljóðandi:

„Bönkum og viðurkenndum fjármálastofnunum, sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis, skal þó heimilt að eiga á hverjum tíma samtals allt að 25% hlutafjár.“

Síðan er vitnað til þess í umsögn um þessa 1. gr. að í lögum sem sett voru um stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands var bönkum sem eiga lögheimili og varnarþing erlendis heimilað að eiga á hverjum tíma samtals allt að 25% hlutafjár í Útvegsbanka Íslands hf. Hér er sem sagt lagt til að sett verði almenn ákvæði í lög um viðskiptabanka sem varði heimildir erlendra banka til að eiga allt að fjórðungi hlutafjár í hlutafélagabönkum hér á landi sem fyrir eru og þeim sem stofnaðir kynnu að verða. Ef t.a.m. ríkisbankarnir yrðu á næstu árum gerðir að hlutafjárbönkum væru fyrir hendi almenn ákvæði í lögum um viðskiptabanka sem gerðu það að verkum að erlendir bankar gætu hvenær sem er labbað inn og keypt fjórðung hlutafjár í þessum bönkum.

Ef Útvegsbanki Íslands hf., sem nú er hlutafélagabanki, seldi nú einum erlendum banka 25% af sínu hlutafé. Síðan yrði Landsbanki Íslands gerður að hlutafélagabanka, sem einhverja dreymir víst um. Þá gæti sami útlendi banki komið daginn eftir og keypt 25% af hlutafjáreign í Landsbanka Íslands sem þá væri orðinn hf. og héti kannski Íslandsbanki upp á punt. Hvað væri þá að gerast, herra forseti? Það væri að gerast að einn útlendur banki, t.d. skoskur eða vestur-þýskur, væri búinn að kaupa 25% hlutafjár í tveimur stærstu viðskiptabönkum sjávarútvegsins á Íslandi.

Ég held að menn þurfi virkilega að gera sér grein fyrir því hér um hvaða stefnumarkandi tímamótaákvörðun væri að ræða ef þetta frv. næði fram að ganga. Ekki það að líklegt sé að þessir hlutir gerðust allir alveg á næstu árum sem ég var hér að taka dæmi um, það er ekki það sem skiptir máli, heldur sá hugur sem hér er á bak við, sú stefna sem birtist í þessum frumvarpsflutningi.

Það var lengi svo, herra forseti, að um tiltekin atriði var býsna víðtæk pólitísk samstaða á Íslandi.

Eitt af þessum málum var það að verja íslenskan sjávarútveg fyrir ágangi og áhrifum útlendinga. Það kom fyrir að þetta var eitt af fáum atriðum, ef ekki það eina, sem talsmenn allra stjórnmálaflokkanna í landinu gátu orðið sammála um á pólitískum fundum, að hvað sem taufar og raular skyldu menn standa saman í hagsmunagæslunni fyrir Íslands hönd og verja íslenska sjávarútveginn, íslensku landhelgina og þá brýnu hagsmuni sem þar eru á ferðinni, sjálfa undirstöðuna undir sjálfstæðu þjóðríki á Íslandi, fyrir áhrifum útlendinga vegna þess að það væri óaðskiljanlegt sjálfu sjálfstæði þjóðarinnar að við hefðum óskoraðan forræðisrétt yfir þessum hlutum. Nú kveður við nýjan tón.

Ég hygg að það hafi verið hv. þm. 2. Vestf. Ólafur Þ. Þórðarson sem var hér að búa til málskviðinn „að þjóðnýta hlutina aftan frá“, hvort sem það átti við tapreksturinn í sjávarútveginum og þá þjóðnýtingu sem væri að eiga sér stað í gegnum þá stöðu. Það hefur líka stundum verið talað um að útlendingar væru að komast bakdyramegin inn í íslensku landhelgina. Þeir voru sendir þaðan á brott með útfærslu landhelginnar og algerri samstöðu íslensku þjóðarinnar, þar með talið íslensku stjórnmálaflokkanna, í þeim efnum þegar tókst að draga Alþfl. og Sjálfstfl. með, þeir voru búnir að jafna sig eftir „viðreisn“. En það er kannski til lítils að vera að rifja það upp nú ef menn ætla að opna bakdyrnar upp á gátt þó að aðalhliðunum hafi verið læst sæmilega tryggilega og nú séu nánast í höfn þau réttindi sem Íslendingar gerðust þá brautryðjendur fyrir fyrir hönd allra strandríkja og eyþjóða heimsins á sínum tíma þegar þeir drógu vagninn í baráttu þessara þjóða fyrir viðurkenningu á rétti sínum til auðlinda hafsins í kringum sínar strendur. Til hvers er þá orðið okkar starf í þeim efnum, okkar brautryðjendastarf í því að tryggja strandríkjum rétt í landhelgi og efnahagslögsögu ef við galopnum svo okkar eigin bakdyr með þessum hætti?

Síðan er það svo, herra forseti, að ég hygg að röksemdafærslan, þegar hún er skoðuð, fyrir því að hleypa útlendum bönkum inn í bankakerfið og leyfa þeim sem slíkum að eiga hluta af íslenska bankakerfinu, sé harla sérkennileg að mínu mati. Það er sagt: „Með þessu móti kemur erlent áhættufé í stað lánsfjár að nokkru leyti auk þess sem þessi breyting greiðir fyrir öflun þekkingar og viðskiptasambanda erlendis sem erlendir hluthafar gætu miðlað til íslenskra banka. Á tímum hraðstígrar tækniþróunar og samkeppni gæti þetta eflt íslenska bankastarfsemi.“ Ég verð að segja alveg eins og er að þegar menn bera, með þínu leyfi herra forseti, svona „prump“ á borð fyrir hv. alþm. í röksemdafærslu fyrir flutningi meiri háttar stefnumarkandi þingmála, að þetta sé svona eins og að fara á námskeið, þetta sé eins og að mennta starfsfólk eða eitthvað af því tagi, það sé þess virði að opna íslenska bankakerfið upp á gátt fyrir útlendingum og hleypa þeim hér inn með allt að 25% hlutafjáreign í þess vegna öllum bönkum landsins til að ná í þekkingu, til að greiða fyrir öflun þekkingar og viðskiptasambanda erlendis, með fullri virðingu, þá er þetta varla viðeigandi. Það er varla viðeigandi að tala með þessum hætti. Hvað er það svo sem sem háir íslenska bankakerfinu í þessum efnum í dag? Ég veit ekki betur en að það þyki ágætlega nýtískulega rekið. Ég veit ekki betur en að tölvuvæðing t.d. hjá Reiknistofnun bankanna og beinlínutenging bankastofnana út um allt land sé með því besta sem þekkist í heiminum. Nú hristir hæstv. bankamálaráðherra höfuðið og við skulum þá ræða þetta ofurlitið nánar. Ég þekki nefnilega sérfræðinga hjá Reiknistofnun bankanna sem ég veit að fara oft á hverju ári til útlanda til að ráðgast þar við starfsbræður, til að sækja námskeið fyrir frammámenn bankamála og tölvuþjónustumála í bankakerfinu í heiminum, t.d. í London þar sem er ákveðin miðstöð slíkra hluta sem ég veit að hæstv. bankamálaráðherra veit líka, og þessir menn bera höfuðið ekkert lágt þegar þeir koma heim af slíkum samráðsvettvangi. Ég held að þeir telji sig fylgjast ágætlega með því sem er efst á baugi hverju sinni í þessum efnum. Ég hef ekki orðið var við það t.d. að það væri neitt sem við þyrftum að gerast sérstakir beiðendur um af hálfu annarra þjóða í þessum efnum. Það getur vel verið að við eigum enn nokkru verki ólokið í því að setja upp slík kerfi og koma þeim fullkomlega til að verka og koma þeim í framkvæmd, en ég leyfi mér að fullyrða að það skortir ekkert upp á að við höfum þá tækniþekkingu og þau sambönd sem þarf til að afla þessarar þekkingar nú þegar og það þurfi ekkert með neina hlutafjáreign erlendra banka í íslenskum bönkum að gera, ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég sé ekki að okkur séu ekki ýmsar leiðir færar til að nálgast hvað það í þessum efnum sem við kynnum að telja okkur akk í að fá, algerlega burt séð frá eignarhlutföllum og eignarstöðu í íslenska bankakerfinu. Það hefur ekkert með það að gera hvort íslenskir bankar eru áfram ríkisbankar eða ekki hvort útlendingar eigi í þeim eina einustu krónu eða ekki að mínu mati.

Mér er ekki kunnugt um það a.m.k. að þekkingaröflun af þessu tagi sé bundin eða torvelduð þannig að okkur sé umhendara að nálgast slíkar upplýsingar eða mennta okkar starfsfólk í þessum efnum en öðrum.

Varðandi það að með þessu móti komi erlent áhættufé í stað lánsfjár geta menn lengi velt þeirri spurningu fyrir sér hvernig er best að taka erlend lán. Hvað kemur í bráð og sérstaklega í lengd best út fyrir íslenskan þjóðarbúskap í þeim efnum?

Nú er það svo, og það vita væntanlega allir, að útlendar peningamálastofnanir; allra síst útlendir bankar, standa ekki í góðgerðarstarfsemi. Þetta eru ekki líknarfélög, erlendir bankar, þannig að það er ekki líklegt að þátttaka þeirra í íslenska bankakerfinu, hvorki í þessu formi né öðru, sé af einhverri væntumþykju með Íslendingum tilkomin eða verði tilkomin í formi líknarstarfsemi. Ég hygg að þeir aðilar mundu gera sambærilegar ávöxtunarkröfur um hverja þá krónu sem þeir legðu í slíkan rekstur og þeir gera hreinlega annars staðar. Og mér er það stórlega til efs að það sé endilega gáfulegasta aðferðin fyrir okkur ef við þurfum að ná í erlent lánsfé, því að auðvitað væri þetta ekkert annað þegar til kastanna kemur, því að ávöxtun af því fé sem útlendingarnir legðu inn í þetta mætti þá í raun og veru líta á sem iðgjöld af þeim lánum sem við höfum tekið, afborganir af þeim lánum. Mér er stórlega til efs að það sé mjög gáfuleg hugmynd að sækja peninga til útlanda með þessum hætti til að leggja í hlutafjáreign íslenskra banka vegna þess að slíkt mundum við ekki aðeins endurgreiða með ávöxtuninni til baka heldur látum við líka af hendi völd og ákveðið sjálfsforræði um leið og útlendingar eignast hér hlut. Ætli það sé ekki þannig að þegar til kastanna kemur er það tvennt sem er algerlega afgerandi hvað varðar efnahagslegt sjálfstæði landsins og möguleika okkar Íslendinga á því að stjórna okkar efnahagslífi hér út frá eigin forsendum sem sjálfstæðri þjóð? Það er gengisskráningin og það eru tök ríkisvaldsins í bankakerfinu til að þjónusta atvinnuvegina, sérstaklega útflutningsatvinnuvegina, með tilteknum hætti þegar á þarf að halda.

Ég leyfi mér að segja að það hafi oft og tíðum ekki verið minna atriði til að halda sjó á erfiðleikatímum að menn höfðu hér öfluga ríkisbanka sem hægt var að pína til þess að láta sinna ákveðnu þjónustuhlutverki þegar á þurfti að halda. Svo geta menn haldið langar, langar, langar frjálshyggjuræður fyrir mér, að það eigi hver að bjarga sér og þeir eigi að drepast sem drepast vilji o.s.frv. En það breytir ekki því að íslenska þjóðin lifir á því að flytja út sjávarvörur og er algerlega háð því að sú starfsemi geti gengið, hefur ekkert annað að flýja. Þannig verður það um langa, langa framtíð. Þó að upp kunni að gjósa við og við, einu sinni á áratug eða einu sinni á 25 árum eða svo einhverjir stóriðjudraumar sem síðan renna út í sandinn virðist þetta vera ein af hinum varanlegu staðreyndum íslensks efnahagslífs, að auðlindir sjávarins kringum landið eru hinn eiginlegi banki þjóðarinnar. Þangað sækjum við þau verðmæti sem að mestu leyti standa undir allri okkar innflutningsverslun.

Herra forseti. Ég tel að þetta mál hafi ekki hlotið nálægt því næga athygli á hinu háa Alþingi. Þetta er að mínu mati eitt af stærstu málunum sem lögð hafa verið inn á þingið vegna þess að hér er í raun og veru boðað slíkt fráhvarf frá stefnu sem ég hef leyft mér að vona og trúa að væri þokkaleg pólitísk samstaða um á Íslandi og það er að verja þessa hluti fyrir ásælni og ítökum útlendinga. Það gefur alveg auga leið að einhver stysta leiðin fyrir útlendinga til áhrifa í þessum efnum er í gegnum bankakerfið ef þeir fá að komast inn í það beint. Það væri krókóttari leið út af fyrir sig fyrir erlent fjármagn að kaupa sér völd og áhrif með því að tína upp einstök fyrirtæki og komast þannig í valdaaðstöðu. Það að ná ítökum í sjálfu bankakerfinu er allra, allra best og fljótlegast og það vita allir að áhugi erlends auðmagns á íslensku efnahagslífi er fyrst og fremst á sjávarútveginum. Menn horfa til orkunnar með vissum hætti, en þar er ekki um sambærilega hluti að ræða. Hin eiginlega stóriðja Íslands er sjávarútvegurinn og það er líklegt að auðlindirnar kringum Ísland, ef við verðum ekki fyrir slysum og þær mengast ekki eða skaðast ekki með einhverjum stórfelldum hætti á næstu árum, verði litnar girndarauga í vaxandi og vaxandi mæli af þeim þjóðum sem búa við mengun og rányrkju á heimaslóðum. Við munum því þurfa að standa enn betur á verðinum en við höfum gert hingað til í þessum efnum.

Herra forseti. Það mætti margt um þetta segja. Það væri t.d. gaman að heyra skoðun þeirra manna á því, sem telja eftirsóknarvert að ná erlendu áhættufé inn í bankarekstur, hvort það séu sérstök rök að þörf sé á áhættufé inn í bankarekstur. Ég hef leyft mér að halda að við Íslendingar ættum okkur framtíðarsýn af því tagi að á flestum öðrum stöðum vildum við sjá þörf fyrir áhættufé — þá tek ég orðið alvarlega, „áhættufé“ — en í bankarekstri og það væri frekar ástæða til þess að leyfa takmarkaða hlutafjáreign útlendinga á öðrum sviðum eins og við alþýðubandalagsmenn höfum verið tilbúnir að gera, þó með þá skýru meginreglu í heiðri að forræði Íslendinga væri ævinlega tryggt og ævinlega væri um íslenska meirihlutaeign að ræða.

En mér finnst satt best að segja nokkuð kúnstug röksemdafærsla að það sé þörf á útlendu áhættufé inn í bankareksturinn sem slíkan. Er þá verið að gefa í skyn að hinir nýju hlutafélagabankar framtíðarinnar eigi að verða slíkur áhætturekstur að þar verði hættan á afföllum á íslensku fé svo mikil að það sé gott að fá útlendinga með okkur til að dreifa byrðunum þegar sé að rúlla einn og einn hlutafélagabanki? Það mætti halda það.

Ég hef áður rætt um öflun þekkingar og viðskiptasambanda erlendis. Hvað viðskiptasamböndin snertir sérstaklega hefur manni skilist að það væri enginn skortur á því, Íslendingar nytu ágætis lánstrausts erlendis, fengju oft og tíðum, bæði í einstökum lánasamningum og í stærri lánsfjárútboðum, góð kjör, með því besta sem þekktist. Eitt af því sem hefur auðvitað verið nefnt þar til sögunnar eru íslensku ríkisbankarnir sem njóta trausts. Útlendingar sem eitthvað þekkja til í fjármálaheiminum vita jafn vel og við að þessir bankar sem ríkisbankar hafa sterka stöðu og eru vel tryggðir svo fremi sem þjóðin haldi sínu efnahagslega sjálfstæði, auk þess sem allir stærri bankarnir íslensku eru í ágætis samningum, samkomulagi og samstarfi við erlendar bankasamsteypur. Mér er ekki kunnugt um annað en að íslensku bankarnir hafi nú þegar hin ágætustu samskipti við erlendar bankasamsteypur og ég sé ekki hvað ætti í sjálfu sér að batna stórlega við það þó að einhverjir erlendir bankar gerðust hluthafar í íslenska bankakerfinu.

Ég held, herra forseti, og það er mín afstaða og míns flokks, að eitt af því síðasta sem við Íslendingar ættum að ljá máls á að útlendingar færu að vera hér með puttana í sé rekstur bankakerfisins. Sérstaklega hefur það verið okkar afstaða að hér eigi að vera ríkisbankar, a.m.k. og gjarnan tveir öflugir ríkisbankar sem geti sinnt þeim skyldum og veitt þá þjónustu sem menn gera öðru fremur kröfur um til ríkisbanka. Ég hygg að það kerfi hafi gefist okkur Íslendingum vel og með okkar einhæfa atvinnulíf og sveiflur í því, til að mynda stórar sveiflur í afla og tilheyrandi tekjum atvinnugreinarinnar sem slíkrar, sjávarútvegsins, og einnig í útflutningstekjum þjóðarinnar þar með, þá hafi reynst valt að treysta á hlutafjárbanka í þeim efnum og kostir þess að þar væri þá um ríkisbanka að ræða séu ótvíræðir.

Síðan finnst manni það harla furðuleg árátta, svo að ekki sé nú meira sagt, sem fyrst og fremst virðist vera af mér liggur við að segja hugsjónalegum eða a.m.k. póltitískum toga, það er hreinlega þessi sókn í að fá útlendingana inn bara út af fyrir sig, burt séð frá öðru, sem mér finnst vera hér að verki, þar sem rökstuðningurinn, léttvægur sem hann er, er eiginlega aukaatriði. Það liggur við að manni finnist að það sé aðalatriði hreinlega að útlendingarnir komi og fari hér að valsa um. Það er eins og trú manna sé fyrst og fremst á að þá gufi vandamálin upp. Það er vinsælt efni í sambandi við vaxtamálin að trúa því að með því að kalla til aðstoðar erlenda bankastarfsemi leysist það allt saman af sjálfu sér. Kannski byrjum við að ræða þessa hluti frá öfugum enda, herra forseti, og ættum fyrst að varpa fram spurningunni: Á Ísland að halda því til streitu að vera sjálfstæð þjóð með efnahagslegt sjálfstæði og sjálfstæðan gjaldmiðil? Er það kannski svo að það sé nauðsynlegt að byrja á að fá svar við þeirri spurningu: Ætlum við að vera stjórnmálalega, efnahagslega sjálfstæð þjóð og verja það sjálfstæði og tryggja okkar óskoruðu yfirráð í þeim efnum? Ef við svörum þeirri spurningu játandi, sem ég trúi og veit að allir munu gera, ég trúi ekki öðru, að ég eigi eftir að lifa þann dag í þessari virðulegu stofnun að önnur svör komi við því, þurfum við líka að skilgreina fyrir okkur þær varnarlínur sem við teljum að megi ekki bresta, megi ekki rjúfa til að standa vörð um þetta efnahagslega sjálfstæði. Ég held að óskert yfirráð Íslands í bankakerfinu og fjármálaheiminum út af fyrir sig séu nánast algerlega ómissandi hluti af því.

Menn urðu sammála um að það væri orðin alger nauðsyn fyrir efnahagslegt sjálfstæði Íslands að ná fullum yfirráðum yfir allri landhelginni. Það væri að stefna sjálfstæði okkar og efnahag í voða að við gætum ekki ein stýrt nýtingu þeirrar auðlindar. Í fyrsta lagi þyrftum við á henni allri að halda og í öðru lagi og kannski ekki síður þyrftum við sjálf að geta stýrt nýtingu auðlindarinnar, ráðið því hvernig fiskstofnarnir voru nýttir o.s.frv. Þetta tvennt er í raun og veru alveg hliðstætt hér. Að mínu mati þurfum við sjálf að geta ráðið öllu þessu kerfi, íslenska bankakerfinu og fjármálakerfinu. Ef það eru 25% í dag, hvað getur það þá orðið á morgun? Ef við búum til hlutafélagabanka úr ríkisbönkunum sem þjónusta sjávarútveginn, svo lendir sjávarútvegurinn í erfiðleikum, það kemur niðursveifla og bankinn lendir þar með í erfiðleikum. Á grundvelli kenningar frjálshyggjunnar á hann að bjarga sér sjálfur, hann á að fara á hausinn eða lifa eftir því sem vindarnir blása og svo segja menn bara: Honum var nær. Og hvað gerist svo þegar þessi banki er í erfiðleikum, samfara niðursveiflu eða kreppu í íslenska efnahagslífinu og meðeigandinn er stór og voldugur og ríkur útlendur banki? Verður þá ekki freistandi að segja sem svo: Heyrðu, við leysum þetta einfaldlega með því að selja þessum risa 15% í viðbót. Þá verður hann orðinn 40% eigandi o.s.frv.

Þetta er spurningin um það, herra forseti, hvort menn ætla að opna dyrnar eða ekki. Þegar löppin verður komin yfir þröskuldinn eins og hér er flutt till. um veit enginn hvenær allur skrokkurinn eða mestallur skrokkurinn fylgir á eftir. Hér er verið að taka upp grundvallaratriði, prinsippmál, mjög stórt prinsippmál og það er merkilegt og reyndar til skammar hversu fáir hv. alþm. virðast hafa á því áhuga eða nenna að fylgjast með þessum umræðum.

Ég hafði satt best að segja, herra forseti, vegna þess líka að ýmsir hv. þm. úr stjórnarliðinu hafa fengið að vera pínulítið lausbeislaðir í afstöðu sinni til einstakra mála í vetur og svo fremi sem þeir samþykki ekki vantraust á ríkisstjórnina virðist vera í lagi að þeir dansi dálítið frítt, ég hafði vonast til þess að það mundu rísa upp á afturlappirnar þingmenn úr öllum stjórnarflokkunum, a.m.k. bæði úr Framsfl. og Sjálfstfl., og mótmæla þessu frv. harðlega. Ég hefði viljað sjá hér menn, sem þykjast a.m.k. á hátíðisdögum vera talsmenn íslensks sjávarútvegs, í Sjálfstfl. koma og segja: Nei, skítt með alla frjálshyggju, en þetta viljum við ekki. Enga útlendinga inn í íslenska bankakerfið og ekki inn í íslensku ríkisbankana eða hlutafélagabankana. Ég hefði skilið það þó kratar hefðu setið hljóðir og haldið í borðbríkina, þeir eru ýmsu vanir, en að menn skuli í öllu stjórnarliðinu ætla að sitja þegjandi undir þessu frv. og það er að mér skilst komið á forgangslista hæstv. ríkisstjórnar yfir mál sem á að afgreiða á þessu þingi. — Nú er kinkað kolli á tilteknum stað í salnum. Ef það á yfir okkur að ganga að þetta mál á að afgreiðast rétt eins og hvert annað smámál eru það orðin mikil tíðindi í íslenskum stjórnmálum, ég segi ekki annað en það, herra forseti, ef þetta er nú orðið fyrir mönnum eins og hvert annað smámál. Það er það a.m.k. ekki fyrir ræðumanni og er það alveg ljóst, herra forseti, að þetta verður þá ekki síðasta ræðan sem ég þarf að flytja um þetta mál áður en það fer héðan úr þingdeildinni þó að ég sé að hugsa um að fara að láta þetta gott heita í bili.

Ég fór yfir frv. frá fyrstu til næstsíðustu greinar, síðasta greinin er stutt um gildistökuna, og ég ætla að segja við hæstv. viðskrh. að ég er tilbúinn að standa að afgreiðslu þessa frv. ef 1. gr. verður felld niður. Um það getur orðið samkomulag við mig að afgreiða þetta frv. mínus 1. gr. hér og nú á þessu þingi því þar eru á ferðinni að mínu mati allt þarfar lagfæringar og leiðréttingar á gildandi bankalögum.

En um 1. gr. er stórpólitískur ágreiningur og ég spái hæstv. ráðherra því að ef þetta fer þá ekki hér í gegn með þeim hætti að menn verða bæði sofandi og heyrnarlausir, hv. þm. yfirleitt, þá eigi fleiri en ég eftir að setja á einhverjar ræður um þetta mál þegar það rennur upp fyrir mönnum hvílíkt stórprinsippmál er hér á ferðinni og hvaða dyr er í raun og veru verið að opna, að vísu ekki nema tiltölulega litla rifu að þessu sinni, en hvað afleiðingar það gæti haft í för með sér.

Herra forseti. Ég er að hugsa um að láta þetta duga að sinni, en mér hefði þótt vænt um ef hæstv. ráðherra hefði svarað því hvort hann væri tilbúinn til að ræða frekari meðferð frv. á þeim forsendum að það yrði þegar í stað ákveðið að leggja til hliðar þá grein frv. sem hér hefur verið lýst miklum ágreiningi um og sjá þá til hvort hv. Alþingi treystir sér ekki til að afgreiða það sem eftir stæði.