05.05.1988
Sameinað þing: 77. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7444 í B-deild Alþingistíðinda. (5494)

508. mál, iðnráðgjöf

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Hæstv. forseti. Sem svar við fsp. vil ég segja eftirfarandi:

Stuðningur ríkisins við starf iðnráðgjafa á landsbyggðinni hefur verið með svipuðum hætti frá því hann hófst á árinu 1982. Iðnráðgjafar hafa verið ráðnir hjá samtökum sveitarfélaga, í landshlutum eða iðnþróunarfélögum og hefur ráðuneytið veitt ráðningaraðilum stuðning sem svarar beinum launakostnaði ásamt launatengdum gjöldum vegna eins starfsmanns í hverju kjördæmi. Þá hefur ráðuneytið greitt Iðntæknistofnun Íslands vegna samræmingar á störfum iðnráðgjafa. Iðnráðgjafar hafa verið starfandi í öllum kjördæmum utan Reykjavíkur nema á Vestfjörðum.

Eins og kunnugt er byggðist framkvæmd þessi á lögum um iðnráðgjafa sem hv. fyrirspyrjandi beitti sér fyrir að sett voru í lok árs 1981. Lög þessi voru eins konar rammalög sem m.a. kváðu á um heimild til að greiða úr ríkissjóði framlag vegna ráðningar iðnráðgjafa á vegum samtaka sveitarfélaga eða iðnþróunarfélaga. Einnig kváðu lögin á um helstu verkefni iðnráðgjafa. Lögin skyldu gilda til ársloka 1985 en voru síðan framlengd um eitt ár og féllu úr gildi í árslok 1986.

Eins og hv. fyrirspyrjandi man úr umræðum, sem þá áttu sér stað og ýmsir tóku þátt í, var sólarlagsákvæðið sett inn vegna þess að menn vonuðust til að heimamenn mundu vera í stakk búnir til þess jafnvel að taka við þessari starfsemi að fullu.

Stuðningur við þessa starfsemi er fyrst og fremst háður því hve mikið fé er veitt á fjárlögum í þessu skyni og hafa fjárveitingar undanfarin ár verið svipaðar að verðgildi. Hafa þær dugað til að styðja þessa starfsemi í sama mæli og þegar lögin voru í gildi.

Því er hins vegar ekki að leyna að sú óvissa sem skapaðist á sl. ári þegar tillaga iðnrn. um framhaldsstuðning við starfsemi iðnráðgjafa á þessu ári var að fullu skorin niður við undirbúning fjárlaga olli ráðningaraðilum miklum óþægindum og erfiðleikum. Fékkst fjárveitingin ekki tekin inn aftur fyrr en við 2. umr. fjárlaga. Í fjárlagafrv. var ákvörðun þessi rökstudd með því að engin lög um iðnráðgjafa væru í gildi og væri fjárveitingin af þeim sökum felld niður.

Við þetta gerði ég athugasemdir á sínum tíma og benti á að í raun þyrfti ekki lög um þessa starfsemi fremur en ýmsa aðra starfsemi sem styrkt er á fjárlögum án sérstakra fyrirmæla í almennum lögum. En í ljósi þessarar reynslu mun ég beita mér fyrir því að lög um iðnráðgjafa verði endurnýjuð á svipuðum grunni og þau lög sem í gildi voru og að stuðningur ríkisins við starfsemi iðnráðgjafa verði ekki minni en verið hefur. Iðnrn. mun leggja til við gerð fjárlaga að þetta verði tryggt fyrir árið 1989 og frv. til laga um iðnráðgjöf verður næsta haust lagt fyrir Alþingi þannig að ráðningaraðilar og iðnráðgjafar búi ekki við slíka óvissu sem á þessu ári um stuðning við þessa starfsemi.