06.05.1988
Neðri deild: 93. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7661 í B-deild Alþingistíðinda. (5680)

468. mál, leigubifreiðar

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Í Ed. leyfði ég mér að flytja frv. varðandi breytingu á lögunum um leigubifreiðar. Það hefur skapast óvissuástand um hverjar lagareglur gildi um hverjir hafi heimild til að aka farþegum gegn gjaldi þar sem viðurkenndar fólksbifreiðastöðvar eru starfandi. Í hæstaréttardómi frá 10. júní 1987 kemst meiri hluti dómara að þeirri niðurstöðu að ekki sé sannað í því tiltekna máli að viðkomandi aðili hafi gerst brotlegur við gildandi lagaákvæði um þetta efni, en í lagaákvæðinu er notað orðalagið „að stunda leiguakstur“ sem ekki er talið sannað í því máli að hafi verið fyrir hendi. Minni hluti dómsins kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að með ákvæðinu sé lagt bann við því að aðrir bifreiðastjórar aki farþegum gegn gjaldi en þeir sem aka frá viðurkenndri fólksbifreiðastöð. Ætla má að sú túlkun lagareglna hafi verið ríkjandi skilningur á tilgangi lagasetningarinnar um þetta efni undangengna áratugi.

Enn fremur vísa ég til þess að í bréfi Umferðarráðs til samgrh., sem einnig var þá sent dómsmrh., segir um notkun sendibifreiða til fólksflutninga: „Umferðarráð telur að flestir þeir sendibílar sem notaðir hafa verið til almennra fólksflutninga hér á landi séu af öryggisástæðum alls kostar óhæfir til slíkra flutninga.“

Það frv. sem flutt var í hv. Ed. er samið á vegum nefndar sem samgrh. skipaði til að kanna skipulag leigubifreiðaaksturs í þéttbýli og koma með tillögur um framtíðarskipun þeirra mála til að reyna að fá lausn á því vandamáli sem við hefur verið að glíma. Nefndin telur hins vegar að eigi vel að vera þurfi allítarleg könnun í ýmsum efnum að vera undanfari þeirrar tillögugerðar, en brýnt sé að eyða því óvissuástandi sem ríkt hefur í þessum efnum og taka af tvímæli. Því var frv. flutt.

Í hv. Ed. var frv. breytt og þar bætt við tveim nýjum greinum þar sem til samræmis við greinina sem er í frv. því sem flutt var sé það sama tekið fram um sendibifreiðaakstur og vörubifreiðaakstur, að það sé því aðeins heimilt að það sé frá stöð sem er viðurkennd.

Ég ætla ekki að orðlengja, herra forseti, en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgn.