09.05.1988
Sameinað þing: 81. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7759 í B-deild Alþingistíðinda. (5851)

90. mál, björgunarþyrla

Frsm. allshn. (Pálmi Jónsson):

Virðulegi forseti. Allshn. Sþ. hefur haft til athugunar till. til þál. um björgunarþyrlu sem flutt er af hv. þm. Inga Birni Albertssyni o.fl.

Á fund nefndarinnar komu nokkrir aðilar. Umsagnir bárust frá m. a. Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Flugmálastjórn, Félagi ísl. atvinnuflugmanna, rannsóknanefnd sjóslysa, Sjómannasambandi Íslands og Landhelgisgæslu Íslands.

Ýmsar þessar umsagnir voru jákvæðar, en fram kom einnig að hér er um mjög stórt mál að ræða sem kostar mikla fjármuni og talið er í sumum þessara umsagna að reksturskostnaður slíkrar þyrlu yrði mjög mikill. Þannig segir til að mynda í umsögn Landhelgisgæslu Íslands, með leyfi forseta:

„Vegna hins mikla fjármagns- og rekstrarkostnaðar sem yrði samfara kaupum á stórri þyrlu telur Landhelgisgæslan eðlilegt að stjórnvöld láti gera raunhæfa úttekt á þessum málum með ákveðna stefnumörkun í huga áður en kaup yrðu afráðin og mætti þá hugsa sér leigu á stórri þyrlu til reynslu meðan sú könnun væri gerð.“

Aðrir aðilar, þar á meðal rannsóknarnefnd sjóslysa, benda á að kanna fleiri leiðir í þessum efnum, þar á meðal hvort unnt væri að ná samkomulagi við varnarliðið og e.t.v. nágrannaþjóðirnar um rekstur öflugrar björgunarstöðvar hér á landi sem lausn á þessu vandamáli um leit og björgun á því hafsvæði sem Íslendingum hefur verið úthlutað til umsjónar og björgunar áður en ráðist verði í kostnaðarsama áætlun um þyrlukaup og fleira. Gætu Íslendingar að einhverju leyti lagt mannafla í þá björgunarsveit, segir í áliti rannsóknanefndar sjóslysa.

Áður hefur það komið fram í umræðum hér á hv. Alþingi um mál af þessu tagi að sú björgunarsveit sem starfar á vegum varnarliðsins starfar þar í raun og veru sem alþjóðleg björgunarsveit þannig að hér er ekki einvörðungu um að ræða björgunarsveit sem er til komin vegna varnarliðsins eða hernaðarumsvifa.

Að svipuðu efni er einnig vikið í umsögn frá Flugmálastjórn, en þessir aðilar allir láta það koma skýrt fram að hér sé um mikilvægt mál að ræða. Hér er um býsna stórt mál að ræða bæði að því er varðar björgunarmál og öryggismál og ekki síður að því er varðar fjármál. Talið er að þyrla, sem væri af því tagi sem hér er fjallað um, kosti allmörg hundruð millj. kr., líklega eigi fjarri lagi að væri um 700 millj. kr. Og eins og áður sagði er talið að rekstur verði kostnaðarsamur auk þess sem nokkur vafi leikur á að ein þyrla mundi duga til þess að fyllsta öryggis væri gætt vegna þess að að líkindum þyrfti að staðsetja þyrlu á norðausturhorni landsins en einnig á vesturhluta landsins og hér á suðvesturhorninu.

Með tilliti til þess sem hér hefur verið rakið hefur allshn. verið sammála um það að leggja til að tillgr. verði breytt og hún samþykkt með svofelldri breytingu:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera athugun á kostnaði við kaup og rekstur á björgunarþyrlu af bestu fáanlegri gerð fyrir Landhelgisgæsluna.“

Nefndin er sammála um að leggja til að till. verði afgreidd svo breytt og undir nál. skrifa Guðni Ágústsson, formaður nefndarinnar, Kristín Halldórsdóttir, Pálmi Jónsson, Guðrún Helgadóttir, Sigbjörn Gunnarsson, Sverrir Hermannsson og Jón Kristjánsson.