17.11.1987
Efri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (652)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til lánsfjárlaga sem er 63. mál þessa þings. Lögum samkvæmt ber að leggja fram fjárlagafrv. og lánsfjárlagafrv. samtímis. Það mun vera í anda þeirra laga að um ríkisfjármálin sé fjallað í heild sinni, enda eru lánsfjárlög óhjákvæmilega eðli málsins skv. mjög mótuð af niðurstöðum fjárlaga. Forsendur lánsfjárlagafrv. mótast m.ö.o. af því meginmarkmiði fjárlagafrv. að ná jöfnuði í ríkisbúskapnum þegar á næsta ári.

Hallalaus fjárlög endurspeglast þegar í minni lánsfjárþörf, svo sem sjá má af þessu frv. til lánsfjárlaga. Þar er stefnt að miklum samdrætti í erlendum lántökum. Ríkissjóður tekur þannig engin ný erlend lán á næsta ári. Erlendar lántökur opinberra aðila í heild lækka úr 3 milljörðum kr. á yfirstandandi ári í 900 millj. kr. skv. lánsfjárlögum 1988. Jafnframt er dregið úr erlendum lántökuheimildum einkaaðila með sérstöku lántökugjaldi og innlendri fjármögnunarkvöð. Heildarlánsfjáröflun allra opinberra aðila lækkar verulega á árinu 1988 eða um 3,6 milljarða kr. Í heild lækka erlendar skuldir ríkisins úr 18% af landsframleiðslu á árinu 1986 í 13% samkvæmt áætlun í árslok 1988 gangi þessar áætlanir eftir.

Í samræmi við þá stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar að draga úr ríkisafskiptum af almennum atvinnurekstri hefur ríkisábyrgðum af lántökum fjárfestingarlánasjóða verið aflétt til að ýta undir sjálfstæðara áhættumat og auknar arðsemiskröfur. Þrátt fyrir aukna áherslu á innlenda lánsfjáröflun er hlutdeild opinberra aðila á innlendum lánamarkaði heldur minni að raungildi en á síðasta ári ef frá eru skildir samningar byggingarlánasjóðanna við lífeyrissjóðina vegna fjármögnunar húsnæðislánakerfisins.

Stefnt er að því að breyta starfsháttum og stjórn fjárfestingarlánasjóða. Markmiðið er að hverfa frá skiptingu þeirra eftir hefðbundnum atvinnugreinum þannig að nýjar greinar standi jafnvel að vígi og gamlar hvað varðar aðgang að lánsfé. Þegar hefur verið skipaður starfshópur að frumkvæði hæstv. forsrh. til að undirbúa þessar tillögur. Enn fremur hefur verið skipaður starfshópur til að endurskoða lög og reglur um erlent áhættufjármagn í íslensku atvinnulífi. Að því er stefnt að áhættufé, innlent eða erlent, geti í vaxandi mæli komið í staðinn fyrir erlent lánsfé við fjármögnun atvinnufyrirtækja hér á landi.

Í samanburði við endurskoðaða áætlun árið 1987 lækkar lánsfjárráðstöfun opinberra aðila á næsta ári sem fyrr segir um 3600 millj. kr. Helsta skýringin á því er sú að afkoma ríkissjóðs batnar úr u.þ.b. 2,3 milljarða tekjuhalla 1987 í áformaðan jöfnuð á árinu 1988. Af þeim 5200 millj. kr. sem opinberir aðilar munu afla með lánum á næsta ári verða 4,3 milljarðar teknir að láni innanlands en einungis 900 millj. kr. erlendis. Áætlaðar endurgreiðslur af erlendum skuldum nema alls 2250 millj. kr. Afborganir umfram erlendar lántökur opinberra aðila eru því áætlaðar 1350 millj. kr. á árinu 1988. Þrátt fyrir þessa aðhaldssemi í opinberum lántökum er heildarniðurstaðan samt sú að hreint innstreymi erlendra lána þjóðarbúsins í heild nemur 1800 millj. Það getur ekki talist nægilega góður árangur eftir tveggja til þriggja ára góðæri sem hefur lýst sér í örari hagvexti og meiri gjaldeyristekjum en nokkru sinni fyrr. Þetta aukna innstreymi erlends lánsfjár er þó fyrst og fremst á vegum einkaaðila. Þannig má segja að með þessu lánsfjárlagafrv. gangi hið opinbera á undan með góðu fordæmi að því er varðar lánsfjáröflun.

Mikill hagvöxtur liðinna ára ásamt gengislækkun bandaríkjadals veldur því að hlutfall langra erlendra lána lækkar mjög verulega. Það lækkar úr 47,1% af vergri landsframleiðslu, eins og það var 1986, í 40% á árinu 1987, en áætlað er að þetta hlutfall lækki enn frekar á árinu 1988 og verði þá um 35%. Því miður er það þó svo að staða þjóðarbúsins mun ekki batna jafnmikið og þessar tölur segja til um gagnvart útlöndum þar sem talið er að erlend skammtímalán verði nær óbreytt, en gjaldeyrisstaðan versni töluvert á árinu 1988. Hrein skuldastaða við útlönd var 45,5% vergrar landsframleiðslu árið 1986, en er talin verða um 37% á yfirstandandi ári og 33% á árinu 1988.

Áætlað er að greiðslubyrði erlendra lána verði um 16% útflutningstekna á árunum 1987 og 1988. Greiðslubyrði erlendra lána var hæst 24,3% á árinu 1984 en hefur lækkað síðan, bæði vegna aukins útflutnings og vaxandi gjaldeyristekna og hins vegar vegna vaxtalækkunar á erlendum lánamörkuðum. Meðalvextir erlendra lána voru á bilinu 10–12% á árunum 1980–1984 en lækkuðu í 8,7% 1986 og eru nú áætlaðir tæplega 8% á yfirstandandi ári og því næsta. Vaxtabyrði erlendra lána nam 9,6% útflutningstekna 1986, en er áætluð rúmlega 8% á yfirstandandi ári og því næsta.

Í frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988 eru heildarlántökur, að frátöldum lánum innlánsstofnana til fyrirtækja og heimila, áætlaðar 20 300 millj. kr. samanborið við 18 000 millj. í lánsfjárlögum 1987. Ráðgert er að afla 12,3 milljarða kr. innanlands á árinu 1988 og 8 milljarða kr. með erlendum lántökum. Markverð breyting á lánsfjáröfluninni er fólgin í aukinni áherslu á innlenda lánsfjáröflun. Hlutdeild innlendrar fjármögnunar eykst töluvert milli ára eða um rúmlega 6% sem hlutfall af heildarlántökum af lánsfjáráætlun og verður um 60%. Af innlendum lántökum eru skuldabréfakaup lífeyrissjóða af byggingarsjóðunum veigamest eða um helmingur. Hinn helmingur innlendrar lánsfjáröflunar skiptist á sölu spariskírteina, verðbréfakaup banka og aðra innlenda lántöku.

Aukning í innlendri lánsfjáröflun skýrist af sjálfvirkum skuldabréfakaupum lífeyrissjóða af húsbyggingarsjóðum. Veruleg aukning hefur orðið á ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna að raungildi á undanförnum árum. Þessu valda margar ástæður. Þar má telja vaxandi verðtryggingu á eignum sjóðanna, hækkandi raunvexti og verulega kaupmáttaraukningu síðustu þriggja ára. Þá hefur breyting á iðgjaldastofninum haft mikil áhrif.

Nýlega voru undirritaðir samningar þessara aðila um kjör bréfanna á tímabilinu 1988–1990, kjör þessara bréfa á árinu 1988 miðað við fasta vexti 7% og 15 ára lánstíma.

Sala spariskírteina eykst úr 1500 millj. kr. í ár í 3000 millj. 1988. Þessa miklu aukningu verður að skoða með hliðsjón af áætlaðri innlausn eldri skírteina, en mikið af því fé er talið að skili sér aftur í nýjum bréfum. Áætluð innlausn eykst um rúmar 1500 millj. kr. milli ára þannig að hrein fjáröflun sem ríkissjóður áformar að ná með þessum hætti á árinu 1988 er svipuð og á yfirstandandi ári eða aðeins 250 millj. kr.

Ríkissjóður áformar að selja innlánsstofnunum verðbréf og ríkisvíxla fyrir 1200 millj. kr. á næsta ári. Það samsvarar um 10% af áætluðum útlánum innlánsstofnana á árinu. Að auki er áætlað að bankar kaupi verðbréf af Framkvæmdasjóði fyrir 280 millj. kr.

Samkvæmt framansögðu hefur náðst samkomulag um nálægt helming innlendrar lánsfjáröflunar á næsta ári. Óumsaminn hluti innlendrar lánsfjáröflunar er svipaður að krónutölu og gert var ráð fyrir í lánsfjárlögum 1987. Því sýnist ljóst að ekki virðast vera lagðar auknar byrðar á innlenda lánamarkaðinn á næsta ári. Auk þess er mun minna af fjármagni lífeyrissjóðanna bundið ákveðinni ráðstöfun. Búast má við samkeppni um það fé og annað innlent fjármagn og hefur það óhjákvæmilega áhrif á vexti.

Höfuðforsenda aðhaldssamrar peningastefnu er að erlent lánsfé til fjárfestingar og neyslu innanlands fari ekki úr böndunum, eins og reyndin varð á yfirstandandi ári, og vinni þannig ekki gegn markaðri stefnu stjórnvalda og aðgerðum þeirra á innlendum fjármagnsmarkaði. Skref í þá átt var stigið í septembermánuði sl. með nýjum reglum viðskrn. um erlendar lántökur og kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga vegna innflutnings á vélum og tækjum.

Á árinu 1987 er áætlað að erlendar lántökur þjóðarbúsins til lengri tíma en eins árs verði um 12 440 millj. kr. en lánsfjáráætlun 1987 gerði ráð fyrir lántökum að fjárhæð 8215 millj. kr. Hér er verið að tala um árið 1987. Það er því ljóst að lántökuáformin fóru mjög verulega úr böndunum. Erlendar lántökur umfram áætlun stafa einkum af auknum lántökum einkaaðila. M.a. er talið að fjármögnunarleigur muni taka erlend lán að fjárhæð rúmlega 2 milljarðar kr. á árinu 1987.

Afborganir af löngum lánum eru taldar nema 5750 millj. kr. og hreint innstreymi erlends fjármagns verður því 6690 millj. kr. Það er um 3,2% af áætlaðri landsframleiðslu 1987. Erlendar lántökur fjármögnunarleiga hafa verið flokkaðar með skammtímahreyfingum hingað til, en verða nú framvegis taldar með langtímalánum.

Horfur eru á að halli á viðskiptum við útlönd verði a.m.k. 2400 millj. kr. á yfirstandandi ári sem er um 1,42% af landsframleiðslu ársins. Reiknað er með að viðskiptahallinn aukist á árinu 1988 og er hann nú áætlaður 4,4 milljarðar kr. eða um 1,8% af áætlaðri landsframleiðslu 1988. Erlendar lántökur eru áætlaðar 8 milljarðar kr. en afborganir eins og áður sagði 6,2 milljarðar kr.

Fjármunamyndun hér á landi hefur verið um og yfir fjórðung af landsframleiðslunni síðasta áratug og fram á þennan. Það er verulega hátt hlutfall á alþjóðlegan mælikvarða. Á allra seinustu árum hefur þetta hlutfall farið lækkandi og er áætlað um 17,6% á yfirstandandi ári og um 17,1% á árinu 1988. Þrátt fyrir lækkun hlutfallsins á næsta ári eykst fjárfestingin að magni til um 1,5% milli ára. Aukningin stafar af auknum innflutningi skipa. Gert er ráð fyrir að hin almenna fjármunamyndun dragist saman um 0,5% en hún er talin aukast um hvorki meira né minna en 6% á yfirstandandi ári.

Á árinu 1988 er talið að fjárfesting atvinnuvega aukist um 1,2%. Áætlað er að framkvæmdir við íbúðarhúsnæði aukist um 7%. Aftur á móti er gert ráð fyrir að framkvæmdir hins opinbera dragist saman um 1,8%.

Heildarframkvæmdir á vegum opinberra aðila eru áformaðar 11 milljarðar 160 millj. kr. á árinu 1988. Í því felst lítils háttar samdráttur samanborið við framkvæmdir yfirstandandi árs eða um 1,8% eins og áður sagði.

Á undanförnum árum hefur fjárfesting hins opinbera sveiflast nokkuð milli ára. Þannig er útlit fyrir að hún aukist um 7,2% á yfirstandandi ári borið saman við 4,6% samdrátt á árinu 1986 og um 8,5% samdrátt á árinu 1985. Leita þarf aftur til ársins 1984 eftir aukningu í opinberri fjárfestingu, en þá jókst hún um 11/2% frá árinu þar á undan, 1983.

Hlutdeild opinberra framkvæmda í heildarfjárfestingu landsmanna hefur dregist verulega saman frá því sem var á 8. áratugnum. Á þeim tíma voru opinberar framkvæmdir um þriðjungur framkvæmda en eru nú u.þ.b. fjórðungur. Þetta skýrist einkum af minni hitaveitu- og raforkuframkvæmdum nú samanborið við síðasta áratug þegar þessar framkvæmdir voru hvað mestar.

Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar er því markmiði lýst að ríkisafskipti og ríkisrekstur á atvinnufyrirtækjum fari minnkandi. Þessari stefnu er til skila haldið í þessu frv. og frv. til fjárlaga 1988. T.d. verður ríkisábyrgðum af lántökum atvinnuvegasjóða aflétt til að ýta undir sjálfstætt áhættumat og auknar arðsemiskröfur. Stefnt er að því að breyta starfsháttum og stjórn fjárfestingarlánasjóða eins og fyrr sagði.

Í áætluninni fyrir 1988 er fjárfestingarlánasjóðum skipt í tvo aðalflokka. Annars vegar er um að ræða opinbera fjárfestingarlánasjóði, þ.e. Byggingarsjóð ríkisins, Byggingarsjóð verkamanna, Byggðastofnun og Framkvæmdasjóð Íslands. Hins vegar er um að ræða atvinnusjóði. Nú eru dregin gleggri skil milli þessara flokka en áður vegna breyttrar meðferðar á ábyrgðarveitingum á lántökum. Í þessari áætlun er miðað við að atvinnusjóðirnir annist eigin lántökur. Fram hefur komið að stefna ríkisstjórnarinnar er að draga úr ríkisafskiptum og auka markaðsáhrif á lánamarkaðnum. Þess vegna er ekki talið rétt að binda lántöku sjóðanna við Framkvæmdasjóð heldur heimila þeim að afla lánsfjár, að vísu innan ramma lánsfjárlaga, að eigin vild á hagkvæmustu kjörum sem þeim tekst að nýta sér.

Með þessu frv. er tekin upp breytt stefna í veitingu ríkisábyrgða. Miðað er við að þeir aðilar sem ekki njóta ríkisábyrgðar geti ekki sótt lánsfé í Framkvæmdasjóð eða Byggðastofnun. Þetta á jafnt við um fjárfestingarlánasjóði sem atvinnufyrirtæki og einstaklinga.

Á undanförnum árum hefur ríkissjóður þurft að taka yfir verulegar skuldbindingar af orkugeiranum. Því hefur valdið ýmist byggðastefna, seinheppni í fjárfestingum eða kjarasamningar. Nægir þar að nefna yfirtöku skulda á síðustu fimm árum, þ.e. byggðalínur, Kröfluvirkjun, Rafmagnsveitur ríkisins, Orkubú Vestfjarða, Rafveita Siglufjarðar, Hitaveita Akraness og Borgarfjarðar og Hitaveita Akureyrar. Hrein yfirtaka ríkissjóðs vegna þessara aðila nemur 8400 millj. kr. á núvirði í sept. 1987. Með yfirtöku ríkissjóðs á þessum skuldum er í raun verið að færa greiðslubyrði af mannvirkjum frá orkunotendum til skattborgara. M.ö.o.: Verulegar fjárhæðir út úr orkuverðinu.

Ólíklegt er að fólk geri sér almennt grein fyrir hvað hér er um ótrúlega háar fjárhæðir að ræða. Frá ársbyrjun 1983 til ársloka 1986 þurfti ríkissjóður að greiða um 3 milljarða kr. í vexti og afborganir af þessum lánum. Á þessu ári einu nemur fjárhæðin um 1,8 milljörðum. Greiðslubyrði ríkissjóðs af þessum skuldbindingum nemur 1,9 milljörðum kr. á árinu 1988.

Sé þetta sett fram sem val milli orkuverðs eða skattgreiðslna má skoða dæmið á eftirfarandi hátt: Hefði ríkissjóður ekki yfirtekið lánin væri greiðslubyrði ríkissjóðs 1,9 milljörðum lægri og hefði þá mátt t.d. lækka tekjuskatt einstaklinga um þá fjárhæð eða um rúmlega 20%. Ef orkugeiranum yrði afhent þessi skuldasúpa, 8,4 milljarðar frá næstu áramótum, og reiknað væri með 6,5% vöxtum og 20 ára lánstíma, sem má ætla að sé varlegt mat á meðallíftíma mannvirkja, þyrfti að hækka gjaldskrár almennrar raforkunotkunar um fimmtung, 20%, til að bera uppi þessi lán. Allar þessar yfirtökur ríkissjóðs af orkugeiranum fela í sér að raforkuverðið í landinu endurspeglar engan veginn þann kostnað sem liggur að baki þess. M.ö.o.: Raforkuverðið í landinu er falsað og þykir þó mörgum það áreiðanlega nógu hátt. Þetta segir sína sögu um þann árangur sem fengist hefur í opinberum fjárráðstöfunum og fjárfestingum innan orkugeirans.

Að lokum þykir rétt að minna á að ekki er séð fyrir endann á yfirtökum ríkissjóðs á orkugeiranum. Nægir þar að minna á umtalsverða fjárhagsörðugleika ýmissa hitaveitna.

Í frv. til lánsfjárlaga er lögð aukin áhersla á þær skuldbindingar sem eru fólgnar í ríkisábyrgðum. Í Vl. kafla frv. er gerð ítarleg grein fyrir heildarskuldbindingum ríkissjóðs bæði vegna eigin skulda sem og annarra sem hann hefur gengist í ábyrgð fyrir. Ríkisábyrgðir eru tvíþættar. Í fyrsta lagi eru skráðar ríkisábyrgðir sem eru veittar með formlegum hætti. Í öðru lagi eru sjálfvirkar ábyrgðir ríkisins vegna eignarhlutdeildar svo sem í atvinnuvegasjóðum eða bönkum. Í árslok 1986 námu heildarskuldbindingar ríkissjóðs um 115 milljörðum kr. eða um 70% af landsframleiðslu ársins. Þar af eru skuldir ríkissjóðs sjálfs 44 milljarðar og ríkisábyrgðir um 71 milljarður. Af þessu sést hve skuldbindingar ríkissjóðs eru orðnar gífurlegar.

Ástæða þess að lögð er aukin áhersla á þennan þátt í ríkisfjármalum eru þau áföll sem ríkissjóður hefur orðið fyrir á þessu ári og horfur á næstunni. Nægir þar að nefna tæpar 800 millj. kr. vegna Útvegsbankans á yfirstandandi ári. Þá er útlit fyrir nokkuð hundruð millj. kr. áfall í tengslum við sjóefnavinnslu. Þess má geta að ríkisábyrgðasjóður þurfti að leysa til sín 636 millj. kr. á árinu 1986 og er það hærri fjárhæð en nokkru sinni fyrr. Aukið aðhald í veitingum ríkisábyrgða er því brýnt. Oft hefur sú þörf verið brýn en nú er orðin mikil nauðsyn á því.

Af þessu tilefni vil ég leyfa mér, herra forseti, að vekja sérstaka athygli hv. alþm. á þeim kafla í grg. með fjárlagafrv. þar sem fjallað er um ríkisábyrgðir, en það er á bls. 328 og fram úr. Þar er sundurliðað hverjar þessar ábyrgðir eru, hvernig þær hafa vaxið, hverjum ríkissjóður hefur veitt ábyrgðir, hvernig vanskil hafa farið vaxandi og er alveg sérstök ástæða til að vekja athygli hv. alþm. á því að við höfum oft á tíðum á undanförnum árum teflt á tæpasta vaðið. Sjálfsagt er það svo að við hverja einstaka ákvörðun í þessu efni eru menn ekki að hugsa til heildaráhrifanna, en þessar upplýsingar benda til þess að nú þurfi menn að stinga við fótum og það sé því rétt stefna að reyna að draga úr pólitísku forræði og pólitískum ábyrgðarveitingum í peninga- og lánakerfinu, hvort heldur um ræðir fjárfestingarlánasjóði eða bankakerfið.

Herra forseti. Hér að framan hefur verið lýst stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar að því er varðar ríkisábyrgðir atvinnuvegasjóða en það er stefnubreyting sem stefnir í þá átt að hverfa frá auknum ríkisábyrgðum.

Reynslan hefur sýnt okkur svo ekki verður um villst að við stjórn efnahagsmála verður að stilla saman fjármálaaðgerðum og peningamálaaðgerðum. Ekki alls fyrir löngu var ríkissjóði legið á hálsi fyrir óvarfærna ríkisfjármálapólitík sem birtist framar öðru í erlendum lántökum langt umfram áætlanir. Þegar betur var að gáð og metin reynslan á yfirstandandi ári kom hins vegar í ljós að allan þorra hinnar auknu erlendu lántöku mátti rekja til atvinnuvega og fyrirtækja. Opinberir sjóðir voru hins vegar milligönguaðilar um lánsfjárútvegun, en í mjög mörgum tilvikum ekki lánnotendur. Í því felst að ríkissjóður verður með einum eða öðrum hætti ábyrgur gagnvart útlendum lánardrottnum fyrir þeim lánum sem tekin eru af einkaaðilum. Eitt er það að erlent lánsfjármagn til atvinnurekstrar renni um opinbera sjóði fremur en um bankakerfið, sem væri hinn eðlilegi farvegur, og annað að um það skuli ríkja vafi hvenær verið er að sniðganga og brjóta markaða stefnu og yfirlýsta áætlun stjórnvalda um erlendar lántökur. Af þessu má ýmislegt læra. Ríkið þarf annars vegar að setja skorður við því hverjir annist lánsfjárútvegun til atvinnurekstrarins og hins vegar að efla stjórn á lánamálum ríkisins. Þetta á bæði við um ábyrgðarveitingar, svo sem fyrr er að vikið, og enn fremur hitt að með góðri stjórnun á skuldum ríkissjóðs og annarra opinberra aðila má jafna greiðslubyrði og í mörgum tilvikum létta ríkissjóði að standa undir greiðslum vaxta og afborgana.

Viðskrh. setti ekki alls fyrir löngu nýjar reglur um lántökur og fjármögnun á innflutningi. Þetta eru almennar og einfaldar reglur til þess gerðar að draga úr sókn í erlent lánsfé.

Hluti af efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar í október var að bjóða upp á fjölbreyttari leiðir til sparnaðar innanlands. Eftirspurn er mjög mikil hér á landi eftir lánsfjármagni og því ríður á að efla innlendan sparnað til þess að mæta þörfum atvinnuveganna. Á hinn bóginn einnig til að draga úr mjög mikilli eftirspurn, m.a. eftir innfluttum vörum, ekki síst nú þegar horfur um þróun viðskiptajafnaðar virðast vera mjög uggvekjandi.

Eins og fram hefur komið voru betri kjör en áður boðin á spariskírteinum til lengri tíma. Svo virðist sem sala þessara bréfa sé í allgóðu lagi, að fyrir þau sé viðunandi markaður. Aftur á móti hefur enn ekki reynt á hvort nýjar aðferðir við sölu ríkisvíxla muni binda fé svo um munar. Þá er enn of fljótt að segja til um það hvernig til muni takast og hvort almennur áhugi verði á því að binda fé á gengisbundnum innlánsreikningum.

Þýðing aukins sparnaðar er ótvíræð. Á hinn bóginn er það íhugunarefni hvort fjármagnsmarkaður hér á landi hafi þróast svo að markaðsöfl, framboð og eftirspurn, geti á óvissutímum laðað fram viðunandi jafnvægi á lánamarkaði og þolanleg vaxtakjör. Um það verð ég að játa að ég hef verulegar efasemdir. Núverandi skipulag bankakerfisins er fjarri lagi hagkvæmt. Það er dýrt í rekstri. Einingarnar eru allt of smáar og veikburða og eiginfjárstaðan of slök. Afleiðingar þessa birtast m.a. í háum vöxtum og miklu vaxtabili. Vaxtakjör ráðast ekki síst af verðbólguvæntingum. Mikil óvissa í efnahagsmálum eða launamálum leiðir óhjákvæmilega til vaxtahækkunar við ríkjandi skilyrði. Aukin hagkvæmni í rekstri lánastofnana, stöðugleiki í efnahagsmálum og varanleg aukning sparnaðar eru helstu forsendur þess að vextir geti lækkað. Þess mun fyrr en síðar gæta, m.a. vegna þess að verulega dregur úr lánsfjárþörf hins opinbera samkvæmt því lánsfjárlagafrv. sem hér hefur verið lagt fram.

Herra forseti. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara við 1. umr. ítarlega út í einstaka liði frv., einstaka framkvæmdaliði eða annað þess háttar. Ég tel eðlilegt að það verði gert að lokinni umfjöllun í nefnd. Ég leyfi mér að lokum að mælast til þess að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.