12.11.1987
Sameinað þing: 16. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 912 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

49. mál, náttúrufræðisafn

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Örstutt athugasemd. Mig langar að greina þingheimi frá því að á vegum Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar er starfandi samstarfsnefnd um skipulag háskólalóðar. Staðsetning náttúrugripasafns hefur komið upp á borð þessarar nefndar og mér er ljúft að greina frá því að húsinu hefur verið valinn endanlegur staður. Það er búið að marka húsinu lóð, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. iðnrh., við Njarðargötuna sem verður nú flutt og tekin upp aftur sem aðalaðkomubraut fyrir háskólasvæðið. Við hliðina á þessari lóð er gert ráð fyrir fjögurra hektara griðlandi sem verður friðað og er hugmyndin að þar verði hægt að fylgjast með fuglalífi, þ.e. í mýrinni við endann á Tjörninni. Það hafa komið upp hugmyndir þess efnis að það sé vel hægt að hugsa sér að Náttúrugripasafnið og vissar stofnanir Háskólans geti e.t.v. haft samnýtingu á þessu svæði. Ég vek athygli á þeim hugmyndum og það væri hægt að hugsa sér að Náttúrugripasafn og ýmsar stofnanir Háskólans fengju þarna inni í sama húsinu.