05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7438 í B-deild Alþingistíðinda. (5487)

498. mál, atvinnunjósnir

Fyrirspyrjandi (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Þau voru skýr. Það er rétt eins og hann sagði í sínum lokaorðum að það var fyrst og fremst meining mín með þeim fsp. sem hér liggja fyrir að vekja athygli á mikilvægi þessa máls og ef einhverjir meinbugir væru þar á væri nauðsynlegt að setja þar um ákveðna og fasta reglu.

Ég ætti ekki að beina því að vísu til iðnrh., en þetta er lesning sem við sjáum í blöðunum og menn hrökkva óneitanlega við þegar hér stendur: Bankaleynd sem opin bók. Menn hljóta að hrökkva við.

Ég ætla ekki að fara að rekja einstök dæmi frá því sem ég gat um í mínum upphafsorðum, en vissulega gæti ég sagt þar margt. En ég treysti því að hæstv. ráðherra hafi fullan skilning á þessu máli og reyni að binda alla enda þar eins vel og hægt er.