16.11.1987
Sameinað þing: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (627)

59. mál, lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Flm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Þessar umræður hafa orðið allsérkennilegar. Hér er það lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að hefja viðræður við borgaryfirvöld í Reykjavík um að fram fari líffræðilegar rannsóknir á lífríki Tjarnarinnar áður en framkvæmdir hefjast við ráðhús höfuðborgarinnar. Hér er um það að ræða, samkvæmt lögum sem hið háa Alþingi hefur sett, að þegar náttúruminjum er að einhverju ógnað skuli leita umsagnar Náttúruverndarráðs. Tjörnin og Vatnsmýrin í Reykjavík eru á náttúruminjaskrá eins og þetta rit frá Náttúruverndarráði frá 1984 ber með sér. Í nýrri útgáfu sem er í handriti er enn frekar ítrekað að undirbúin verði friðlýsing á Tjörninni og Vatnsmýrarsvæðinu.

Ég held að ég verði að útskýra fyrir hinu háa Alþingi hvað náttúruminjaskrá er. Í náttúruminjaskrá, sem innan skamms kemur út og er í handriti frá Náttúruverndarráði Íslands, segir á bls. 7, með leyfi forseta:

„Náttúruminjaskrá. Það hefur lengi verið álit manna að gera þurfi heildaryfirlit yfir þau svæði eða staði sem ekki hafa verið friðlýst enn, en hafa eitthvað það til að bera sem þjóðinni er mikils virði að eiga og vart eða ekki verður bætt sé því raskað. Slíkri skrá er m.a. ætlað að marka stefnu í friðlýsingarmálum og undirbúa jarðveginn fyrir viðræður við rétthafa um þau efni. Það er og mikilvægt fyrir þá sem leggja á ráðin og taka ákvarðanir um ný mannvirki og hvers konar breytingar á landi að vita hvar síst má raska náttúrunni. Um leið er skránni ætlað að vera leiðarvísir varðandi skipulag og notkun lands.

Hér er m.a. átt við þau svæði sem fólki þykja vistleg til dvalar í frístundum, tilkomumikil og fögur, t.d. vegna óvenjulegrar fjölbreytni í landslagi og litafari. Ekki er síður um að ræða þá staði sem geyma vitnisburð um myndun og mótun landsins og sjaldgæf tilbrigði um náttúrufar þess. Með því að tengja saman hugmyndir um landþörf til útilífs og náttúruskoðunar, vísindaiðkana og fræðslu um líf og land gera menn sér grein fyrir einni af auðlindum landsins sem gegnir miklu hlutverki í þjóðlífinu og þarfnast verndar og umhyggju ekki síður en þær sem standa undir tekjuöflun.“

Þá vita menn til hvers er verið að gera náttúruminjaskrá.

Víst mætti ræða langt mál um það byggingarmagn sem til stendur að setja hér á svæðið, en sú umræða á heima annars staðar. Um það er ég sammála hæstv. forseta. En það er furðulegt að heyra hv. þm. halda því fram hér í þingsal að málefni sem varða náttúruminjar í Reykjavík komi ekki Alþingi við. Ég tek undir það sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan. Vitaskuld látum við Reykvíkingar okkur varða umhverfi Gullfoss og Geysis eða Dimmuborga eða Hallormsstaðaskógar. Um hvað eru menn að tala hér? Hafa hv. þm. ekki uppgötvað það enn þá að Reykjavík er á Íslandi og að það eru líka náttúruminjar í Reykjavík sem við viljum fá aðstoð hins háa Alþingis við að vernda? Ég vonast til að heyra slíka röksemdafærslu aldrei aftur hér í þingsal.

Ég vil minna hv. Alþingi á að á sjötta náttúruverndarþingi fyrir mánuði síðan var samþykkt ályktun sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Sjötta náttúruverndarþing 1987 vekur athygli á því að mjög litlar rannsóknir hafa verið gerðar á lífríki og næringarefna- og vatnsbúskap Reykjavíkurtjarnar. Telur þingið ástæðu til að vara við stórframkvæmdum í Tjörninni og á vatnasviði hennar áður en áhrif þeirra á lífríkið hafa verið metin.“

Náttúruverndarþing sá ástæðu til þess að vara við að hefja þarna framkvæmdir án þess að lífríki Tjarnarinnar væri rannsakað.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. skal sagt það að ástæða var fyrir þeim mun sem fram kom í máli mínu á 1% eða 2% skerðingu Tjarnarinnar. Ástæðan fyrir þeirri fullyrðingu minni er sú að húsbyggingin mun skerða Tjörnina um 2%. Hins vegar hafa borgaryfirvöld rætt um að búa til tjörn sem tekur yfir 1%, en það mundi verða gervitjörn að baki hússins með dauðum botni og lífríkislaus þar með. En með því væri hægt að halda því fram að Tjörnin hefði aðeins verið skert um 1% vegna þess að vatnspollur væri kominn í stað lifandi lífríkis. Ég vil hér með upplýsa þetta.

Herra forseti. Ég skal ekki eyða miklu meiri tíma í að rökræða þetta mál. Það er alveg ljóst að hér er um mál að ræða sem snertir mjög tilfinningar Reykvíkinga og að ég hygg fjölmargra annarra landsmanna. Það hlýtur að vera krafa Reykvíkinga og landsmanna raunar allra, þar sem hér er um að ræða höfuðborg landsins, að svo afdrifaríkar framkvæmdir í hjarta höfuðborgarinnar fari þá fyrst af stað þegar lögum um náttúruvernd hefur verið framfylgt. Ef til röskunar kæmi á lífríki Tjarnarinnar verður slíkt ekki bætt.

Ég vil engan dóm leggja á uppdráttinn að þeirri byggingu sem verðlaunin hlaut. Það kann að vera hin fegursta bygging. En við viljum einfaldlega með þessari till. vara við að hér sé farið af stað með svo miklu offorsi að hugsanlega komi til að lífríki Tjarnarinnar verði skaðað.

Það er erfitt að sjá hvers vegna svo mikið liggur á að koma þessari byggingu af stað að borgaryfirvöld virðast forðast að leita til þeirra manna sem vísast hafa vit á þessum hlutum. Borgarverkfræðingurinn í Reykjavík og borgarstjórinn virðast einir og sjálfir geta ákveðið hvenær þessar framkvæmdir hefjast. Því hlýtur Alþingi að mótmæla og vitaskuld ber ríkisstjórninni að sjá um að farið sé að lögum hver sem í hlut á.

Meginröksemdin fyrir þessari till. er sú að hér hefur ekki verið farið að lögum. Það bar að leita umsagnar Náttúruverndarráðs skv. lögum um náttúruvernd. Þess vegna held ég að það sé ástæðulaust að ræða hér mikið um framtíðarskipulag borgarinnar. Það væri efni í aðra langa og mikla umræðu.

Ég get tekið undir með hv. 5. þm. Reykv. að vitaskuld verður miklu meira svæði tekið þarna vegna þess að umferðaræðar að þessari miklu byggingu eru allt of litlar og þær yrði að breikka. Þær ákvarðanir koma vitaskuld seinna. Við erum ekki að tala í neinni alvöru um 2% skerðingu heldur verður skerðingin miklu meiri. Það liggur í hlutarins eðli.

Ég skal ljúka máli mínu, herra forseti, og ég þakka þeim sem hér hafa komið í ræðustól og tekið undir þessa till. Ég treysti því að hún fái skjóta afgreiðslu, vegna þess að ég hygg að fjölmargir Reykvíkingar bíði eftir afgreiðslu hennar og grannt verði fylgst með því hvernig henni reiðir af hér á hinu háa Alþingi, og vil að lokinni þessari umræðu, herra forseti, óska eftir að hv. allshn. Sþ. fái hana til umfjöllunar.