10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7944 í B-deild Alþingistíðinda. (6107)

469. mál, Siglingamálastofnun ríkisins

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Landbn. Ed. Alþingis hefur fjallað um þetta mál og hefur skilað svofelldu nál.:

„Frv. þetta felur í sér heimild til innflutnings á gleráli til ræktunar hérlendis. Eins og þær álitsgerðir, sem fylgja málinu, bera með sér eru ekki fyrir hendi þær aðstæður hér á landi sem tryggja að ekki berist sjúkdómar með slíkum innflutningi. Þess vegna getur nefndin að svo komnu máli ekki lagt til að frumvarpið verði samþykkt.

Nefndin telur hins vegar nauðsynlegt að fylgst sé með hvernig þessi mál þróast, bæði hvað varðar innflutning á gleráli milli landa og eins hugsanlega ræktun hans.

Enn fremur bendir nefndin á að mikilvægt er að rannsóknir á áli hér á landi verði stórefldar, m.a. með tilliti til útbreiðslu og nýtingar stofnsins.

Í trausti þess að ríkisstjórnin vinni að málinu á grundvelli þess sem að framan er greint leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að vitna til og leggja áherslu á þær þrjár álitsgerðir sem fylgja málinu. Það er í fyrsta lagi álitsgerð frá Veiðimálastofnun sem undirrituð er af Árna Ísakssyni og Valdimar Gunnarssyni, í öðru lagi álitsgerð frá Tilraunastöð Háskólans í meinafræði og undirrituð er af Sigurði Helgasyni og Árna Mathiesen og að lokum er birt bréf Árna Gunnarssonar alþm. til nefndarinnar ásamt umsögn Franc Minck, sem er þekktur sérfræðingur í þessum efnum. Þar með hefur nefndin með skýrum hætti skýrt þá afstöðu sem kemur fram í nál. á þskj. 1145.