10.05.1988
Efri deild: 99. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7945 í B-deild Alþingistíðinda. (6116)

Vinnubrögð í efri deild

Egill Jónsson:

Herra forseti. Mér þykir vissulega vænt um ábendinguna sem fram hefur komið frá flokksbróður mínum og vini, Halldóri Blöndal, um að nú sé tími og rúm fyrir að tala um þmfrv. vegna þess að nokkur bið sé á að hægt sé að afgreiða tiltekið mál hér í þessari virðulegu deild.

Ég held að það sé augljóst mál að gagnvart þingmannafrv. verða ekki gerðir stórir hlutir til kl. hálfellefu, á rúmum klukkutíma. En vera má að þessi mikilvæga ábending verði til þess að minna Alþingi á að þýðingarmikið sé að muna eftir málum sem alþm. leggja hér fram í deildinni og á Alþingi, þannig að ekki verði litið á mál okkar alþm. sem einhver annars flokks mál sem eigi að skáka til hliðar fyrir öðrum málefnum. Ég tel því ábendinguna þarfa og ég fagna henni. Þetta segi ég náttúrlega m.a. vegna þeirrar umræðu og þeirra atburða sem hafa átt sér stað í deildinni ekki alls fyrir löngu.