05.05.1988
Neðri deild: 91. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7571 í B-deild Alþingistíðinda. (5621)

431. mál, virðisaukaskattur

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Enginn verður með orðum veginn, segir á einum stað. Allt er óvissu undirorpið, segir á öðrum, nema skatturinn og dauðinn.

Að lokinni þessari umræðu vil ég stilla orðum mínum mjög í hóf, þakka fyrir fróðlegar umræður. Margt af því sem fram hefur komið eru gamlir kunningjar úr fyrri umræðu skattkerfisbreytinganna.

Einn hv. þm. beindi til mín sérstaklega tveimur spurningum sem ég vil gjarnan reyna að svara. Það var hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson.

Hann spurði í fyrsta lagi: Hvaða fyrirheit liggja fyrir eða stefnumörkun að því er varðar niðurgreiðslur landbúnaðarafurða við upptöku virðisaukaskatts? Ég vek athygli hv. fyrirspyrjanda á skjali dags. 25. mars þar sem dregnar eru saman niðurstöður af athugunum fulltrúa þingflokka stjórnarliða um virðisaukaskattsfrv. Það var birt þingflokkunum undir fyrirsögninni „Frágangur virðisaukaskattsfrumvarps.“ Þar var gerð ítarleg grein fyrir þeirri breytingu sem var frá fyrra frv. til þessa að því er varðar innheimtu virðisaukaskatts í landbúnaði, sérstaklega vegna sölu til vinnslustöðva. Þetta plagg mun hafa verið rætt ítarlega við talsmenn samtaka bænda og leiddi m.a. til þeirrar niðurstöðu að það varð sameiginleg niðurstaða þeirra að í því formi sem frv. er nú væri hagsmunum bænda betur borgið en í eldri gerð frv. þar sem gert var ráð fyrir lægri skattprósentu.

Í þessu sama skjali er fjallað um niðurgreiðslur með þessum sama hætti. Þar segir, með leyfi forseta: Við upptöku söluskatts á flestar vörur í ársbyrjun 1988 var ákveðið að greiða niður verð á hefðbundnum landbúnaðarafurðum þannig að verð þeirra breyttist lítið sem ekkert. Nú hafa komið fram óskir um að fyrir lægi bindandi ákvörðun um óbreytt niðurgreiðslustig við upptöku virðisaukaskatts. Niðurgreiðslur eru sem kunnugt er ákveðnar með sérstakri fjárveitingu ár hvert. Samstaða er um það að við upptöku á virðisaukaskatti verði niðurgreiðslum hagað þannig að breytt skattkerfi hafi ekki í för með sér verðbreytingu á verði niðurgreiddra landbúnaðarvara.“ Vona ég að þetta svar sé fullnægjandi við fsp. hv. þm.

Seinni spurningin varðaði það hvort mér eða mínu ráðuneyti væri kunnugt um áform af hálfu þeirra sem nú búa við eins þreps undanþágulausan virðisaukaskatt um að hverfa frá því kerfi. Mitt svar er þetta: Það liggur fyrir mjög rækileg rannsókn á afleiðingum þess að hverfa frá eins stigs virðisaukaskatti í Svíþjóð. Sú rannsókn var gerð á vegum sænska fjmrn. á árunum 1983–1985. Hún var gerð af allfjölmennri nefnd sem hafði miklu sérfræðingaliði fjmrn. sænska á að skipa, en aðild að nefndinni átti m.a. sænska verkalýðshreyfingin. Ég hef áður vitnað í niðurstöður þessarar rannsóknar. Hún var mjög ótvíræð. Niðurstöður þessarar rannsóknar voru þær að það væri óhagkvæmara fyrir láglaunafólk sérstaklega og barnafjölskyldur sér í lagi með meiri en meðalframfærslubyrði að taka upp undanþágu á matvælum í stað þess kerfis sem þar ríkir. Ég ætla ekki að lýsa þessari niðurstöðu í ítarlegu máli úr þessum ræðustól. Ég hef gert það áður. Niðurstöðurnar hafa verið birtar áður. En sjálfsagt er að láta hv. þm. þessar niðurstöður í té.

Jafnframt höfum við upplýsingar um að tillögur hafa verið uppi af hálfu þingflokka á þjóðþingum bæði í Noregi og í Danmörku um að taka upp annaðhvort algera undanþágu eða lægra skattþrep á matvæli. Í báðum þessum þjóðlöndum hefur þeim tillögum verið hafnað þannig að eftir því sem ég hef bestar upplýsingar um hefur reynt á það ítrekað í þessum þremur Norðurlandanna, sem lengsta reynslu hafa af undanþágulausum virðisaukaskatti, hvort undanþágan væri í hag láglaunafólki í þessum þjóðfélögum og niðurstaðan orðið á sömu lund.

Herra forseti. Eins og ég sagði hafa þessar umræður verið fróðlegar. Það hefur ekki verið beint sérstökum spurningum til mín út af fyrir sig, en þó vil ég áður en ég lýk máli mínu drepa á tvennt. Í fyrsta lagi er það spurningin um hvort málið sé illa undirbúið. Það kom fram í máli hv. ræðumanna ýmissa að sú staðreynd að lagt er til að sett verði upp milliþinganefnd til að fjalla um upptalin álitamál sé til marks um að frv. sé illa undirbúið, jafnvel til marks um valdníðslu eða verið sé að framselja vald í hendur fjmrh. Þetta á ég dálítið bágt með að skilja. Hér er í langflestum tilvikum um að ræða að frv. sjálfu þarf að fylgja eftir með setningu reglugerðar. Venjan er sú að fela það ráðuneyti. Hér er farin sú leið að fela milliþinganefnd að fjalla um það sérstaklega þannig að fulltrúum Alþingis er þar með sérstaklega falið það verkefni að fylgjast með frá upphafi við undirbúning og setningu reglugerðar. Það hélt ég að væri lýðræðislegra, þingræðislegra en að fela það ráðuneytinu einu. Vissulega kemur sú spurning til álita hvers vegna eingöngu þingmönnum stjórnarliða. Svarið slíkt sem það er er að af málflutningi stjórnarandstöðu hefur mátt heyra að þeir væru andstæðingar þessa máls í heild sinni, þ.e. virðisaukaskattsfrv. Af minni hálfu kemur fyllilega til álita út af fyrir sig að endurskoða þá afstöðu.

Annað atriði varðar menningarstarfsemi. Í fyrsta lagi er þess að geta að í frv. eru undanþáguákvæði að því er varðar hugverk skapandi listamanna og í annan stað er kveðið á um að fela milliþinganefndinni sérstaklega að fjalla um reglur um framkvæmd virðisaukaskatts og útfærslu hans að því er varðar menningar- og listastarfsemi almennt. Ég segi fyrir mína parta að mér fannst málflutningur hv. 18. þm. Reykv. Þórhildar Þorleifsdóttur um þau mál geðþekkur og vera gott innlegg til stefnumörkunar í þeim málum. Í mínum huga stendur valið um þetta: Vilja menn skilgreina þá menningarstarfsemi nákvæmlega sem meiri hluti þings vill sérstaklega undanþiggja skatti? Það getur verið nokkurt vandaverk. Langsamlega stærstu fjárhæðirnar sem hér er um að ræða eru aðgöngumiðasala hvers konar vegna samkomuhalds af öllu hugsanlegu tagi sem flokkast undir tómstundaiðju, skemmtanahald eða menningarástundun eða -neyslu. Ef litið er yfir það svið er trúlegt, þótt ekki byggi ég þar á nákvæmum áætlunum, að langsamlega stærstu fjárhæðirnar snúist um hluti eins og skemmtanir samkomuhúsa, popptónleika, blandaðar skemmtanir, sambland af popptónleikum og dansleikjum, íþróttasýningar, íþróttakappleiki sem reyndar eru sérstaklega undanþegnir í þessum lögum.

Mitt sjónarmið er það að þarna kunni að vera stundum erfitt að draga markalínur því að þegar stórt er spurt verður fátt um svör. Hvað er menning? Einhver sagði að það væri rímorð sem rímaði á móti þrenning. Þetta getur verið vandaverk og álitamál er hvort ekki væri skynsamlegt að skattleggja meginhlutann af skemmtanaiðnaðinum á Íslandi sem veltir gríðarlegum fjárhæðum, jafnvel þótt það væri gert án undanþágu fyrir menningarstarfsemi, og nota síðan þá fjármuni sem þannig aflast í auknum mæli, því ekki mun af veita ef ég heyrði rétt, til þess að styrkja fremur menningarstarfsemi hvort heldur er á vegum ríkisstofnana eða á vegum frjálsra félagahópa. Það er á valdi íslenska ríkisins og Alþingis Íslendinga að móta sér menningarstefnu og að svo miklu leyti sem til þess þarf fjármuni skiptir ekki litlu máli og reyndar meginmáli að menn hafi til þess kjark að afla þeirra tekna sem til þarf.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri af minni hálfu. Ég vil þó nota tækifærið og leiðrétta eitt villandi atriði sem fram kom í máli hæstv. fyrrv. fjmrh. og talsmanns Alþb. í þessum umræðum, fyrri talsmanns þess, hv. 4. þm. Norðurl. v. Ragnars Arnalds. Hann virtist standa í þeirri trú að þetta frv. þýddi að íbúðaverð hækkaði stórum og nefndi tölur. Meðalíbúð mundi hækka í verði um 200–300 þús. Það er rangt og á misskilningi byggt. Í annan stað virtist hann standa í þeirri trú að eigin vinna, sem hann lýsti nánar sem sjálfsbjargarviðleitni fátæks fólks, hvort heldur væri við að koma upp eigin húsnæði eða rækta sinn húsagarð, væri skattskyld skv. þessu frv. Það er alger misskilningur.

Að öðru leyti hygg ég að fleiri orð muni ekki leysa þann ágreining sem uppi hefur verið milli stjórnar og stjórnarandstöðu í þessu máli út af fyrir sig. Þar verður reynslan að skera úr um það er lýkur. Menn spyrja að sjálfsögðu um hluti eins og samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Er virðisaukaskatturinn jákvæður fyrir það eða ekki? Hvernig stendur á því að talsmenn atvinnulífsins eru jákvæðir í umsögnum sínum um þetta mál? Menn hafa uppi fullyrðingar um að hið nýja kerfi sé hliðhollara stórum fyrirtækjum en smáum. Í mínu máli kom fram rökstuðningur fyrir því að því væri öfugt farið.

Menn spyrja um hvort þetta skattkerfi sé dýrt í framkvæmd. Ég fullyrði samkvæmt reynslu annarra og áætlunum okkar að það sé ódýrt í framkvæmd.

Menn spyrja um innheimtuöryggi. Við fullyrðum ekki meira um það en að ákveðnir eiginleikar þessa skatts eru þess eðlis að þeir skírskota til hagsmuna viðkomandi aðila um að standa betur að skattskilum en í núverandi kerfi.

Menn fullyrða um að þetta leiði til hækkunar á íbúðaverði. Það er rangt. Sama máli gegnir um fullyrðingar um húshitun.

Spurt er um skatthlutfallið. Getur það hækkað, getur það lækkað? Frv. kveður á um skatthlutfallið 22%, en því næst er sagt að milliþinganefndin skuli m.a. skoða það í sumar og það verði verkefni Alþingis að útkljá það endanlega þegar fyrir liggja allar staðreyndir við undirbúning fjárlaga á næsta hausti.

Menn spyrja um fjölgun gjaldenda, en mættu þá gjarnan hafa í huga fækkun á skýrslugerð. Og jafnframt er rétt að leiðrétta einn misskilning og hann er sá að í núverandi kerfi er umtalsverður fjöldi framtalsskyldur í söluskatti, þar á meðal aðilar sem stunda byggingarstarfsemi, þar á meðal flestir þeir aðilar sem stunda venjuleg þjónustustörf þó þeir séu ekki skattskyldir. Í raun og veru er því talan í grg. frv. villandi um fjölgunina. Staðreynd er það hins vegar að vegna lengra bils milli skattskila fækkar skýrslugerð.

Þannig má lengi spyrja og lengi deila um þetta mál. Þær deilur verða ekki útkljáðar í þessum ræðustól.

Svona til gamans undir lokin er það ein af þversögnum umræðunnar að til þess hefur verið vitnað af talsmönnum stjórnarandstöðunnar að í ríki þeirrar fyrirmyndarfrúar sem kennd hefur verið við járn en ekki stál, járnlafðinnar bresku, eru í virðisaukakerfi þarlendu algerar undanþágur á matvæli og reyndar ýmsar aðrar vörur. Um þetta hafa menn látið falla góð orð og talið þetta til fyrirmyndar. Í þeim ríkjum annars staðar á Norðurlöndum þar sem t.d. áhrif jafnaðarmanna, verkalýðshreyfingar og launþegahreyfingar hafa lengi verið mun meiri er þessu hins vegar öfugt farið. Þar er virðisaukaskattskerfið því sem næst undanþágulaust. Nú geta menn metið hver eftir sínu viti, þekkingu og reynslu í hverju þessara landa hag almennings er betur komið, í hverju þessara landa ríkir meiri jöfnuður, meira félagslegt öryggi. Það er vafalaust umdeilanlegt líka. Hingað til hafa menn þó talið að það færi ekki á milli mála að það væri ekki í landi járnfrúarinnar.