05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7429 í B-deild Alþingistíðinda. (5469)

487. mál, kostnaður vegna auglýsinga

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Um hátíðarnar voru afgreidd lög um staðgreiðslukerfi skatta. Í tengslum við þær umræður sem fram fóru um það frv. gerðum við kröfu til þess að fjmrn. efndi til kynningarstarfsemi þannig að þjóðin skildi sem best þær kerfisbreytingar sem uppi eru varðandi skattakerfið. Í góðri trú geri ég ráð fyrir að allir þingmenn hafi þess vegna talið eðlilegt að fjmrn. hefði 25,2 millj. kr. til sérstakrar kynningarstarfsemi vegna þessarar skattkerfisbreytingar. Hvað gerist síðan? Þessir fjármunir eru notaðir, misnotaðir í önnur óskyld verkefni til að auglýsa kosningaáróður Alþfl. frá kosningunum 1987 og færa hann inn í hinn pólitíska veruleika dagsins í dag. Þetta er siðlaust, herra forseti, og ég skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir því að þessu siðleysi af hálfu fjmrn. linni nú þegar.